09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ingólfur Bjarnarson:

Mjer fanst anda nokkuð kalt til fóðurbirgðafjelaganna frá hv. frsm. (BSt: Nei, nei). Jú, því mjer fanst samanburður hans eiga að sanna, að ekkert væri með þeim fengið. En dæmi það, er hann tók, sannar ekkert, því bæði geta fóðurtryggingar í hans hreppi verið í svo góðu lagi, að ekki þurfi úr að bæta þó þar sje ekki fóðurbirgðafjelag, og eins má vera, að fóðurbirgðafjelag það, er hann tilnefndi í nágrannasveitinni, sje ekki nema nafnið, eins og vitanlega getur átt sjer stað, og þá ekkert við það að miða. Enda er gert ráð fyrir því í frv., að lántakandi þurfi í þessu tilfelli að vera í fóðurbirgðafjelagi, er bankastjórnin tekur gilt. Þetta er alveg rjettmætt ákvæði, því þessi fjelög geta vitanlega verið mjög mismunandi.

Jeg talaði ekki um, hvort lántakendum væri ljettara að fá ábyrgð hreppa eða fóðurbirgðafjelaga, enda tel jeg það ekki neitt sjerstakt bjargræði í þessu máli að gera lánsaðgönguna sem allra greiðasta. En jeg benti á, að hreppsfjelögunum væri um of íþyngt með þessu ákvæði um hreppsábyrgðina, sem þó mundi ekki ávalt koma lánbeiðendum að haldi. Í þessu sambandi mintist hv. frsm. á það, að fóðurbirgðafjelögin væru svo fá, að þetta ákvæði kæmi ekkert að liði hvort sem væri. En þá er athugandi, að þetta myndi einmitt verða til þess að fjölga þeim, og tel jeg þá vel farið. — Jeg vil að síðustu taka fram, að jeg get ekki sjeð, að þetta ákvæði um fóðurbirgðafjelögin sje á nokkurn hátt harðara skilyrði í þessu máli heldur en það, sem stendur um, að búfjeð sje trygt gegn sjúkdóma- og slysahættu.