29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 451. Eru þær að efni til 3. Fyrsta till. fer fram á, að haldið verði því ‘skilyrði fyrir kosningarrjetti í sveitarmálefnum, sem verið hefir og nú er, að hlutaðeigandi sje ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, með þeim takmörkunum þó, að það nái aðeins til þeirra, sem eru í skuld vegna leti, óreglu eða hirðuleysis.

Með þessum brtt. vildi jeg láta það koma skýrt fram, að jeg vil ekki láta sveitarstyrk þeginn vegna venjulegra orsaka, svo sem heilsuleysis, ómegðar og annars hliðstæðs, svifta menn kosningarrjetti. Jeg get ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til að gera þá breyt., að þeim verði veittur kosningarrjettur, sem vegna leti, óreglu eða hirðuleysis eru á framfæri hins opinbera. Hinsvegar er það svo, að ef einhver hefir orðið fyrir því að þiggja slíkan styrk, en svo bætt ráð sitt, án þess að vera þó orðinn þess megnugur að hafa getað endurgreitt hann, þá hefir sveitarstjórnin það á sínu valdi að gefa hlutaðeigendum upp skuldina. Jeg fæ því ekki sjeð, að gengið sje á sanngjarnan rjett neins manns, þó þetta sje samþ.

Þá er næst 4. brtt. mín. við 6. gr. Hún er aðeins til skýringar á því, hvenær megi endurkjósa þá, er fara frá. Þetta er svo óljóst eins og það er nú í frv., að það er fyrirsjáanlegt, að það getur valdið vafa. Samkv. frv. hafa fráfarandi fulltrúar rjett til að skorast undan kosningu aftur, en í 2. gr. stendur, að það megi endurkjósa þá. Til þess að þetta geti samrýmst, verður að setja í frv. ákvæði um það, hvenær fráfarandi fulltrúar verði að hafa látið uppi, hvort þeir vilja taka við endurkosningu. En jeg lít svo á, að samkv. frv. sje þeim ekki skylt að láta í tje upplýsingar um það, hvort þeir vilja verða við kosningu aftur. Mundi þeim því ef til vill heimilt eftir á að neita að taka við kosningu, er þegar hefir farið fram. Að vísu mundi þetta ekki valda óbærilegum vandræðum, því altaf væru til varafulltrúar, en það sýnist ekki eðlilegt áð ganga svo frá lögunum að kosinn fulltrúi geti skorast undan því að taka sæti. Jeg legg því til, að það ákvæði verði sett í frv., að fulltrúar þeir, er frá fara, verði að hafa tilkynt kjörstjórn 3 dögum áður en framboðsfrestur er útrunninn, ef þeir ætla að skorast undan endurkosningu.

Hinar brtt. allar fela það eitt í sjer, að haldast skuli óbreytt ákvæðin í bæjarstjórnarlögunum um kosningu bæjar- eða borgarstjóra og atkvæðisrjett hans í bæjarstjórn. Held jeg, að svo sje gengið frá þessum brtt. mínum, að ekki verði missmíði á frv., þó þær verði samþ. Jeg get ekki fundið neina ástæðu til þess að taka af borgurunum í kaupstöðum þann rjett, er þeir hafa lögum samkv., að kjósa sjálfir borgar- eða bæjarstjóra sína. Og í raun og veru er það aðeins ein ástæða, sem jeg hefi heyrt færða fyrir því, að þessari nýju tilhögun verði komið á, og hún er sú, að hugsanlegt sje, að sá, er situr í borgarstjórasætinu. geti orðið í ósamræmi við meiri hluta bæjarstjórnar. En jeg tel þessa ástæðu ekki mikils virði, og er það af tvennu. í fyrsta lagi hefir borgarstjóri altaf það úrræði að segja af sjer, ef samvinnan við bæjarstjórnina er erfið. Og í öðru lagi tel jeg það ekki skifta miklu máli, þó borgarstjóri sje úr öðrum stjórnmálaflokki en meiri hl. bæjarstjórnar. Því það mun svo í flestum tilfellum, að það er heldur til hins lakara að teygja stjórnmálaflokkaskiftinguna um of inn í störf bæjar- og sveitarstjórna. Veit jeg ekki til, að hægt sje að benda á eitt einasta dæmi hjer á landi, er sýni það, að núverandi tilhögun hafi gefist illa. Hinsvegar eru auðsæir kostir við það að hafa bæjarstjóra kosinn af borgurum bæjarins, því hann verður þá sjálfstæðari gagnvart bæjarstjórninni. Þess vegna hljóta þeir er trúa því, að alm. kosningarrjettur sje besti grundvöllurinn, er kostur er á fyrir lands-, bæjar- og löggjafarstarfsemi, að stuðla að því, að menn fái að njóta hans í sem ríkustum mæli. Og ennfremur hlýtur það að vera skoðun þeirra, að með honum sje það best trygt, að heppilega takist val á þeim mönnum, er kjósa á.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta. Jeg sje enga ástæðu til þess að taka þennan rjett af borgurunum, og ennþá minni ástæða finst mjer vera til þess að taka atkvæðisrjettinn af borgarstjórunum. Þykist jeg vita, að hjer muni vera að verki öfl bak við tjöldin, er geri það að verkum, að brtt. mínar nái ekki fram að ganga. Er fullyrt, að þessi breyting sje ein af þeim fórnum, er Alþýðuflokkurinn heimtar af Framsókn. En jeg vildi ekki láta þetta mál fara út úr deildinni án þess að atkvgr. skæri úr um þessi atriði.