29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Erlingur Friðjónsson:

Þó að jeg flytji eina brtt. við frv., ætla jeg, áður en jeg tala um hana, að fara nokkrum orðum um brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 451, því að jeg tel eðlilegt, að þær sjeu gerðar að umræðuefni, þar sem þær fara fram á miklar breyt. á frv., sem ganga yfirleitt í þá átt að færa í sama horf aðstöðu borgarstjóra til bæjarstjórna og var eftir 1926.

Það er að sönnu kunnugt, að alment var það ekki svo, að borgarar kysu borgarstjóra, fyr en 1926. Jeg er ekki viss, að um fleiri en einn hafi verið að ræða, nefnilega bæjarstjórann á Akureyri, sem var kosinn af bæjarstjórn Akureyrar þar til 1926. Við Akureyringar höfum því reynt hvorttveggja fyrirkomulagið, því að síðasta ár var bæjarstjórinn þar kosinn af borgurum. Jeg tel fyrra fyrirkomulagið miklu hagkvæmara, og þó fylgir ekki lögunum frá 1926 það ákvæði fyrir Akureyri, sem gildir fyrir Reykjavík, að borgarstjóri hafi atkvæðisrjett í bæjarstjórn með því að vera kosinn af borgurum. Er það mjög þýðingarmikið atriði, hvort hann fær atkvæðisrjett með sinni sjerstöku kosningu eða ekki.

Hv. flm. virtist þó sjá þann ókost við kosningu borgarstjóra, ef hann væri kosinn af borgurum, að hann gæti ef til vill orðið í andstöðu við meiri hl. bæjarstjórnar. Þetta er þó ekki hættulegasta aðstaðan, heldur hitt, að meiri hl. bæjarbúa öðlast með þessu aukið atkvæðamagn í bæjarstjórn. Það eðlilegasta ef, að sá meiri hl. borgara, sem kýs og skipar meiri hluti bæjarstjórnar, mundi einnig ná borgarstjóranum með almennri kosningu. Hitt er óeðlilegt, að borgarstjórinn sje í minni hl., eða þá viðbót við þann meiri hl., sem ræður í bæjarstjórn. Þó að ekki væru aðrar ástæður fyrir hendi en þetta, eru það ærið nógar ástæður fyrir því, að breyt. sje gerð.

Það er nauðsynlegt, að borgarstjóri sje töluvert háður bæjarstjórn. Jeg þykist vita, að hvaða fyrirtæki sem er geri þá kröfu til síns framkvæmdarstjóra, að framkvæmdarvaldið sje hæfilega háð þeim, sem fyrirskipanirnar gefa. Ef borgarstjóri á kjörfylgi sitt undir borgurunum, fer hann meira að vilja þeirra, sem hann á embætti sitt undir, en hinna, sem gefa honum fyrirskipanir. Úr því að hinum kjörnu fulltrúum í bæjarstjórn er gefið það vald að ráða málum bæjarins, má ekki leggja neinar þær hömlur á borgarstjóra af kjósendum hans, að hann fari ekki altaf að vilja bæjarstjórnar.

Þó að ýmislegt fleira mætti til tína í brtt. hv. 3. landsk., tel jeg það ekki skifta svo miklu máli, að ástæða sje til að fjölyrða um það. Jeg get tekið undir með hv. 2. þm. S.-M. um þau atriði. Jeg tel ekki ástæðu til að fylgja frekar 4. brtt. hv. 3. landsk. en hinum brtt. hans. Þó að hún sje ekki skaðleg, hefir hún litla þýðingu fyrir málið.

Jeg skal þó minnast á fyrstu brtt., því að jeg geri ráð fyrir, að hv. flm. leggi mikið upp úr því, hvort hún verður samþ. eða ekki. Jeg skal lýsa yfir því, að jeg ætla að greiða atkv. með því, að hirðuleysingjar og letingjar fái að halda sínum atkvæðisrjetti eins og aðrir borgarar, af því að það er ekki ljett verk að ákveða, af hvaða ástæðum einn og annar nýtur fátækrastyrks. Jeg vil því frekar lofa nokkrum miður hæfum mönnum að hafa kosningarrjett en að taka þann rjett af góðum borgurum, þó að þeir sjeu svo illa settir í lífinu, að þeir verði að þiggja af sveit. Einnig má benda á ummæli síðasta ræðumanns um þann órjett, sem konum slíkra manna er sýndur. Kona, þó að dugleg sje og gáfuð, á að fylgja bóndanum út í óregluna og hirðuleysið. (JÞ: Það er misskilningur). Þá þarf hv. 3. landsk. að ganga betur frá till. sinni en hann hefir gert, ef hún á að skiljast á annan veg.

Það mætti geta þess, að ef sú regla á að gilda, að borgarar í bæ kjósi borgarstjóra sinn á sama hátt og kosið er til bæjarstjórnar, ættum við sennilega að gera þá breyt. á kosningalögum til Alþingis og láta kjósa ríkisstjórnina með almennum kosningum um land alt. Ef það er eðlilegt, að borgarar í bæjum kjósi bæjarstjóra, er það engu síður eðlilegt, að borgarar landsins kjósi landsstjóra. En þetta úrelta fyrirkomulag, að borgararnir kjósi bæjarstjóra, er vitanlega eitt af því, sem á að fara að kippa í lag, og ætti að vera búið að kippa í lag fyrir löngu síðan.

Hv. flm. var að tala um „fórnir“ Framsóknarflokksins til jafnaðarmanna. Jeg vil spyrja: Ef hjer er um einhverja fórn að ræða, var það þá ekki líka fórn á sínum tíma handa andstæðingum jafnaðarmanna, sem færð var með lögunum frá 1926? Og fyrst andstæðingar jafnaðarmanna hafa notið blessunar af fyrra ástandinu, þá er sanngjarnt, að þeir fái nú að þola þessa breytingu.

Loks kem jeg að brtt. minni. Það, sem jeg ætla mjer með henni, er ekki annað en að tiltaka ofurlítið gleggra en áður hefir verið um kosningu endurskoðenda og nefnda í bæjarstjórn. í stað orðanna: „Gildir kosning þeirra um eitt ár“ vil jeg að komi: „Kosning nefnda og endurskoðenda gildir um eitt ár“. Það hefir verið svo áður, að kosið hefir verið í nefndir eftir að fram hefir farið kosning til bæjarstjórnar og kosningin gilt til tveggja ára. Samkv. breyt. þessari á kosningalögunum á að kjósa þriðja hvert ár, og virðist rjett að taka það fram í l., hvort kosning nefnda á að gilda um eitt ár, 3 ár eða óákveðinn tíma.