30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Páll Hermannsson:

Jeg á hjer á þskj. 473 brtt. við frv., sem hjer liggur fyrir. Þessi brtt. er fram komin til þess að fyrirbyggja það, að það geti komið fyrir, að einn hreppur eigi ekki sýslunefndarmann á sýslufundi. í 33. gr. laganna frá 1926 um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða er komist svo að orði, að sýslunefndarmann skuli kjósa á manntalsþingi. Manntalsþing er nú ekki haldið nema einu sinni á ári, og það er á vorin, og er eftir þessu ákvæði laganna ekki heimilt að kjósa sýslunefndarmann nema þá. Bæði getur nú komið fyrir, að á milli manntalsþinga deyi aðal- og varasýslunefndarmaður í sama hreppi, eða verði forfallaðir af öðrum ástæðum, og er þá samkv. lögunum ekki hægt að kjósa nýja menn í þeirra stað fyr en á næsta manntalsþingi, og getur hreppurinn þá orðið fulltrúalaus á sýslufundi. Mjer er kunnugt um, að þetta hefir komið fyrir, og það er þetta, sem brtt. mín á að fyrirbyggja. Jeg ætlast til, þegar svo stendur á, að þá geti hreppsnefnd gengist fyrir nýrri kosningu, er gildi fram að næsta manntalsþingi. Jeg vona svo að hv. þdm. sjái, að það getur staðið svo á, að þessi breyt. mín komi að liði, og sjái sjer því fært að greiða tillögunni atkvæði.