30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Í gær hafði jeg ekki tíma til þess að vera hjer í þessari hv. deild við fyrri umr. málsins, og vildi því nota tækifærið nú til þess að minnast á brtt. hv. 3. landsk. um það, að færa ákvæðið um skipun bæjarstjóra og borgarstjóra aftur í hið gamla horf. Aðalröksemdin á móti þessu er sú, að þá fær meiri hl. að kjósa tvisvar á móti minni hl., og það er með öllu ranglátt. Hjer í Reykjavík er t. d. að staðan sú, að meiri hl. kjósendanna ræður kosningu borgarstjórans, og það er auðvitað ekki nema rjett; aftur á móti er það ekki rjettlátt, að þessi meiri hl., sem notar sitt afl til þess að fá ef til vill ekki nema eins atkvæðis meiri hl. í bæjarstjórninni, fái aftur nýtt atkvæði, borgarstjórans, út úr almennum kosningum um borgarstjóra. Við bæjarstjórnarkosningar hjer fær meiri hl. 3 fulltrúa, ef 5 eru kosnir í einu, og er það ekki nema rjettmætt, og út úr þrennum kosningum fær meiri hl. þannig 9 fulltrúa en minni hl. 6. Nú er það öllum vitanlegt, að fyrir neðan minni hl. sem fær 6 fulltrúa, er annar minni hl., sem ræður yfir rúmlega 1 þús. atkv., en hefir ennþá ekki komið að neinum fulltrúa vegna skipulagsins á kosningunum. Ef þetta frv. verður aftur á móti samþ., þá er sjeð fyrir því, að minstu flokkarnir geti fullkomlega notið rjettar síns. Þá verður líka bætt úr því ranglæti, að sterkasti flokkurinn, sem fær flesta fulltrúa og þar af leiðandi mest atkvæðamagn í bæjarstjórninni, fái þar á ofan eitt atkvæði til viðbótar, þar sem er atkvæði borgarstjórans. Mig furðar satt að segja á því, að hv. 3. landsk. skuli ekki sjá eða vilja sjá, að með frv. óbreyttu næst langmest rjettlæti. Eftir því mundi sá minni hl. hjer í bænum, sem ræður yfir 1 þús. atkv., fá 1 fulltrúa eða 2, og væri það nokkur viðurkenning á þessum litla flokki, sem hefir sjerstaka stefnu. Með því að fella brtt. hv. 3. landsk. er komið í veg fyrir það órjettlæti, að meiri hl. fái óeðlilega mikla hlutdeild í bæjarmálunum, án þess þó að hætt sje við að hann missi undirtökin, en það er meining hv. 3. landsk. með brtt. sínum, að veita honum sjerstaka uppbót, sem hann á ekki skilið.

Jeg vil svo að endingu minna á það, að það er ófært að bæjarstjóri sje ekki alveg háður vilja bæjarstjórnarinnar, og það er vansmíði á frv., þetta bráðabirgðaákvæði, sem sett var inn í það í hv. Nd. um það, að bæjarstjórar geti setið enn í mörg ár þó að þeir sjeu í ósamræmi við meiri hl. í bæjarstjórninni. Þætti mjer mjög óheppilegt, ef þessi hv. deild hjeldi við þessu ákvæði.