30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Þorláksson:

Sá misskilningur kom fram hjá hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. S.-M. í gær, að 1. brtt. mín á þskj. 451, um að svifta þá kosningarrjetti, sem standa í skuld við sveitarstyrk, er þeir hafa þegið vegna leti, óreglu eða hirðuleysis, mundi einnig svifta konur þessara manna kosningarrjetti. En þetta er hreinasti misskilningur, því öll þessi ákvæði eru persónuleg og ná því aðeins til þess einstaklings, sem þau eiga við. Brtt. mín gerir enga undantekningu á þessari reglu. Og hún er ekkert frábrugðin því, sem gerðist, ef hin leiðin, sem hv. 4. landsk. talaði um, væri farin, sú, að svifta slíka menn fjárráðum með dómi. Hann viðurkendi því í raun og veru, að rjettast væri að svifta slíka menn kosningarrjetti, en vildi aðeins gera það á þann hátt að dæma af þeim fjárráð. En þótt það sje ekki tekið beint fram í þessu frv., þá er það ljóst eftir öðrum lögum, t. d. l. um kosningar til Alþingis, að mín till. gerir enga breyt. á venjunni um þetta efni, og sviftir því engan kosningarrjetti, annan en þann, sem verður þurfamaður vegna leti, óreglu eða hirðuleysis. Þessu vil jeg slá föstu og tel því mótbárur hv. þm. á misskilningi bygðar. Annars fanst mjer hv. 2. þm. S.-M. óþarflega beiskyrtur yfir þessari till. minni. Það var eins og honum fyndist það einhver misgerð gagnvart Alþingi að láta það þurfa að greiða atkv. um slíkt. Jeg er nú í minni hl. hjer og býst því ekki við, að jeg fái það samþ., sem meiri hl. telur sjer misboðið með að greiða atkv. um. En rjettur minni hl. er þó ávalt sá, að mega gera tilraun til þess að fá það lagfært, sem honum virðist þurfa lagfæringar við. Og þótt einhverjum úr meiri hl. þyki leitt að þurfa að greiða atkv. um það, sem hann þykist þurfa að fella, en er þó sammála í hjarta sínu, eins og jeg hygg, að sje í þessu um hv. 2. þm. S.-M., þá er ekki hægt fyrir minni hl. að hlífa þeim við því að greiða atkv. um það.

Mjer fanst hv. 4. landsk. líka telja þetta órjettmætt. Hann taldi aðeins varhugavert að láta bæjar- og sveitarstjórnir ákveða þetta, en vildi heldur, að það væri gert með dómsúrskurði. En það er athugavert, að það að svifta menn fjárráðum er talsvert víðtæk ráðstöfun. Mjer finst því rjett, að fyrst sje reynd sú ráðningin, sem er minni, sem er sú, að láta menn missa kosningarrjett í sveitarmálefnum, áður en hið meira er gert, sem það óneitanlega er að gera menn ófjárráða. Það er altaf hugsanlegt, að menn bæti ráð sitt. En sú ganga verður erfiðari fyrir menn, sem hafa verið dæmdir frá fjárráðum, heldur en þótt þeir hafi verið sviftir kosningarrjetti með því að láta nöfn þeirra ekki standa á kjörskrá einu sinni eða oftar. Það eru engir örðugleikar á því að kippa því í lag. Erfiðleikar við framkvæmd þessa eru engir. Það er ekki nema holl og sjálfsögð regla, að fátækrastjórnirnar geri sjer grein fyrir því í hvert sinn, af hvaða orsökum sje leitað sveitarstyrks. Þetta er gert svo hjer í bæ. Fátækranefnd heldur skrá yfir þá þurfalinga, sem ekki eiga að njóta kosningarrjettar, og kjörstjórnin hefir þá skrá til athugunar eins og þurfalingaskrá nú. Kjörskráin er svo athuguð, ef kærur koma fram. Og liggi þá ekki fyrir skilríki um það, að leti, óregla eða hirðuleysi sje orsök sveitarstyrksins, þá verður heldur ekki kosningarrjettur tekinn af þeim, sem kært er yfir. Jeg sje því ekki betur en að hv. þm. geti greitt atkv. með þessari brtt., eftir því áliti sem hann hefir á því.

Hv. þm. Ak. hjelt því fram, að um svo fáa menn yrði að ræða, að ekki tæki því að samþ. þetta. Getur verið, að svo verði. En hið sama er þó um þetta að segja, að annað slíkt hefir verið í lögum og miðað að því að fæla menn frá að leita sveitarstyrks að nauðsynjalausu. Þau ákvæði hafa ekki verið sett til þess að hefna sín á þeim mönnum, sem þiggja sveitarstyrk, heldur til þess að vernda sveitarsjóðinn fyrir of mikilli eða órjettmætri ásækni manna í hann. Og jeg held, að þó menn vilji fella niður ákvæðið um, að kosningarrjettur sje bundinn því skilyrði, að kjósandi standi ekki í sveitarskuld, þá sje þó rjett að halda eftir því, sem till. mín felur í sjer, af sömu ástæðu. Og þótt þeir menn sjeu nú blessunarlega fáir, sem verða hjálparþurfar vegna þess, er í till. minni greinir, þá er rjett að setja skorður við, að þeim fjölgi. Og það er hendi næst að láta þetta ákvæði gilda áfram um þá.

Jeg skal þá næst fara örfáum orðum um þá brtt. mína, að láta skipun á kosningu borgarstjórans haldast óbreytta. Eiginlega hefir nú ekki komið fram nema ein ástæða umfram þær, sem áður voru fram komnar og jeg hefi svarað, enda hafa þær ekki verið hafðar á oddinum síðan. Þessi nýja ástæða var, eins og hv. þm. Ak. orðaði hana, sú, að með því væri meiri hl. gefið meira vald en hann ætti skilið. Hæstv. dómsmrh. var áður búinn að segja þetta sama. Þetta fer nú nokkuð eftir því, hvernig á málið er litið. Ef borgarstjóri er skoðaður sem hluti af bæjarstjórninni, þá má segja, að þetta sje svo. En sje hann skoðaður sem framkvæmdarstjóri bæjarins í bæjarmálum, og eins þeim, sem ekki liggja nema að nokkru leyti undir úrskurð bæjarstjórnar, eins og oft er, þá má segja, að hann sje framkvæmdarvald fyrir bæinn. Og þá má með eins miklum rjetti segja, að það sje eðlilegt, að borgararnir ráði því með atkv. sínum, hverjum þeir trúa fyrir þessu framkvæmdarvaldi, eins og þeir ráða kosningu bæjarfulltrúanna. Það er ekki minna um vert. Af þessu er það þó ekki bein afleiðing, að borgarstjóri eða bæjarstjóri hafi atkvæðisrjett í bæjarstjórn; það þarf ekki að vera, og er enda ekki sumstaðar. Brtt. mín segir heldur ekkert um það. Hún segir bara, að það skuli standa, sem er. Og ef menn vildu breyta þessu þar, sem borgarstjórar hafa atkvæðisrjett, þá er vitanlega hægt að gera það. En jeg fyrir mitt leyti tel það nú engan sjerstakan galla, þótt meiri hl. fái með þessu aukið atkvæðamagn. Gallinn á núv. stjórnskipulagi er tíðast sá, að meiri hl. er of veikur til að ráða og bera fullkomna ábyrgð á því, sem framkvæmt er, þar sem hlutbundið kosningafyrirkomulag er orðið ráðandi. Menn hafa á síðari árum verið að hugsa upp fyrirkomulag, sem bætti úr þessu og gerði meiri hl. svo sterkan, að hann gæti komið sínum málum fram. Jeg held því, að það sje ekkert við það að athuga, þótt meiri hl. fái eitt viðbótaratkv. með þessu fyrirkomulagi. En þetta stendur þó ekki í neinu sambandi við brtt. mína. Hún segir bara, að það skuli standa, sem nú er í þessu efni. Borgarstjórinn hjer hefir þá atkvæðisrjett, en bæjarstjórinn á Akureyri mun ekki hafa hann, svo jeg nefni tvö dæmi. — Jeg hefi altaf getað skilið vel þá aðstöðu manna, sem eru mótfallnir því eða vilja fara hægt í það að breyta stjórnskipuðum embættum í þjóðskipuð embætti. En jeg skil síður í þeim mönnum, sem vilja láta þetta ganga aftur á bak aftur. En svo á að gera hjer, þar sem á að taka rjettinn af kjósendum og fá hann í hendur bæjarstjórnarinnar. Og þótt segja megi, að kjósendurnir ráði því óbeinlínis með vali sínu á bæjarfulltrúunum, þá verður sá rjettur aðeins óbeinn og því minni.

Vitanlega hafa þessi ákvæði verið borin fram að gefnu tilefni frá jafnaðarmönnum, sem þykjast ekki ráða eins vel við þær kosningar, þar sem kosið er beint, eins og ef um kosningu innan fámennrar bæjarstjórnar væri að ræða. En jeg held, að borgararnir bindi sig ekki eins einstrengingslega við stjórnmálaskoðanir eins og þegar kosið er með hlutfallskosningu í fámennri bæjarstjórn. En það þýðir víst ekki að tala meira um þetta. Þetta hefir nú verið heimtað, og jeg býst því við, að brtt. mínar verði feldar.