30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Fram. (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi ekki mikla ástæðu til að svara hv. 3. landsk. þm., því að ummæli hans voru svo vaxin, að þau sumpart áttu sjer engan stað í 1., en sumpart voru þau ástæðulausar aðdróttanir og getsakir í minn garð.

Hann taldi, að það væri af misskilningi sprottið, þegar jeg hjelt því fram, að konurnar mistu kosningarrjett sinn samkvæmt till. hans. Þetta er rangt, eins og hæstv. forseti hefir bent á. Hinu get jeg trúað, að það hafi ekki vakað fyrir honum að svifta konur þessara manna kosningarrjetti sínum með till., þó að þetta komi ekki fram í þeim. Hann þarf því að breyta till. í þessa átt.

Út af því, sem hæstv. forseti sagði, vil jeg geta þess, að þess eru fá dæmi, að einhleypir menn verði sveitarstyrkþegar, en aftur á móti mörg dæmi þess, að giftir menn þurfi að þiggja af sveit. Jeg tel ekki ástæðu til að auka raunir þeirra kvenna, sem orðið hafa fyrir því óláni að eiga óreglumenn, með því að svifta þær kosningarrjettinum. Legg jeg ekki lítið upp úr þessu atriði. Jeg vil heldur, að nokkrir fljóti með, sem ekki verðskulda það að hafa kosningarrjett, en að konur eða karlar sjeu svift þessum rjetti að ástæðulitlu.

Hv. 3. landsk. sagði, að jeg teldi mjer misgert með því að neyða mig til að greiða atkvæði með rjettmætum lagfæringum á þessu frv. Jeg veit nú ekki, á hverju hann byggir þetta. En jeg skal gjarnan gera honum það til geðs að greiða atkv. á móti brtt. hans, jafnvel öllum, þó að jeg telji eina þeirra svo meinlausa, að hún mætti gjarnan komast að.

Þá sagði hann, að jeg væri neyddur til að greiða atkv. í þessu máli á móti eigin sannfæringu. Aðra eins yfirlýsingu og þessa skoða jeg sem hver önnur rökþrot. En það er ekki nýtt, að hv. 3. landsk. láti það klingja, að við framsóknarmenn sjeum neyddir til að færa jafnaðarmönnum fórnir, en hæstv. forsrh. rak þetta svo rækilega ofan í hann, að þess er ekki þörf að gera það betur. Jeg býst við, að hv. 3. landsk. gangi til sama góðvildin með þessum getgátum í minn garð, en hann þarf ekki annað en að fletta upp í fátækralögunum, til að sannfærast um, að hjón með óskiftum fjárhag missa saman kosningarrjett sinn, ef þau þiggja af sveit. Um þetta atriði þýðir ekki að deila.

Út af deilunni um það, hvernig kjósa skuli bæjar- eða borgarstjóra, vil jeg drepa á eitt atriði, sem ekki hefir komið fram enn. Það er að vísu ekki mjög mikilvægt. Hv. 3. landsk. var að lýsa þeim æsingum, sem ættu sjer stað við kosningar á bæjarstjórnum og bæjar- eða borgarstjórum. Eins og nú er, fara þessar kosningar fram hver á eftir annari, og verða þannig eldhúsdagarnir tveir, sem þessar kosningar valda. Mælir það ekki með núverandi fyrirkomulagi.

Út af brtt. hv. 2. þm. N.-M. vil jeg taka það fram, að n. hefir ekki átt kost á að athuga þær og hefir því um þær óbundnar hendur, en jeg get lýst yfir því frá mínu sjónarmiði, að jeg tel þær til bóta. Það hefir sýnt sig, að það getur komið fyrir, að bæði sýslunefndarmaður og varamaður hans falli frá samæris, og er eðlilegt, að hreppsnefndir kunni því illa að vera fulltrúalausar á sýslufundi, þó að svo beri að. Þess eru dæmi, að hreppsnefndir hafa í slíkum tilfellum kosið sýslunefndarmann, en út af því risið deilur og alt verið gert ólögmætt. Jeg tel, að till. hv. 2. þm. N.-M. ráði bót á þessu, og mun því fylgja þeim. Það er að vísu rjett, eins og hæstv. forseti tók fram, að þessi tilfelli eru sjaldgæf, en alt fyrir það er rjett að gera við þeim.

Í fljótu bragði virðist mjer brtt. hæstv. forseta varhugaverð. Jeg hygg, að kosningunni verði betur komið fyrir eins og í brtt. hv. 2. þm. N.-M. stendur. Jeg tel það lakara fyrirkomulag að láta þessa bráðabirgðakosningu gilda út alt kjörtímabilið, því það getur komið fyrir, að hún þurfi að fara fram jafnvel á fyrsta ári kjörtímabilsins. Þykir mjer ekki rjett, að sú undantekning gildi alt tímabilið. Jeg tel það betur fara, sem í hinni brtt. stendur, að hún gildi aðeins til næsta manntalsþings.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Umr. eru nú orðnar langar og mun ekki vinnast mikið, þó þeim verði haldið áfram.