30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Jónsson:

Það hafa nú orðið miklar umr. um mál þetta, og sje jeg ekki ástæðu til að blanda mjer mikið inn í þær.

Fyrst verður fyrir mjer 1. brtt. á þskj. 451. Er mjer óskiljanlegt, hvað miklar umr. hafa orðið um hana, því jeg fæ ekki sjeð annað en að hún sje sanngjörn, og virðist mjer allir vera fylgjandi þeirri hugsun, er á bak við liggur, en greinir aðeins á um, hvort hún segi meira en henni er ætlað að segja eða ekki og hvort hún valdi erfiðleikum í framkvæmd. Jeg hygg, að eins og fátækralögin eru framkvæmd þar, sem jeg þekki til, þá verði ekki miklir erfiðleikar á að framkvæma hana. Jeg hefi skilið svo 43. gr. fátækral., að það væri skylda sveitarstjórna að úrskurða, hvort fátækrastyrkur væri afturkræfur eða ekki. Og sje styrkurinn ekki afturkræfur, þá getur þurfamaður ekki staðið í skuld fyrir hann. Og samkv. fátækral. er styrkur tæpast afturkræfur fyrir aðrar sakir en þær, sem í brtt. eru taldar. Verður það því engum vandkvæðum bundið fyrir kjörstjórn að sjá, hverjir falla undir þetta ákvæði. Og ef örðugleikar verða á því, þá er það eingöngu að kenna vanrækslu sveitar- og bæjarstjórna.

Hitt getur orkað nokkuð tvímælis, hvort brtt. gengur út yfir maka þess, er styrkinn fær. Jeg held samt, að með viðaukatill. hv. flm. nái það ekki út yfir makann, nema hann sje þá undir sömu sökina seldur, einkanlega þar sem hv. flm. hefir skýrlega lýst því hjer í umr., hvað fyrir sjer vakir. Jeg mun því greiða þessari till. atkv., en með þessum skilningi.

Brtt. um borgarstjórana get jeg ekki greitt atkv. Jeg teldi það óheppilegt öllu samstarfi, að borgarstjóri kæmist í ósamræmi við meiri hl. bæjarstjórnar. Engum hefir heldur dottið þetta í hug viðvíkjandi oddvitum, að láta hreppsbúa kjósa þá, en ekki hreppsnefnd. Það væri alveg í samræmi við þessa brtt., en það teldi jeg ekki til bóta.

4. brtt. held jeg að skifti litlu og sje að minsta kosti í sveitum landsins harla lítils virði. Aðrar brtt. á þessu þskj. skilst mjer, að grípi eingöngu um borgarstjórana og standi og falli hver með annari.

Viðvíkjandi brtt. hv. 2. þm. N.-M., þá finst mjer óviðfeldið að gera ráð fyrir öðru fyrirkomulagi við þessar aukakosningar en venjulega er haft. Jeg get alls ekki sjeð eftir sýslumanninum til að stjórna kosningunni. Finst mjer till. hæstv. forseta vera eðlilegri; þarf þá ekki að fara að kjósa upp aftur og baka mönnum svo óþarfa fyrirhöfn. Mun jeg því greiða till. hans atkv.