03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg fæ ekki sjeð, hvernig hægt er að bera 6. lið 1. gr. upp sjerstaklega, eins og hv. 2. þm. Reykv. fer fram á, því þar sem hjer er aðeins um eina umr. að ræða, skal bera frv. upp í heild. En annars sker forseti vitanlega úr því.

Annars fæ jeg ekki sjeð, að brtt. hv. 2. þm. Reykv. geti átt hjer við, því ef þessir menn verða sviftir fjárforræði, falla þeir undir annan lið. Og úr því hv. þm. fór að koma fram með brtt. við frv., hefði hann heldur átt að hafa hana þess efnis, að 6. liður 1. gr. falli burtu. (HV: Við getum gert það ennþá). Já, því þá ekki að gera það? Hitt er annað mál, hvort hv. deild vill vera að hrekja frv. milli deilda. Jeg efast mjög um það, enda held jeg, að það sje ekki svo mikið, sem mælir með því, að þessir menn, er þiggja af sveit vegna leti. óreglu eða hirðuleysis, hafi áhrif á landsmál með atkv. sínum, að ástæða sje til þess. Geri jeg ráð fyrir, að með þessum 6. lið 1. gr. sje átt við svipað og í 43. gr. fátækralaganna.

Þá talaði hv. þm. um það, að hætta væri á því, að íhaldssamar sveitarstjórnir segðu, að allur sveitarstyrkur væri greiddur vegna hirðuleysis þeirra, er þyrftu hans með. Jeg veit ekki, hvaðan hv. þm. hefir þessa speki sína. En vilji hann athuga till. íhaldsmanna á þinginu 1927, þá getur hann sjeð, hvað þeir telja að afsaki hann nægilega til þess að þeir, er þiggja hann, haldi öllum rjettindum. Jeg vil skora á hv. þm. að taka þessa brtt. sína aftur og koma þá heldur með aðra skriflega, þess efnis að fella burtu 6. lið 1. gr. Þá verður 1. gr. fyrst frambærileg, en verði þessi brtt. á þskj. 522 samþ., verður hún hrein vitleysa.