03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla mjer ekki að fara að lengja hjer umr. En jeg vildi aðeins leyfa mjer að spyrja hv. 2. þm. Reykv. að því, með hverju hann styður þann sleggjudóm sinn um íhaldsmenn, að þeir fari óráðvendnislegar með völd sín en aðrir. Þetta á víst að vera lof um framsóknarmenn, en jeg get ekki neitað því, að mjer finst það heldur óviðeigandi. Jeg lít svo á, að slíkar illgjarnar ásakanir í garð íhaldsmanna sjeu engum sæmandi, ekki einu sinni hv. 2. þm. Reykv., nema því aðeins, að hann geti nefnt sjerstök og ákveðin dæmi máli sínu til stuðnings.

Viðvíkjandi fátækral. frá 1927 skal jeg taka það fram, að bæði framsókn og íhald stóðu saman um það að gera þau svo úr garði sem þau eru nú. Þó voru nokkrir íhaldsmenn á móti þeim, og var jeg einn þeirra.

Annars held jeg, að hv. þm., sem þykist bera svo mjög fyrir brjósti hag þeirra minni máttar, ætti fyrst að líta í sinn eiginn barm, því jeg man ekki betur en jeg hafi nýlega lesið í bók eftir einn af hans ágætu flokksbræðrum, að maður einn, er hv. þm. hefir í þjónustu sinni, sje svo illa launaður, að hann hafi þurft að leita til bæjarins.

Hinar illgjörnu ásakanir hv. þm. í garð íhaldsmanna eru í alla staði ósæmilegar og að engu hafandi. Þó að ef til vill sje hægt að finna þess dæmi, að íhaldsmenn hafi farið óráðvandlega með völd sín, þá eru þau mjög fá eða engin. Það er alveg óhætt að fullyrða, að það eru misjafnir sauðir í öllum flokkum, en að þeir sjeu allir í Íhaldsflokknum, það nær auðvitað engri átt. Og þegar hv. þm. hugsar sig betur um, þá gefi jeg ráð fyrir, að hann sjái, að þessi sleggjudómur hans um Íhaldsflokkinn var bæði ósæmilegur og ósannur, en er honum sjálfum til háborinnar skammar.