03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Ólafur Thors:

Jeg skal játa, að þegar fátækralögin voru hjer til umr. á Alþ. 1927, athugaði jeg ekki gaumgæfilega þau atriði, hverjir mistu kosningarrjett vegna fátækrastyrks. í 29. gr. stjskr. eru talin kosningarrjettarskilyrði til Alþ. ásamt undantekningum. Ein af þessum undantekningum er sú, að menn sjeu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Jeg er ekki í vafa um, að það er tilætlun löggjafans, að þeir, sem þegið hafa sveitarstyrk og ekki endurgreitt hann, missi kosningarrjettinn. Í fátækralögunum frá 1927 er svo fyrir mælt, að sveitarstyrkur sje undir vissum kringumstæðum ekki endurkræfur, ef hann er veittur vegna veikinda, ómegðar, óhappa o. s. frv. Þeir menn, sem fá slíkan styrk, eru látnir halda sínum kosningarrjetti. Jeg get nú ekki sjeð, að þessi fyrirmæli verði samrýmd stjskr., og menn verða að gera sjer ljóst, hvora leiðina beri heldur að fara, að halda sjer við 29. gr. stjskr. og láta alla missa rjettinn, sem ekki hafa endurgoldið sveitarstyrk, eða þá að afnema alveg þetta ákvæði 29. gr. stjskr. og heimila öllum rjettinn, þó að þeir hafi þegið styrk, en því er jeg fylgjandi, og úr því sem komið er, tel jeg, að ekki verði hjá því komist.

Áður en fátækralögin frá 1927 gengu í gildi, gat þetta ekki orkað tvímælis. Þá hlutu allir að missa kosningarrjett, sem ekki höfðu endurgreitt sveitarstyrk. En í lögunum frá 1927 er sveitarstjórnunum sett í sjálfsvald að dæma um, hvort styrkurinn er þeginn fyrir sjálfskaparvíti eða ekki, og þá getur komið fyrir, að sá haldi rjettinum, sem þegið hefir styrk fyrir sjálfskaparvíti, en hinn missi hann, sem hefir orðið styrkþurfi vegna veikinda, ómegðar o. s. frv. Þetta er óþolandi órjettlæti. Það liggur í hlutarins eðli, að ef heiðarlegur maður neyðist til þess að leita á náðir sveitarinnar, þá er honum raun að því. Og ekki bætir það úr, ef hann er þar á ofan sviftur mannrjettindum.

Jeg álít, að það sje rjetta leiðin að fella alveg burtu þessi ákvæði 29. gr. stjskr. og þar með slá því föstu, að menn skuli hafa kosningarrjett til Alþ., þó að þeir hafi þegið sveitarstyrk. Verði nú þetta gert, þá verður sú stefna líka að ráða um aðrar kosningar. Þó að jeg sjái að vísu ekki ástæðu til að vernda letingja og slæpingja, þá verð jeg að líta svo á, að ekki verði samræmi í lögunum nema því aðeins, að kosningarrjettur sje veittur öllum, hvort sem þeir hafa þegið sveitarstyrk eða ekki. Jeg mun því greiða atkv. með brtt. hv. þm. Ísaf.