03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Sigurður Eggerz:

Jeg legg áherslu á það, að jeg greiði hiklaust atkv. með því, að 6. liður 1. gr. falli niður. Menn hneykslast á því, að letingjar og slæpingjar eigi að fá kosningarrjett, en þá vil jeg segja það, að letingjar og slæpingjar hafa kosningarrjett samkv. gildandi lögum, bara ef þeir eru ríkir. Og það er ranglæti að láta fátækling ana gjalda þess, að í þeirra hópi eru letingjar og slæpingjar. Þeir eiga að vera alveg eins rjettháir og ríku mennirnir (HG: Heyr!). Um þetta er jeg alveg sammála hv. 2. þm. G.-K. Með því að fella niður hömlur kosningarrjettarins er verið að stíga spor í frjálslyndisáttina. Jeg vona, að sá geigur, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. um að þessi brtt. yrði frv. til falls, aftri mönnum ekki frá að greiða atkv. með henni. Jeg er sannfærður um, að hæstv. stj. á svo mikil ítök í hv. Ed., að stjórnarinnar menn þar samþ. frv. eins og það er. Jeg vil því leggja til, að við fellum óhræddir niður 6. lið 1. gr., því að þá veitum við mörgum fátækum ágætismönnum sjálfsögð mannrjettindi og látum þá ekki gjalda þess, að ýmsir eru orðnir fátækir fyrir slæpingsskap.