10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Jónsson:

Það hefir sjaldan verið eins ánægjulegt og nú að líta fram í tímann, sökum hins dæmalausa góðæris, sem verið hefir undanfarið. Þetta speglar sig auðvitað að nokkru leyti í fjárlagafrv. og umr. um það. Menn eru jafnan glaðari og vondjarfari, er vel hefir árað. Engir núlifandi menn muna slíkt góðæri sem undanfarið, ekki aðeins í vetur, heldur og árið þar áður. Og það er ekki aðeins tíðarfarið, sem hefir verið frábært, heldur einnig góðærið til allskonar aflafanga. Það má segja eins og þar stendur, að hafið hafi upplokið sínu nægtabúri, því að eftir nýútkomnum skýrslum frá Fiskifjelagi Íslands um fiskafla 1. apríl, hefir miklu meiri afli borist á land fram til þess tíma en árin á undan, og þrátt fyrir það, þótt allur togaraflotinn lægi bundinn við hafnargarðinn mánuðum saman. Það má því segja að við höfum átt við óvenjulegt góðæri að búa frá forsjónarinnar hendi, og óskandi væri, að við kynnum eins vel að stjórna okkur sjálfir og forsjónin hefir stjórnað árferðinu. En frá mínu sjónarmiði hefir orðið mikill misbrestur á, að svo sje. Mjer finst útsýnið í stjórnmálunum vera eins dökt og bjart er yfir árferðinu.

Jeg hefi verið dálítið lasinn undanfarið, og þess vegna hygg jeg gott til þess að skreppa sem snöggvast inn í eldhús stjórnarinnar til að taka úr mjer hrollinn þar við hlóðarsteininn og vita, hvort mjer ekki hlýnar í hamsi. Jeg sá, að í einhverju blaðanna var því spáð, að eldhúsdagurinn yrði óvenjulega fjörugur að þessu sinni, en í fyrra hefðu umr. þótt fremur dauflegar. Jeg veit nú satt að segja ekki, hvað á vantaði í fyrra til að eldhúsumr. mættu teljast fjörugar, þar sem þær stóðu í marga daga og lauk loksins með því að fundur stóð fram undir kl. 9 að morgni.

Satt að segja finst mjer öllu minni eldiviður í eldhúsi stj. nú en í fyrra. Jeg vil unna hæstv. stj. fulls sannmælis, þar sem hún á gott skilið; það er ekki svo víða. Jeg held satt að segja, að hún hafi látið sjer segjast ofurlítið, skinnið, við þær vörmu viðtökur, sem hún fjekk í eldhúsumr. í fyrra.

Jeg býst við, að stj., og ekki síst hæstv. dómsmrh., hafi þótt nokkuð heitt í eldhúsinu í fyrra, því að jeg skoða það sem iðrunarstand, hve sjaldan þessi hæstv. ráðh. kemur hingað í deildina nú, en hjer drýgði hann flestar syndirnar í fyrra. Jeg skoða það svo, sem hæstv. dómsmrh. sje að reyna að sneiða hjá syndum hjer í deildinni, og er það þá vottur þess, að hirtingar þær, sem hann hefir fengið á þingi, hafi borið nokkurn árangur. En þó að jeg segi, að eldiviðurinn sje ekki eins mikill nú og í fyrra, er það lítil afsökun fyrir hæstv. stj. Það getur komið fyrir alla, líka þá, sem vei meina, að gera þau verk, sem í senn eru skaðleg og ill, en það virðist svo, sem núverandi stj., og sjerstaklega hæstv. dómsmrh., hafi markað nýja braut í þessu efni. Jeg ætla ekki að fara að tína upp öll glapræði hæstv. dómsmrh., enda mætti það æra óstöðugan, en þegar maður athugar hugarfarið, sem verk þessa hæstv. ráðh. eru sprottin af, sjálfa stefnuna, sem hann virðist fylgja í öllum athöfnum sínum, dettur manni ósjálfrátt í hug áletrunin, sem sagt er, að sje yfir dyrum eins ákveðins staðar: „Þjer, sem gangið hjer inn, gefið upp alla von“. Það er vonlaust um, að stjórnarfarið batni, á meðan þessi hæstv. ráðh. nýtur við. Jeg legg ekki mikið upp úr því, þó að hann hafi nú setið á strák sínum um tíma og raftarnir sjeu því færri til eldhússtarfanna. Slíkur gróður getur þotið upp, hvenær sem vill. Hjer á okkar landi hefir það verið svo, að þótt skift hafi verið um stj., hefir ekki skift um stjórnarhætti. En með síðustu stj. hefir þetta orðið í fyrsta skiftið í okkar pólitísku sögu. Nú ríkja alt aðrir stjórnarhættir, alt annar andi en áður. En þótt hæstv. dómsmrh. sje potturinn og pannan í þessu, þar sem hann á flest afrekin, verð jeg að segja það, að þeir, sem taka þátt í störfum með honum og styðja hann, eru honum samsekir.

Eitt af því, sem síst má eiga sjer stað hjá stj. og ekki hefir gætt hjer fyrr en hæstv. dómsmrh. komst til valda, er hatrið og ofsóknarlöngunin í garð andstæðinganna. Það er engu líkara en að hæstv. dómsmrh. hafi sett hatur sitt í vísindalegt kerfi. Hann hefir fyrstur skipulagsbundið hatrið gegn öllum þeim, sem ekki styðja hann. Manni dettur í hug blóðhefndin til forna. Eins og menn vita, var hún ekki bundin við sökudólginn sjálfan, heldur var nóg að drepa einhvern úr ætt hans í hefndarskyni. Líkt er þessu farið með hefndarkerfi hæstv. dómsmrh. Hann getur ekki altaf náð sjer niðri á andstæðingunum sjálfum, en reynir þá að ná í einhvern mann, veitist að venslamönnum þeirra og frændum, eða þá vinum og vinkonum. Vífilsstaðamálið svokallaða er gott dæmi þessa, en jeg skal þó ekki fara langt út í það, vegna þess að hæstv. dómsmrh. hefir lofað að gefa út bók um það, ásamt fleiri málum. Þetta mál byrjaði ekki af því, að hæstv. ráðh. væri í nöp við lækninn á Vífilsstöðum, en honum var meinilla við bróður læknisins, Jón sál. Magnússon. En þegar ekki var hægt að ná sjer niðri á honum, varð að snúa sjer að bróður hans, lækninum á Vífilsstöðum, og svo auðvitað konu læknisins og frændum og þeirra vinum. Það er sagt svo, að hæstv. dómsmrh. hafi, þegar hann var blaðamaður, sagst ætla að „splundra helvítis Vífilsstaðaklíkunni“. Nokkrum árum síðar verður hann ráðh. og fer með hin geipilegu völd dómsmrh., en samt hvikar hann ekki frá þessum blaðamannsásetningi sínum og ræðst til Vífilsstaða með magt og miklu veldi til að „splundra klíkunni“. Það má auðvitað deila um það fram og aftur, hvort starfsfólkið, sem hæstv. dómsmrh. rak í burtu, hafi verið fullkomið og hvort hann hafi fengið betra í staðinn. En heldur hranalega virðist hann hafa farið að, ef það er satt, sem eftir honum er haft, að hann hafi sagt við hinar yngri starfskonur hælisins, er þær kvörtuðu yfir að vera sárt leiknar, að þær gætu bara gift sig. „Men der skal to til“, eins og maðurinn sagði, og væntanlega verður hæstv. dómsmrh. svo greiðvikinn að útvega stúlkunum menn, t. d. einhverja óráðstafaða samvinnuskólapilta.

Jeg ætla ekki að fara út í það, að fangavörðurinn hjer í Reykjavík fær alt í einu uppsögn á starfi sínu. Það er orðið svo algengt á þessum síðustu tímum, að menn „hverfi“ eða sjeu hraktir frá embætti. Ef einhver dó snögglega á Ítalíu á dögum Caesars Borgia, var honum kent um. Þá var það hvíta Borgia-duftið, sem hvarfinu olli.

Einhver skýrustu dæmi þessa koma fram, þegar í hlut eiga verulegir andstæðingar eða menn, sem standa framarlega í hópi andstæðinga hæstv. dómsmrh. Þetta hefir einkum komið fram gagnvart tveim mönnum, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) og hv. 1. þm. Skagf. (MG). Það verður ekki hjá því komist að drepa á þessi mál, þegar verið er að ræða stjórnmálastefnu hæstv. dómsmrh.

Jeg ætla fyrst að minnast á bæjarfógetamálið svo nefnda, en vil þó ekki deila um málið sjálft, af því að það er fyrir dómstólunum, heldur aðferðina. Málið byrjar með því, að stj. flytur frv. um breyt. á embættaskipuninni hjer í Reykjavík. Það er tekinn upp nýr siður og gömlu embættin lögð niður. Í stað þess að bæta nýju embætti við, ef þörf var á, og dreifa störfum bæjarfógetans, eins og lafhægt var, eru þessi embætti að ástæðulausu lögð niður og þrjú ný mynduð. Það er meira að segja breytt um nafn á bæjarfógetaembættinu, og það kallað lögmannsembætti, og með því ruglað sögulegum hugtökum, þar sem hið gamla lögmannsembætti var gerólíkt þessu og náði yfir hálft landið, en yfirdómaraembættið svaraði til bæjarfógetaembættisins nú.

Hvernig stóð nú á þessu? Það vissu allir þegar í upphafi, enda hefir það komið fram. Annar þessara embættismanna, sem hafði haldið sjer utan við stjórnmálin, fjekk að halda þessu nýja embætti, sem var framhald af hans gamla embætti. En hinum embættismanninum var ekki einu sinni gefinn kostur á að þjóna þessu nýja embætti, sem var stofnað upp úr hinu gamla embætti hans, sem settur, þótt hann byðist til þess, til að spara ríkissjóði útgjöld, og var þó með þessu móti hægt að losna við hann, ef á þurfti að halda. Á eftir þessu þótti mönnum ekki nema eðlilegt, hvernig fór með veitingu þessa nýja embættis. Þess þarf ekki að geta, að hv. 1. þm. Skagf., sem hefir verið ráðh. hvað eftir annað og hefir gegnt ýmsum hinum vandasömustu stöðum og var auk þess eldri að kandidatsaldri en sá, sem embættið fjekk, hann átti að fá embættið. En um það var ekki að tala. Jeg hefi ekkert á móti þeim manni, sem fjekk þetta embætti. Það er gegn og góður maður, auk þess sem hann hafði þann mikla kost að vera eindreginn fylgismaður hæstv. dómsmrh. og hafði verið í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn við síðustu kosningar.

En hæstv. dómsmrh. ljet sjer ekki nægja að hrekja þennan háttsetta andstæðing sinn, hv. þm. Seyðf., úrembætti, heldur höfðar hann gegn honum sakamál. Jeg vil þó ekki fara frekar út í það, vegna þess að það er óviðeigandi, þar sem málið er nú fyrir dómstólunum, en mjer er óhætt að segja, að það er með öllu óverjandi, hvernig málið hefir verið rekið, jafnvel þó að það væri á rökum reist. Blöð hæstv. dómsmrh. hafa flutt hverja æsinga- og ofsóknargreinina á fætur annari, ýmist skrifaða að undirlagi ráðh. eða af honum sjálfum. Sjálfur símar hann út um land til undirmanna sinna og spyr þá að því, hverja aðferð þeir hafi um meðferð búafjár. Og svörin, sem hann fær, birtir hann svo í pólitískum blöðum með viðeigandi aths. Jeg gæti hugsað mjer, að embættismenn úti um land færu að gæta sín um þær upplýsingar, sem þeir láta hæstv. dómsmrh. í tje, því að jeg geri ráð fyrir, að þeir hafi haldið, að þær væru fyrir sjálfan hann, en ekki til að vera básúnaðar út um alt í pólitískum blöðum með hinum og þessum skýringum.

Sú aðferð, sem beitt hefir verið í þessu máli, er mjög vítaverð, og svipuð þeirri aðferð, sem höfð var í Hnífsdalsmálinu, þar sem rannsóknardómarinn var látinn fella dóm að órannsökuðu máli, og sá „dómur“ svo birtur í „Tímanum“ í stað þess að bíða rjettra úrslita. En hvað sem þessu líður, þá býst jeg ekki við, að nokkrum detti í hug, að þessi leikur hefði verið hafinn, ef hv. þm. Seyðf. hefði verið fylgismaður hæstv. dómsmrh. Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort allur þessi gauragangur hefði þá verið gerður, hvort viðkomandi hefði þá ekki fengið embættið skilmálalaust, hvort hver maðurinn á fætur öðrum hefði þá verið settur til að rannsaka embættisfærslu hans. En hæstv. ráðh. veit, að það þarf engu að svara. Slíkt nær engri átt.

Hinn maðurinn, sem hæstv. dómsmrh. þurfti að finna í fjöru, var hv. 1. þm. Skagf. Þau ósköp byrjuðu á eldhúsdaginn í fyrra, þegar hæstv. dómsmrh. fór að tilefnislausu að ræða um olíufjelag eitt, sem hafði sett upp geyma suður við Skerjafjörð. Jeg ætla ekki að fara að rifja alt það upp, sem hæstv. ráðh. sagði í því sambandi, en hann var að gefa í skyn, að Englendingar stæðu á bak við þetta fjelag; olíugeymarnir væru svo stórir, að þeir gætu ekki verið miðaðir við þarfir okkar Íslendinga, heldur við að ala á þeim herskip. Þetta ábyrgðarlausa hjal hefði verið ógætilegt hjá hverjum „privat“manni, en það ofbauð öllum, að annað eins og þetta skyldi heyrast úr ráðherrastóli. En það var ekki öllu lokið með þessari eldhúsdagsofsókn hæstv. dómsmrh. á hv. 1. þm. Skagf., heldur er hafin rannsókn út af þessum fjelagsskap. Rannsóknin byrjar með því, að hæstv. dómsmrh. lætur lögfræðing framkvæma svokallaða eftirgrenslan í þessu máli. Jeg veit nú ekki, hvort það er siður að senda njósnara heim til manna til þess að rabba ofursakleysislega við þá og gefa síðan stj. skýrslu út af samtalinu. En það merkilegasta við þessa eftirgrenslan var, að hún fjallaði ekki aðeins um það, er máli skifti í þessu sambandi, t. d. hvort þessi fjelagsskapur væri löglegur eða ekki, heldur koma fram í henni ýmsar lausar dylgjur. Er þó þessi maður, sem framdi eftirgrenslanina, mjög prúður og gætinn maður, en hann hefir vitað. hve þorstinn var mikill hjá hæstv. dómsmrh. í að fá dylgjur í þá átt, að Englendingar stæðu á bak við þetta fyrirtæki. Þegar þessari eftirgrenslan var lokið, er tekin upp formleg rjettarrannsókn og mál höfðað gegn stjórnendum fjelagsins, en alt til einskis. Stjórnendur fjelagsins voru sýknaðir bæði í undirrjetti og hæstarjetti.

Hvernig stóð nú á þessum mikla áhuga hæstv. dómsmrh. í þessu máli? Jeg er hálfhræddur um, að hann hafi ekki eingöngu sprottið af löngun til að leiða sannleikann í ljós í þessu máli, heldur af því, að hæstv. ráðh. þurfti að finna eitthvað til að bendla hv. 1. þm. Skagf. við. Nú vildi svo vel til, að hv. 1. þm. Skagf. hafði lagt 2000 kr. í þetta fyrirtæki, og því var um að gera áð gera þetta fjelag tortryggilegt, bendla það við eitthvað óheiðarlegt og skella skuldinni svo á hv. 1. þm. Skagf. En hæstirjettur sló þessar vonir hæstv. dómsmrh. niður; en hann hefir nú fyr sagt, að ekki væri að marka dóma hæstarjettar, ef þeir pössuðu ekki í kramið. Þetta mál átti sumpart að vera kattarþvottur eftir útreiðina á eldhúsdegi í fyrra, og sumpart árás á hv. 1. þm. Skagf., en hvorttveggja mistókst.

Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. ætlar að bregða sjer upp í Ed., og get jeg því á meðan snúið máli mínu til hæstv. forsrh. Jeg býst við, að það heyri undir hann, hvernig framkvæmd skattalaganna hefir verið hjer í Reykjavík. (Forsrh.: Þau mál heyrðu undir mig í þrjá mánuði). Já, jeg hjelt það. Jeg ætla auðvitað ekki að fara að amast við því, að skattalögin sjeu framkvæmd með þeirri festu og alúð, sem hægt er, en þess verður að krefjast, að þau sjeu framkvæmd eins alstaðar á landinu. Lögin hafa hvergi verið framkvæmd eins ítarlega og hjer í Reykjavík. Eftir skattstjóraskiftin er byrjað á ýmsum nýjum reglum í framkvæmd laganna, og mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. að því, með hvaða heimild þetta sje gert.

Nú hefir sú aðferð verið upp tekin, að skattaframtölin eru ekki látin nægja lengur, heldur krafist þess, að maður útfylli svo hljóðandi brjef:

„Hjer með er skorað á yður að svara eftirfarandi spurningum viðvíkjandi skuldum, er þjer teljið til frádráttar á framtali yðar til tekju- og eignarskatts, og koma þessum upplýsingum til skattstofunnar í síðasta lagi 27. mars 1929.

Ber að tilgreina nafn hvers kröfuhafa, heimili hans, upphæð skuldarinnar og hve mikla vexti þjer hafið greitt af láninu.

Verði spurningunum ekki svarað fullnægjandi innan tiltekins tíma, verða skuldir þessar ekki teknar til greina“.

Jeg get ekki neitað því, að mjer finst það dálítið merkilegt, að eftir að menn eru búnir að votta við drengskap sinn, hvað þeir skuldi öðrum, þá sje farið að grenslast eftir þessu nánar og heimtað af þeim nýtt drengskaparvottorð. Með þessu er þá fyrra framtalið að engu haft, og verður því að telja fram upp á nýtt.

Þetta er nú það fyrsta, sem menn hafa haft á móti þessum nýju breyt., og veit jeg satt að segja ekki, eftir hvaða heimild í lögum þetta aukaframtal er skipað. Eftir tekjuskattslögunum eru þeir allir taldir upp, sem þurfa að gefa upplýsingar um aðra en sjálfa sig, en það eru þeir menn og þær stofnanir, sem veita öðrum atvinnu. Þessi heimild nær því engan veginn til. En ef ekki er litið svo á, sem hjer sje verið að fá skýrslu um annara hag, heldur nánari vitneskju um hag mannsins sjálfs, þá má spyrja, hvaða heimild sje til þess.

í 33. gr. tekjuskattslaganna segir svo:

„Þyki nefndinni skýrsla einhvers tortryggileg, skal hún skora á hann að láta nefndinni í tje frekari skýringar og sannanir“.

En með þeirri aðferð, sem nú er beitt, þegar öllum gjaldendum er sent blað og þeir krafðir um nýja skýrslu, er slegið föstu, að öll framtöl úr Reykjavík sjeu tortryggileg, og sjá allir, hve ósæmilegt það er gagnvart borgurum þjóðfjelagsins.

En svo stendur síðar í sömu gr. tekjuskattslaganna:

„Fái skattanefnd eigi fullnægjandi skilríki fyrir framtalinu innan þess tíma, er hún hefir tiltekið, skal hún áætla tekjur hans og eign eftir bestu vitund“.

Hjer er skýrt að orði kveðið, hvað skattanefnd má ganga langt, að hún má „áætla tekjur og eignir eftir bestu vitund“, en ekki að strika t. d. út skuldir manna af því einu, að þeir láta undir höfuð leggjast að sundurliða þær. Samkv. brjefi því, er jeg nefndi áðan, má skilja það svo, að „besta vitund“ skattstjóra sje að segja alt lygi og fals, er menn hafa í skýrslum sínum talið fram og vottað við drengskap sinn.

Jeg veit, að reynt er að fóðra þetta með því, að ekki sje verið að grenslast eftir hag þess, sem spurður er, heldur sje með þessari nánari eftirgrenslan verið að komast eftir efnahag þeirra manna, sem ætla má, að eigi peninga hjá öðrum. En þá eru ákvæði um þessa „aðra menn“ í 32. gr. tekjuskattslaganna og þeir taldir þar upp, eins og jeg gat um áðan.

Að vísu hefi jeg heyrt, að alla þessa tortrygni og eftirgrenslan um efnahag manna hjer í Reykjavík eigi að verja með því, að skjóta sjer undir 18. gr. útsvarslaganna frá 1926. Jeg sje, að hæstv. forsrh. kinkar kolli, sem á víst að skilja svo, að þetta sje rjett til getið hjá mjer. En jeg vil aðeins skjóta því til hans, að eftir 18. gr. útsvarslaganna er það alls ekki hægt. Það er hægt að krefja aðilja um að segja rjett frá, hvað hann skuldi öðrum, en það er engin heimild í þessum lögum til þess að krefja aðilja um skýrslu um annara hag. Það kemur ekkert mínu útsvari við, hvort jeg t. d. skulda A. eða B. 10 þús. kr. Skuldin er áður tilfærð í framtalsskýrslu minni, og eftir þeim upplýsingum, sem þar eru gefnar samkv. drengskaparvottorði, á svo að ákveða útsvarið. Hitt kemur skattanefnd ekki minstu vitund við, hvort jeg er skuldugur Pjetri eða Páli.

Út af þessu sama máli má og minnast á refsiákvæði þau, er úrskurðað hefir verið nýlega um, að beita skuli, þegar skattsvik komast upp, sem sje að skattupphæðin skuli margfaldast með þeirri áratölu, sem liðin er síðan brotið var framið. T. d. að skattsvik frá árinu 1924 margfaldast þá nú með tölunni 5. Þessi úrskurður er vitanlega fjarri öllum sanni. Brotin eru hjer öll metin jöfn, og tímalengd ein tekin til greina.

Þá vildi jeg minnast á eitt smámál og í sambandi við það beina fáeinum fyrirspurnum til hæstv. forsrh.

Hvaða ástæðu hafði hæstv. ráðh. til þess að uppnefna ýmsa staði víðsvegar um land í ferðaáætlun Esju? Er það aðeins löngun ráðh. til þess að uppnefna, eða liggur eitthvað annað á bak við? Nú hygg jeg, að lokið hafi verið að prenta áætlun Esju með sínum venjulegu viðkomustöðum, er hæstv. ráðh. gaf þá skipun að breyta nöfnunum, svo að eitthvað hefir það kostað að eyðileggja upplagið og yrkja upp á nýjan stofn.

Annars hefi jeg frjett, að þessi staðauppnefning ráðh. mælist illa fyrir, eins og heldur er ekki að furða, og að Dalamenn hafi mjög einarðlega mótmælt einu slíku nafni, er þeirra hjerað snertir. Hvaða maður hefir t. d. hugmynd um, hvar Skipagrund er á landinu, þó að standi í áætlun Esju, að skipið eigi að koma þar við? Og hvaða ástæða er að sleppa nafni eins og Búðardalur, sem gilt hefir sennilega frá landnámsöld? Fleiri uppnefni mætti tína til úr þessari einkennilegu áætlun, sem ekki nokkur minsta ástæða er til að ætla, að þjóðin felli sig nokkru sinni við. Annars virðist mjer það skjóta nokkuð skökku við, að á sama þingi, sem hæstv. forsrh. ber fram frv. um að löghelga nokkur forn og ákveðin nöfn, sem jeg get að ýmsu leyti fallist á, þá skuli hann samtímis taka sjer fyrir hendur að uppnefna marga staði á landinu, til skapraunar þeim mönnum, sem búa þar og í kring. Jeg skal játa, að þetta er ekki stórvægilegt atriði, en forsrh. landsins ætti sannarlega að vera vaxinn upp yfir slík víxlspor sem þetta tiltæki hans er.

Jeg hefi nú um stund snúið máli mínu aðallega til hæstv. forsrh., af því að hinir ráðh. hafa verið bundnir uppi í hv. Ed. En nú sje jeg, að þeir eru komnir til sæta sinna, og get jeg því vikið orðum mínum til hæstv. stj. í heild, og ætla jeg þá að tala um stjórnarfarið svona alment, en það fer eins og fyrri, að framhjá hæstv. dómsmrh. kemst jeg ekki, og veldur þar um hið takmarkalausa einræði ráðh., er sett hefir stimpil sinn á alt stjórnarfarið.

Ofsóknaræði hæstv. dómsmrh. var áður kunnugt, á meðan hann var yfirritstjóri þáverandi ritstjóra Tímans, núverandi hæstv. forsrh., en þetta ofsóknaræði hefir brotist út með enn meira krafti síðan þessi maður komst í stj. Og það hefir birtst við öll möguleg tækifæri, en sjerstaklega hefir það þó komið fram í ódæma hlutdrægni um allar embættaveitingar og taumlausum bitlingagreiðslum til stuðningsmanna stj. Hvar sem hægt er að bola andstæðing frá opinberu starfi, er það gert og nýr fylgismaður stj. skipaður í stöðuna.

Útsölustjórastörfin við vínverslanir eru eitt dæmið í þessu efni. Það er að vísu ekki nýtt og var gert að umtalsefni á síðasta þingi. En eins og kunnugt er, sagði stj. öllum forstjórum vínverslananna upp starfi sínu. Allir munu þeir hafa verið andstæðingar stj. í aðalstefnumálum, eða svo ljet hún á sjer skilja, að undanteknum einum manni. En hvað skeður? Þegar svo skipað er í stöðurnar, eru valdir nýir menn, nýir fylgismenn hæstv. stj., að undanteknum þessum eina, sem jeg nefndi. Hann einn fjekk að halda stöðu sinni, og þó var á allra vitorði, að hann hafði reynst mestur óreiðumaður. Öllu gleggra dæmi um hlutdrægni hæstv. dómsmrh. um embættaveitingu er ekki hægt að nefna. Þarna rjeði ekkert annað en að þessi maður var vinur hæstv. ráðh. og tryggur flokksmaður.

Það er næsta eftirtektarvert, að hæstv. dómsmrh. reynir ekki einusinni að fara í launkofa með hlutdrægni sína, hvorki í embættaveitingum nje í öðrum málum, þar sem hann þarf að beita einræði sínu. Og þetta er ægilegasta djúp spillingarinnar, þegar hræsnin kemst ekki lengur að. Menn hafa sagt, að hræsnin væri verst, en það er ekki satt. Hræsnin er ljótur löstur, en þegar menn eru svo djúpt sokknir í spillingunni, að menn hirða ekki framar um að hræsna, þá er þó enn lengra komið. Þá er botnlaust foraðið eitt framundan. Mönnum fyndist minni spilling í þessum embættaveitingum, ef skotið væri t. d. inn einum og einum andstæðingi í einhverjar stöður, svona til þess að sýnast. En hæstv. dómsmrh. hefir ekki hirt um að komast einu sinni svo hátt að vera hræsnari.

Þegar talað er um þetta takmarkalausa einræði hæstv. dómsmrh., þá verður mjer á í því sambandi að minnast hinnar nýskipuðu kirkjumálanefndar.

Það mundu kannske einhverjir segja, að mjer ætti ekki að vera það á móti skapi, að slík nefnd væri skipuð, en mjer er það ekki neitt sjerstaklega kært. Að vísu er þar um eitt mál að ræða, sem þörf væri að athuga, og það er um launakjör presta, en þá athugun mætti gera án þess að skipa sjerstaka nefnd til þess. En það, sem jeg hlýt að átelja harðlega, er þetta dæmalausa einræði hæstv. dómsmrh., að rjúka til og skipa nefndina rjett áður en þingið kemur saman. Það er engu líkara en að hæstv. dómsmrh. hafi verið að hugsa um, hvað hann gæti nú gert til þess að gefa Alþingi sem eftirminnilegastan löðrung. En hvers vegna gerir hæstv. ráðh. þetta? Jú, það er ofur skiljanlegt. Ef Alþingi hefði tekið að sjer að skipa nefndina, þá er líklegt, að hlutfallskosning hefði verið viðhöfð, og þá hefði íhaldsmaður komist í nefndina, og það mátti vitanlega ekki. En segjum samt, að hæstv. dómsmrh. hefði getað komið því svo fyrir, að hann hefði sjálfur fengið að skipa nefndina, þá hefði hann þó þurft að spyrja flokksmenn sína, en það var meira en einvaldsherrann gat þolað, að leyfa flokksmönnum sínum að koma þar að.

Þá mætti og nefna sem dæmi upp á einræði hæstv. dómsmrh. járnbrautarfundinn síðastl. sumar. Annars væri ástæða til að fara nokkrum orðum um járnbrautarmálið, sem helst lítur út fyrir, að báðir hæstv. ráðh., atvmrh. og dómsmrh., ætli sjer að drepa í vetur. (Forsrh.: Það eru nokkrir dagar eftir enn af sjerleyfinu). Jeg býst ekki við, að hæstv. atvmrh. veiti sjerleyfið á þeim dögum, en hins vænti jeg, að Sunnlendingar launi honum og flokki hans, er á þarf að halda, hvernig honum hefir farist í þessu máli.

Hæstv. dómsmrh. ritar um málið í blað sitt, þar sem hann setur fram ýmsar „krúsidúllur“ til þess að klúðra málið, segir t. d., að þegar búið sje að safna svo og svo mörgum miljónum, þá skuli ekki standa á stj. til þess að leggja fram viðbótarfje, svo að hægt verði að byrja á járnbrautarlagningunni. Og svo rýkur hann til og boðar til fundar um málið hjer í Reykjavík. Að vísu lætur hann þess getið, að til fundarins boði hann sem landsk. þm. En einsdæmi mun það vera, að ráðh. hlaupi svo fram fyrir skjöldu í máli, sem ekki heyrir hans stjórnardeild til, og hrifsi það úr höndum embættisbróður síns, hæstv. atvmrh., með þeim eftirminnilegu orðum, að samgöngumál Sunnlendinga komi honum ekkert við, af því að hann sje þm. Strandamanna. Og meðan við erum að rífast um málið inni í efri deild, er hæstv. atvmrh. að labba suður á Melum! Við getum látið það gott heita, að landsk. þm. boði til fundar um jafnstórt mál og járnbrautarmálið er, en það er bara ómögulegt að skjótast hjá þeirri sjálfsögðu kurteisisskyldu að bjóða samgöngumálaráðherra landsins á fundinn. Enda kom það fram á fundinum, að mönnum þótti óviðkunnanlegt að ræða málið án þess að hæstv. atvmrh. væri nærri. Annars geri jeg ráð fyrir, að aðrir verði til þess að minnast á járnbrautarmálið, og ætla jeg því ekki að fara frekar út í það.

Jeg drap áður lítilsháttar á þessa taumlausu hlutdrægni, sem hæstv. stj. hefir beitt í allflestum málum, sem hún hefir látið til sín taka. En þessi hlutdrægni hefir jafnhliða leitt til hinnar mestu fjársóunar og bruðlunar með fje ríkissjóðs. Það er nú af, sem áður var, er menn voru að skjótast í einn og einn bitling, sem ráðstafa þurfti í þarfir Alþingis. Þingbitlingarnir eru nú orðnir hverfandi samanborið við þann fjölda nýrra bitlinga, sem stj. hefir stofnað. Það virðist komið í móð, að ef einhver fylgismaður hæstv. stj. þarf einhvers með, þá er búinn til handa honum bitlingur undir því yfirskyni, að hann þurfi að vinna eitthvert sjerstakt starf fyrir stj. Og munnarnir eru margir, sem þannig þarf að seðja, og allir þurfa að fá eitthvað. Jeg hefi ekki hjer við hendina neina skýrslu um þetta, og enginn hefir víst enn náð í skrá yfir allan þennan sæg bitlinga. Um margt af þessu hefir þó frjetst, en þó verður það ekki rakið til hlítar fyr en landsreikningarnir liggja frammi með aths. endurskoðenda.

En þau eru næsta undarleg sum þessi störf, sem hæstv. stj. hefir fundið upp handa gæðingum sínum. T. d. hefi jeg heyrt, að nýlega hafi verið skipaður maður til eftirlits með söngkenslu í skólum, og annar til þess að hafa eftirlit með einhverri annari kenslu í skólum.

Einhverntíma hefði líka þurft meira en kvak á einum fundi til þess að fá samstundis skipaða dýra milliþinganefnd. En það hefir verið látið í veðri vaka, að kirkjumálanefndin hafi verið skipuð af því, að eitthvað hafi verið talað um það á einhverjum fundi. Hitt er svo náttúrlega tilviljun, að í nefndina veljast framsóknarþingmannaefni, framsóknarritstjóri og aðrar framsóknarkempur.

Það er sjálfsagt grínsaga þetta um prestinn, sem átti að fá símastjórastarf hjá hæstv. stj., en hefði þó horfið frá því, þegar kvisaðist, að símastjórinn mundi þá sækja um að verða gerður að presti.

Annars er það margvíslegt, sem hæstv. stj. hefir látið eftir stuðningsmönnum sínum í þessu efni. Mætti þar benda á unglingaskólann hjer í Reykjavík. Þá er bæjarstjóri kominn á Norðfjörð. Svo er það síldareinkasalan, með öllum yfirforstjórunum, undirstjórum og eftirlitsnefndum; hefir vegna þess eina fyrirtækis og takmarkalausrar bruðlunar dropið drjúgum til stuðningsmanna hæstv. stj. Þá er og starfið við tryggingarstofnanir ríkisins, lögmannsstarfið hjer í Reykjavík og margt og margt fleira. Hvert sem litið er sjest aðeins einlitur söfnuður, alstaðar eru það auðmjúkir þjónar og fylgismenn hæstv. stj. Alstaðar er reynt að losna við andstæðingana úr embættum, til þess að koma að nýjum stuðningsmönnum. Og þar sem ekki eru til stöður, sem troða þarf inn í einhverjum sjerstökum gæðingum, þá eru þær búnar til. Svona er fjársóunin taumlaus og bruðlun á landsfje gegndarlaus.

Jeg sje, að jeg hefi skrifað mjer til minnis, að hæstv. dómsmrh. væri hættur að brjóta lög, en jeg veit ekki, hvort óhætt er að fara með það, svo að jeg sleppi að tala frekar um það.

Það hefði ekki verið úr vegi að minnast á afstöðu hæstv. stj. til utanríkismálanna. En jeg er nú orðinn talsvert langorður og verð því að hlaupa yfir það að mestu leyti, enda þykir mjer sennilegt, að einhverjir aðrir verði til þess að gera afstöðu hæstv. stj. út á við að umtalsefni. Þó vil jeg aðeins geta þess, að haft er fyrir satt, að hæstv. dómsmrh. hafi farið mjög gálauslegum orðum um kröfur okkar Íslendinga á hendur Dönum í lögjafnaðarnefndinni síðastliðið sumar. Skal jeg þó ekki fara frekar út í það að sinni, enda gefst eflaust tækifæri til þess síðar.

En svo er það eitt mál, sem veit út á við og mjer finst sjerstaklega ástæða til að fara nokkrum orðum um. Og það er hið svokallaða „Tervani“mál. Að vísu hefir það mál verið mikið rætt, bæði í blöðum og á landsmálafundum víðsvegar um land, enda er það þann veg vaxið, að það má ekki liggja í þagnargildi. Upptök þessa máls eru þau, að seint í ágústmánuði 1926 er varðbáturinn „Trausti“ á ferð hafna á milli suður með sjó að sækja skipstjóra sinn. Í Garðssjónum sjá mennirnir á bátnum tvo botnvörpunga að veiðum og að því er þeim virðist allgrunsamlega nærri landi. Tóku mennirnir sig þá til og athuguðu nánar um þessi skip, náðu í nöfn þeirra og heimilisfang og tóku mið af staðnum, sem þau voru að veiðum á. Reyndist annað skipið að vera íslenski togarinn „Jupiter“, en hitt var enskur togari, sem hjet „Tervani“. Nú hefi jeg tekið fram, að skipstjórinn var ekki á bátnum, en mennirnir voru vanir sjómenn og höfðu oft fengist við að taka mið af ýmsum stöðum. Var þetta mið síðan rannsakað af varðskipunum, og kom þá í ljós, að það skipið, sem utar var, reyndist að vera um 1/2 sjómílu innan við landhelgislínu, og var það „Júpiter“. Skömmu síðar náðist í „Júpiter“ og var mál skipstjórans rannsakað. Lauk því á þá leið, að hæstirjettur dæmdi hann í 15 þús. kr. sekt. Hinn togarinn var því sjálfdæmdur, þar sem hann var innar.

Því hefir verið óspart á lofti haldið, að útbúnaður hafi verið mjög ljelegur á varðbátnum, þar hafi ekkert sjókort verið til, engin bók eða pappír og heldur ekki önnur ritföng, en þetta eru ósannindi og blekkingar, því að alt þetta var í bátnum, en mennirnir fundu það ekki.

Eftir að hæstarjettardómur var genginn í „Júpiter“-málinu, þótti svo sem augljóst, að enski togarinn væri einnig sekur, og það því fremur sem sannast hafði undir rekstri málsins, að hann hefði verið nær landi. En svo leið og beið, að ekki náðist í „Tervani“, fyr en í apríl síðastl., að „Þór“ kom með hann til Vestmannaeyja. Var hann þá kærður, en leyft að sigla til Englands gegn því að hann setti 30 þús. kr. til tryggingar meðan mál hans væri rannsakað og dæmt.

En hvað skeður svo?

Tveimur mánuðum síðar afhendir hæstv. dómsmrh. skipstjóranum þessar 30 þús. kr. og segir honum, að hann megi sigla sinn sjó. Málið sje svo illa undirbúið, að það sje ekki vansalaust fyrir íslenskt rjettarfar að leggja það undir dóm enskra stjórnarvalda.

Jeg ætla nú ekki að ræða um, hvað annað eins tiltæki og þetta er heimskulegt, að eiðfestur vitnisburður greindra sjómanna skuli ekki takast sem gilt sönnunargagn um sekt erlendra landhelgisbrjóta. Englendingar kunna vel að meta vitnaframburð í slíkum málum og hafa oft tekið svari Íslendinga, þegar á þá hefir verið ráðist þar í landi. Annað mál er það, hvaða álit Englendingar fá á íslensku rjettarfari og hæstarjetti, sem dæmt hefir togara í sekt eftir sömu gögnum, sem ráðherrann nú telur Íslendingum til vansa að láta útlendinga sjá. Og hvaða traust eigum við þá orðið eftir á hæstarjetti, þegar sjálfur dómsmrh, auglýsir, að hæstirjettur hafi dæmt eftir svo veikum gögnum, að okkur muni betra að láta þann sökudólginn sleppa, sem brotlegri var, svo að ensk stjórnarvöld fái ekki að sjá rjettarskjölin? Og hvað mundu Englendingar þá segja um hæstarjett, þegar hann dæmir næst enskan togara og það sannast, að þeir, sem kærðu, höfðu ekkert skrifað niður?

En þann veg eru margar kærur undir komnar, að sjómenn víðsvegar með ströndum fram og inni á fjörðum standa landhelgisbrjótana að veiðum og vitnisburður þeirra tekinn gildur. Jeg skal í því sambandi minna á það, að sjómenn úr Mýrdal hittu togara að veiðum allnærri landi í mars 1924. Þeir höfðu engin ritfæri og því síður sjókort, en þeir tóku mið af staðnum og kærðu togarann. Og vitnisburður þessara manna var tekinn góður og gildur og togarinn dæmdur í sekt af öllum rjettum.

Og hvað er skrifaður vitnisburður annað en athugun mannanna sjálfra?

Hæstv. dómsmrh. gerir mikið númer úr því, að athugun mannanna á „Trausta“ hafi verið rissuð á stýrishúsið með nagla. En því betra sönnunargagn ætti þetta að vera í hans augum. Því þó ekki hefði verið hægt að fara með stýrishúsið til Englands, þá var þó hægt að vottfesta það, að þarna, á sjálfu stýrishúsinu, hefði athugun mannanna staðið skrifuð.

Hvernig sem á þetta er litið, er málið okkur til jafnmikillar minkunar, og á því á hæstv. dómsmrh. einn sök. Hann hefir með einræði sínu um niðurfellingu sakar á hendur erlendum landhelgisbrjót veikt aðstöðu okkar út á við og varpað skugga á íslenskt rjettarfar.

Englendingar eru með endalausar sakir á íslenskt rjettarfar. Eina vörnin fyrir okkur er að hafa óflekkaðan skjöld. Nú var aðstaða okkar í þessu máli sjerstaklega sterk, að því leyti, að um leið hafði íslenskur togari verið dæmdur fyrir sama brot og eftir sömu sönnunargögnum, nema hvað líkurnar voru mun sterkari gegn enska togaranum. Það er þess vegna leitt til þess að vita, að enskir sjóræningjar og veiðiþjófar hjer við land skuli hjer eftir geta borið sjálfan dómsmrh. fyrir þessum illkynjaða og ástæðulausa rógi um íslenskt rjettarfar. En það er óhætt að fullyrða, að varla væri hugsanlegt sterkara mál af okkar hálfu á erlendum vettvangi en Tervanimálið. Aðgerðir dómsmrh. í því máli verðskulda það, að þeim sje æ á lofti haldið sem ævarandi aðvörun öllum þeim, er síðar kunna að hafa slík mál með höndum.

Mig hefði langað til að minnast á skólamál við hæstv. dómsmrh. Þegar það frjettist, hver yrði dómsmrh., þótti mönnum lítill ljómi vera yfir þeirri ráðstöfun. Þó virtist mönnum dálítil skíma að því leyti, að ráðh. hafði látið svo sem hann væri mjög áhugasamur um skólamál. Það var fundið að því, að ólöglærður maður væri gerður að dómsmrh., en á það ber að líta, að ráðh. er líka kirkju- og kenslumála ráðh., svo að mjer finst satt að segja ekkert að því, þótt eitt sinn veldist í þessa stöðu skólafróður maður, þótt hann væri ekki lögfræðingur. En einnig að þessu leyti hafa menn orðið fyrir vonbrigðum. Öll afskifti ráðh. af þessum málum hafa mótast af þessari eilífu hlutdrægni hans. Sem dæmi má nefna Suðurlandsskólann. Hann var settur niður á Laugarvatni, einmitt af því að einn besti fylgismaður ráðh. átti þar heima. Enda hefi jeg heyrt, að ráðh. sje þar kallaður „hann góði“ eða bara „Hann“, með stórum staf, svo að af þessu geta menn ráðið, hver andi ríkir í skólanum. Þar er nú ekki skökk pólitík á ferðinni! Enda mun þessi Laugarvatnsskóli vera eitthvert indælasta „produkt“ ráðherrans, auðvitað þó að undanteknum amtmanninum, samvinnuskólanum. Það, sem ráðh. hefir gert með því að leysa málið á þennan veg, er að sigla skólamáli Suðurlands algerl. í strand. Hann hefir sett skólann á stað, sem ekkert samkomulag hafði náðst um, svo að stofna verður annan skóla fyrir austan fjall áður en langt um líður. Þetta er því alveg dæmalaus lausn, enda mun það meðfram vaka fyrir ráðh., að skólinn sje ekki of fast við það bundinn að heita Suðurlandsskóli. Það er sem sje á allra vitorði, að ákveðnum manni, sjera Kjartani í Hruna, var ætlað að vera skólastjóri Suðurlandsskólans þegar hann kæmi á stofn, en með því að setja skólann á þessum stað, þar sem aðeins fáir hreppar gátu notið hans, sá hann sjer leik á borði að losna við að enda þetta loforð og setja annan mann, sem hann í svipinn tók fram yfir sr. Kjartan, fyrir skólann. Þó eitthvað gott kynni að mega segja um afskifti ráðh. af skólamálum, þá er það eitt víst, að hann hefir leyst skólamál Sunnlendinga á hinn klaufalegasta hátt sem hugsanlegur var.

Þá eru afskifti ráðh. af mentaskólanum í Reykjavík. Menn bjuggust ekki við, að sá skóli ætti upp á pallborðið hjá honum, enda munu kærleikar ráðh. til Reykjavíkur vera mjög af skornum skamti, sem og hefir komið greinilega á daginn. Öðru máli gegnir um höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Þar hefir komið upp hreyfing um að koma upp mentaskóla, og var látið fljótt undan þeim kröfum. Auðvitað hlaut slíkt að ganga út yfir mentaskólann hjer, enda tilkynti ráðh. skömmu síðar, að hjer eftir tæki mentaskólinn ekki við nema 25 nýjum nemendum árlega í gagnfræðadeild skólans. Var þetta ekki nema helmingur þeirra nemenda, sem rjett höfðu til inngöngu. Jeg skal nú ekki segja, hvort ráðh. hefir haft leyfi til þess að gera þetta; jeg býst við, að honum hafi hvorki verið það heimilt nje óheimilt. En það alvarlega er, að með þessum ráðstöfunum eru menn útilokaðir, ekki frá stúdentsmentun, heldur frá gagnfræðamentun. Mönnum er meinaður aðgangur að þessum eina gagnfræðaskóla, sem Reykjavík hefir. Ráðh. hefir barist með hnúum og hnefum á móti þeirri fullkomnustu skólahugmynd, sem enn hefir fram komið, samskólahugmyndinni, og mjer er sagt, að hann hafi jafnvel lagt fæð á þann mann, sem var svo djarfur að bera hana fram. Nú vildi ráðh. slá eitt afgerandi slag, til þess að sýna velvild sína og umhyggju fyrir skólanum, og hann kemst þá að þeirri niðurstöðu, að fatasnagar skólans væru ekki sem fullkomnastir. Því næst gefur hann skipun um, að vanrækja skuli alt viðhald á skólanum, og var því hlýtt. Borð voru ekki máluð eins og venjulega, ekki einusinni málað yfir bætur á veggjunum. Svo þegar niðurlæging skólans og frágangur var orðinn eins og hann gat verstur verið, þá býður hæstv. dómsmrh. með „pomp og pragt“ blaðamönnum til þess að sjá, hvernig íhaldið skilji við skólann. Svo skyldu þeir sjá skólann þegar hann væri búinn að setja hann í stand! Og ráðh. ljet taka eina kenslustofuna undir fatasnaga. Það kann að vera þörf umbót út af fyrir sig, en einhver stj. hefði nú getað komið öðru eins í kring án þess að það væri rætt í blöðunum í mörg ár og kostaði annan eins bægslagang og fatasnagarnir í mentaskólanum. En auðvitað er þetta alt gert til þess að fá annan skóla á Akureyri. Jeg nenni ekki að fara að ræða um Akureyrarskólann; það mál er nú orðið gamalt og fallið í kyrð, en einkennilegt er það, að þessum tveim skólum skuli ekki vera gert jafnt undir höfði í hinu nýja frv. stj. Akureyrarskólinn er 4 ára skóli með 2 ára undirbúningsdeild, eins og vera ber, en mentaskólinn er reyndar 4 ára skóli, en í stað undirbúningsdeildar kemur Ingimarsskólinn. Að vísu getur sá skóli komið að haldi sem almennur unglingaskóli, en það nær engri átt, að hann geti verið undirbúningsskóli fyrir þá, sem ganga ætla mentaveginn. En það er sárgrætilegt að hugsa til þess, að þegar brýn þörf er á að koma upp alþýðu- og gagnfræðaskólum víða um landið, að þá skuli ráðh. hlaupa til og koma upp þeim eina skóla, sem engin þörf var fyrir, og sem einmitt var í þeirri grein, sem síst var þörf meiri viðkomu, sem sje nýjum stúdentaskóla. Þetta ætti aldrei að gleymast, meðan þessi stjórn er við völd. Þessi sífelda hlutdrægni ráðh. í öllu, smáu sem stóru, er þegar þjóðkunn, og stofnun Akureyrarskólans er eitt sláandi dæmi hennar. Aðeins af því að ráðh. hafði tekið einskonar ástfóstri við Akureyri, þá var sjálfsagt að láta undan kröfunum um stofnun skólans. Í stuttu máli sagt, öll afskifti ráðh. af skólamálum sem öðrum málum hafa mótast af hinni alkunnu hlutdrægni ráðh., svo að segja má, að sú litla skíma, sem yfir ráðh, var á þessu sviði, sje nú algerlega horfin.

Jeg mun svo ekki taka öllu fleiri mál að sinni, enda mætti það æra óstöðugan að telja upp allar sakir stj., því tala þeirra er legio. Þó er það eitt mál, sem jeg hlýt að minnast á, og sem jeg tel aðalsök stj., þá höfuðsök, sem stj. hefir unnið sjer til óhelgi með. Og ef jeg ætlaði að bera fram vantraustsyfirlýsingu, sem jeg feginn vildi gera, ef jeg hjeldi, að það þýddi nokkuð, þá myndi jeg byggja hana fyrst og fremst á því stjórnmálaástandi, sem myndast í landinu við það, að stj. nýtur stuðnings jafnaðarmanna og á alla sína pólitísku aðstöðu undir þeim. Jeg viðurkenni fullkomlega tilverurjett jafnaðarmanna sem flokks í þinginu. En það er hið nána samband þessara tveggja ólíku flokka, sem skapar óheilindin og glundroðann í íslenskri pólitík. Stefna jafnaðarmanna miðar að afnámi eignarrjettarins og þjóðnýting allrar framleiðslu. Sú stefna, sem ekki miðar að þessu, er engin jafnaðarstefna. En meðan jafnaðarstefnan er ekki í meiri hl., þá vinnur hún og starfar í hinu „kapitalistiska“ þjóðskipulagi með verkföllum og öðrum þvílíkum meðulum. Í öðru lagi er jafnaðarstefnan „international“, alþjóðleg stefna, sem kastar rýrð á ættjarðarástina, og gengur það jafnvel svo langt, að þingmenn jafnaðarmanna vilja ekki halda þing sín undir fána landsins, heldur undir hinni rauðu dulu. Þó er eigi svo að skilja, að jeg sje að ásaka flokkinn með þessu, heldur er þetta einungis lýsing. Jafnaðarmannaflokkurinn kemur fram sem einhliða kaupstaðarflokkur. Í kaupgjaldsmálum, atvinnumálum, þjóðnýting og þjóðernismálum berst þessi flokkur leynt og ljóst gegn hagsmunum þeirrar stjettar, sem að Framsóknárflokknum stendur. Framsóknarflokkurinn, sem er yfirlýstur bændaflokkur, hefir nú fallist í faðma við þennan kaupstaðarflokk, sem í öllum þjóðfjelagsmálum er honum andvígur. Jafnaðarmenn hafa með þessu ástandi miklu sterkari aðstöðu í þinginu en þeim ber. En hver sú stj., sem lyftir jafnaðarmönnum til meiri valda en þeir eiga samkv. atkvæðamagni sínu, á óheilög að falla. Það er ekki af því að jafnaðarmenn sjeu verri en aðrir menn, heldur af því að slík óheilindi og loddaraskapur skapa óþolandi stjórmálaástand í landinu. Reynslan hefir líka sýnt, hver hætta getur af þessu stafað og hverjar afleiðingar þetta getur haft, ef það helst til langframa. Á þinginu í fyrra óðu jafnaðarmenn uppi og veifuðu stjórnarflokknum eins og dulu eftir geðþótta sínum. Þeir jafnvel neyddu Framsóknarflokkinn til þess að greiða atkvæði með nafnakalli þvert ofan í sjálfan sig og sína eigin fyrri atkvgr. Sami leikurinn er leikinn nú; jafnaðarmenn fara hamförum upp á líf og dauða; þeir vita, hvað það gildir, og hinir dragast með nauðugir viljugir. Það er næsta broslegt að sjá þann skrípaleik, sem þessir tveir flokkar leika hjer í deildinni um afgreiðslu málanna, og ekkert sýnir betur óheilindin og yfirdrepskapinn, sem hið pólitíska líf okkar er orðið gagnsýrt af. Þegar smámál eru á ferðum, eru einatt smáskærur á milli þessara flokka innbyrðis, til þess að sýnast fyrir kjósendum, en annað verður uppi á teningnum þegar stórmálin koma til afgreiðslu. Eitt augljósasta dæmi þessa er vinnudómurinn og till. um rannsókn togaraútgerðarinnar. Það er mál beggja þingflokkanna, íhalds og Framsóknar, svo maður skyldi nú ætla, að það myndi sigla hraðbyri gegnum þingið. En hvað skeður? Málið er beinlínis dregið á langinn að undirlagi og samkv. vilja og óskum jafnaðarmanna. Þetta er ekki mönnunum að kenna, sem hjer eiga hlut að máli; það er stjórnmálaástandið, sem á sök á þessu, og það stafar aftur af hinu óheilbrigða, óeðlilega og illræmda sambandi milli sócialista og bændaflokksins í þinginu. Auk þess ruglar slíkt ástand beinlínis alla meðvitund manna. Samstarf getur í sumum tilfellum verið holt og heilbrigt. En slíkur grímudansleikur sem þessi er ekkert samstarf. Það miðar aðeins til þess að rugla pólitíska meðvitund manna. Og milliliðurinn milli þessara tveggja flokka, sjálfur höfuðpaurinn í öllu þessu óheilindamakki, situr í sæti dómsmálaráðherrans. Það er núverandi dómsmrh., sem á sökina. Nokkrir menn í flokki Framsóknar hafa sterka tilhneigingu til fylgis við sócialista. Hinn hluti flokksins, sem í eðli sínu er sócialistum mjög andvígur, hefir enn ekki kjark til að varpa þeim af sjer. Þannig er þessum málum raunverulega háttað. Og það gremjulega er, að það er alveg óþarfi að láta jafnaðarmenn ráða nokkru hjer á þingi, fram yfir það, sem þeim ber eftir því, sem kjörfylgi þeirra segir til. Með þessu ástandi ræður minni hl. miklu meiru en rjett er. Jafnaðarmenn geta sagt, að þeir sjeu afskiftir um þingsæti, en þeir geta ekki sagt, að þeir sjeu afskiftir um áhrif í þinginu. Þetta verða menn að skilja. Hjer er fylsta alvara á ferðum. Og það hlýtur að reka að því, fyr eða síðar, að þeir, sem vilja halda í þetta þjóðskipulag, sem nú ríkir, — og það eru meðal annara bændur —, þeir hljóta að taka höndum saman í einn flokk gegn jafnaðarmönnum. Menn verða að gera upp með sjer, hvort þeir hafi þá skoðun á atvinnumálum, sem geti samrýmst skoðunum jafnaðarmanna. Og menn verða að vera á því hreina um það, hvort þeir styðji þingræðið eða ekki. t því eina ríki, sem stefna sócialista hefir verið gegnumfærð, hefir þingræðið verið afnumið. Að þessu mega menn ekki ganga gruflandi.

Jeg mun nú ekki halda langa tölu um þjóðrækni, en jeg ætla að taka það fram, að stórkostlegur meiri hl. þjóðarinnar er þjóðrækinn og metur þjóðerni okkar og þjóðleg einkenni mikils. (SÁÖ: Ekki íhaldsmenn). Jú, íhaldsmenn standa hiklaust undir fána landsins. Þeir eru ekki enn komnir upp á það að kyrja „internationale“ eða annan þvílíkan alþjóðasöng. Jeg er ekki svo þröngsýnn eða ófrjálslyndur, að jeg amist við því, að flokkur jafnaðarmanna sje til, en jeg er algerlega á móti því, að hann nái meiri áhrifum en honum ber í hlutfalli við aðra flokka í landinu. Það er áreiðanlegt, eða maður að minsta kosti vonar það, að úr þessu rætist áður en langt um líður. Það er einungis tímaspursmál, hvenær dómsmrh. tekur út sporið til fulls og kastar grímunni. Margt bendir til þess, að bændur sjeu að byrja að átta sig á þessu. Meðal annars er sagt, að það hafi farið að fara um suma bændakarlana í haust, þegar hv. þm. Ísaf. fór að tala um blóðugar byltingar á fundum, sem hæstv. dómsmrh. hjelt. Mönnum fer nú að verða það alment ljóst, að hinir eiginlegu stuðningsmenn dómsmrh. eru þessir sömu menn, sem tala um blóðsúthellingar og byltingar.

Það vill svo vel til, að í Alþýðublaðinu er til yfirlýsing frá Jóni heitnum Thoroddsen um það, hvernig núverandi dómsmrh. er kominn inn í bændaflokkinn. Sócíalistar rjeðu ráðum sínum um það, hvernig þeir ættu að efla flokk sinn í þessu iðnaðarsnauða landi. Þeir fengu augastað á bandalagi við bændur. Þá var Jónas Jónsson, núverandi dómsmrh., gerður út af örkinni til þess að vjela þá til fylgis við grímuklæddan sócialisma. Tók hann nú að nota bændur og fylgi þeirra til þess að efla aðstöðu sína og til þess að veita jafnaðarstefnunni brautargengi. Það hefir líka tekist að sveigja nokkum hluta bænda í þessa átt. Og sjálfsagt mun eitthvert slangur, með dómsmrh. í broddi fylkingar, lenda í hinni fyrirhuguðu höfn, í faðmi sócíalista. Hinn hluti Framsóknar hlýtur fyr eða síðar að reka af sjer slenið. Og þá birtir yfir hinu íslenska þjóðmálalífi. En það er núverandi stj., sem viðheldur þessu óheilindaástandi, og það stendur og fellur með henni. Slík sambræðsla hefir víðar átt sjer stað, en alstaðar orðið hlutaðeiganda að falli. Tökum til dæmis „radikalana“ dönsku. Þeir mynduðu stjórn með tilstyrk jafnaðarmanna, og nú er svo komið þeirra högum, að þeir geta varla talist sjerstakur flokkur lengur. Ekki er því þó um að kenna, að þeir sjeu ljelegri menn en aðrir, því þeir hafa mörgum afbragðsmönnum á að skipa. Sama er að segja um „liberala“ flokkinn enska. Í honum eru margir bestu menn Breta, svo sem Lloyd George o. fl. Þeir studdu jafnaðarmenn um tíma, þegar þeir voru við völdin. Nú er sá flokkur aðeins svipur hjá sjón hjá því, sem áður var, og hefir algerlega tapað fylgi þjóðarinnar. Hann átti nú enga lífsvon lengur og þá gripu forvígismenn hans til þess ráðs, að fá tvo ríkustu blaðakónga Bretlands til þess að grenja það út um alt landið, að nú ætli þeir aldrei framar að leggja lag sitt við sócíalista. Þetta er nú reynslan erlendis, og þannig hlýtur það einnig að verða hjer. Þessi pólitíski hrærigrautur er óþolandi og á engan rjett á sjer. Þess vegna er það krafa allra heilbrigt hugsandi manna, að núverandi stj. fari frá, til þess að ljetta þessu ófremdarástandi af þjóðinni.