10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það var föst regla fyrrum, þegar menn gengu til orustu, að þá voru þeir menn settir í fylkingarbrjóst, sem hraustastir voru og harðfengastir. Jeg efa það ekki, að Íhaldsflokkurinn hafi tekið þetta til athugunar nú og farið eftir þessu góða dæmi og valið þann mann til forustunnar, sem hann hafði mest traustið á. (MJ: Heyr!). Áður fyr voru menn gunnreifir og í vígahug, er þeir stóðu í fylkingarbrjósti, en sá háttv. þm., sem hjer hóf atlöguna, kvartaði undan því, að í sjer væru beinverkir og kuldahrollur.

Þar sem nú má ganga út frá því vísu, að þessi hv. þm. sje sjerstaklega kvaddur í eldhúsið, þá er vert að athuga, hvað hann hefir fyrst fram að færa og leggur aðaláhersluna á. Það er sjerstaklega tvent, sem er eftirtektarvert í ræðu hv. þm., og það var það, sem hann tók þegar fram í upphafi, að nú væri minni eldiviður en í fyrra og að stj. væri betri en áður. Þegar það nú er vitað, að Íhaldsflokkurinn hjelt sjerstakan flokksfund í fyrradag til þess að undirbúa sig undir þessa atlögu, að því er ætla má, og nú er nýafstaðinn allsherjar landsfundur íhaldsmanna af öllu landinu, þá er það ennþá merkilegra, að maðurinn, sem stendur í fylkingarbrjósti, skuli byrja með því að viðurkenna, að stj. sje betri en áður. Það er auðvitað mjög svo ánægjulegt að taka við slíkri yfirlýsingu nú á þessum degi, sjerstaklega þegar hún kemur frá sjálfum forvígismanni andstæðinganna. Þegar umr. hófust á eldhúsdaginn í fyrra, þá komst sá, sem þá stóð í fylkingarbrjósti, öðruvísi að orði. Hann líkti núverandi stjórnarformanni við grískan guð, sem var þeim kostum búinn, að hann hafði tvö höfuð og gat horft í tvær áttir, aftur og fram, eins og þeir, sem athuga vel sinn gang. Það kom nú reyndar síðar fram, að þessi hv. þm. var farinn að ruglast dálítið í goðafræðinni, en þetta má leggja vel út, og er þá skemtilegt að bera það saman við þessa yfirlýsingu núna. Það er oft sagt, að einsdæmi sjeu merkileg, en þetta einsdæmi er áreiðanlega merkilegast, að forvígismaður andstæðinganna lýsir yfir því á sjálfan eldhúsdaginn, að stj. fari batnandi og fátt sje um ásökunarefni.

Þá skal jeg víkja að einstökum atriðum, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi sjerstaklega til mín, og eru þau að vísu fá. Það var þá í fyrsta lagi út af framkvæmd skattalaganna, og beindi hann því með rjettu til mín, því að jeg gegndi því starfi, sem þar að lýtur, í 3–4 mánuði. Hv. 1. þm. Reykv. kvaðst ekki vera allskostar ánægður með skattstjóraskiftin, og það af því tilefni, að hann kvaðst bera svo sjerstaklega mikið traust til Einars Arnórssonar fyrv. skattstjóra, og hann væri svo sjerstaklega vel fallinn til þess að gegna þessu starfi. Jeg get því miður ekki verið hv. þm. alveg sammála um þetta. Þó að fyrv. skattstjóri sje bæði duglegur og nýtur maður að mörgu leyti, þá er jeg samt hræddur um, að hann hafi ekki verið sem best fallinn til skattstjórastarfsins og hafi ekki rækt það eins vel og margt annað meðan hann hafði það með höndum. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að gefnu tilefni, að nú hefir verið valinn mjög vel hæfur maður í þessa stöðu. Hann er að vísu aðeins settur, en ekki skipaður, eins og hv. 1. þm. Reykv. hjelt fram. Þessi maður hefir mikla sjerfræðilega mentun á þessu sviði, og sjerstaklega mikinn áhuga og löngun til þess að inna verk sitt sem allra best af hendi. Jeg er fullkomlega sannfærður um það, að hann muni gegna þessu starfi með þeirri samviskusemi, að allir megi vel við una.

Þá bar hv. 1. þm. Reykv. fram fyrirspurn um það, með hvaða heimild væri sent út brjef skattstjórans til gjaldendanna út af óskýrum framtölum. Hann las upp þetta brjef og svaraði sjer síðan sjálfur. Þessu er líka auðsvarað, því að hv. þm. veit, að skattstjórinn er jafnframt form. niðurjöfnunarnefndarinnar hjer í Reykjavík, og þarf þá ekki annað en að fletta upp í útsvarslögunum frá 1926, því að þar er þetta heimilað í 18. gr. Þar segir meðal annars svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig er henni (niðurjöfnunarnefnd) rjett að krefja aðila skýrslna um sjerhvað það, er hún telur skifta máli um útsvar hans“. (MJ: Þetta skiftir ekki máli. Hjer var ekki um útsvör að ræða). Þetta skiftir einmitt máli, því að það hefir því miður komið í ljós, eftir skýrslum frá bönkum og öðrum stofnunum, að sum framtölin hjer í bæ eru mjög svo óábyggileg, og tiltölulega margir hafa talið ranglega fram; því er nú ver. Nú hefir skattstjóri gert ráðstafanir, og það mjög vægar ráðstafanir, til þess að gefa fólki tækifæri til þess að leiðrjetta framtöl sín sjálft. Það var þess vegna, að þetta brjef var sent út; það átti að fá með því fram full framtöl, því að sum þeirra voru svo ófullkomin, að þau voru eiginlega að engu hafandi. Jeg vil svo lýsa yfir því, að eftir því sem jeg hefi fylgst með starfi núverandi skattstjóra, þá hefir hann hvorki í einu nje neinu farið út fyrir þau takmörk, sem honum voru sett í upphafi, en gengið að starfi sínu með þeim dugnaði og myndarskap, sem honum er laginn.

Næsta atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín, er raunar heldur smávægilegt, enda viðurkendi hann það sjálfur. Hann spurði mig um það, hvernig stæði á því, að ýmsir staðir á landinu væru uppnefndir í áætlun strandferðaskipsins Esju. Aðdragandinn að þessu er nú orðinn nokkuð langur, og er málið orðið allgamalt. Jeg man t. d. eftir því, að jeg hafði þá ánægju oftar en einu sinni sem frsm. fjvn. að leiðrjetta ýms nöfn í fjárlögunum, og á þinginu í fyrra tókst mjer að láta færa til betra máls nafn á einum kaupstað hjer á landi í sambandi við frv., sem þá var á ferðinni. Í samráði við nokkra þjóðrækna menn hjer í bænum skrifaði jeg svo heimspekideild háskólans brjef og bað hana að gera till. um gömul og þjóðleg nöfn á stöðum á landinu. Jeg býst við, að hv. 1. þm. Reykv. viti ósköp vel um þetta og hafi ef til vill lesið brjefið sjálfur. Heimspekideildin tók þessu mjög vel og liðlega og skipaði einn af sínum allra færustu og hæfustu mönnum, prófessor Pál Eggert Ólafsson, til þess að vinna þetta verk. Hann skrifaði svo um þetta ritgerð, og er sú ritgerð prentuð hjer í grg. frv. um nöfn bæja og kaupstaða. Jeg fjekk einmitt álit hans og till. í hendur nokkru áður en Esju-áætlunin kom út, og þá fól jeg Eimskipafjelaginu að fara eftir till. prófessorsins og að taka hans nöfn upp í áætlunina. Jeg veit að vísu, að það hefir tekist svo til, að gengið hefir verið feti framar í þessu heldur en prófessorinn ætlaðist til, en það skal verða leiðrjett. Þykir mjer það vel sæma fyrir einn ráðh. að fara til hinnar hæfustu stofnunar og fá hjá henni till. um að færa nöfn til betra máls, og fara svo eftir þeim, og svo mikið er víst, að meðan þessi stj. fer með völd, þá mun hún beita sjer fyrir því að færa þau nöfn í þjóðlegri búning, sem danskir skipskokkar hafa sett á íslenska staði á undanförnum árum.

Þá skal jeg víkja að því, sem hv. 1. þm. Reykv. drap áðan lauslega á, og það er járnbrautarmálið. Hann vildi halda því fram, að jeg hefði gengið af járnbrautarmálinu dauðu, og getur hann ekki átt þar við hið eiginlega járnbrautarmál, heldur eru það sennilega lögin um sjerleyfi handa fjelaginu Titan, sem hann á við. Hefði nú hv. 1. þm. Skagf. átt hjer hlut að máli, þá hefði jeg svarað þessu með því að beina fyrirspurn til hans út af þessu fjelagi. Mjer þykir mál til komið að fara að lýsa eftir járnbrautinni og fjelaginu. Nú er orðið stutt til 1. maí, og ekki bólar á Titan. Engin skilríki hafa enn verið lögð fram fyrir því, að fjelagið hafi neitt fje til þeirra framkvæmda, sem sjerleyfislögin hljóða um. Hvar eru peningarnir og hvar er fjelagið? Hv. þm. þarf ef til vill að bíða eftir stjórnarskiftum áður en hann lætur fjelagið bæra nokkuð á sjer? Jeg er hræddur um, að íhaldið verði að fara að kalla á Baal sinn. Annars álít jeg, að járnbrautarmálið eigi ekki að vera bundið við útlend fjelög eins og Titan, og mun jeg fá tækifæri til þess að víkja að því einhvern tíma síðar. Við eigum að bæta samgöngur okkar af eigin ramleik, og það ætti ekki að verða verra eða erfiðara þegar búið er að kveða niður þessa útlendu drauga.

Þá gat hv. 1. þm. Reykv. þess, að það væri undarlegt, að prestar ættu líka að vera símastjórar. Jeg skal þá segja honum það til gamans, að jeg hefi sjálfur verið hvorttveggja í senn, bæði símastjóri og prestur, hvort sem það var nú presturinn, sem var símastjóri, eða símastjórinn prestur, og svo mun vera ástatt um eina 30–40 presta á landinu, að jeg hygg. Síðan jeg varð yfirmaður allra símamála, hefir þetta haldið áfram til þessa, þó að ef til vill verði síðar gerðar einhverjar breyt., þar sem það þykir betur fara.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði svo um forstjóra Brunabótafjelagsins og áleit, að núverandi stjórn hefði ekki valið hæfasta manninn í þá stöðu af þeim, sem um hana sóttu. Jeg vil þá út af þessum ummælum hv. þm. gefa þá yfirlýsingu, að það er mín skoðun, að af hinum mörgu umsækjendum var alveg tvímælalaust valinn sá langfærasti og hæfasti. Jeg hefi átt tal um þetta við ýmsa málsmetandi menn, og þeir hafa allir lokið upp einum munni um það, að þetta starf væri hvergi betur komið en í höndum núverandi forstjóra.

Það er alveg rjett hjá hv. þm., þar sem hann sagði, að menn ættu að tala um utanríkismálin með mestu varúð. Jeg hefi sjálfur altaf kostað kapps um það hingað til, og það ættu allir hv. þm. að gera.

Jeg ætla svo að víkja að því, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um í niðurlagi ræðu sinnar og hann taldi höfuðsökina hjá núverandi stjórn. Hann sagði, að hún styddist við jafnaðarmenn, en það hefir ekki verið beinlínis, heldur hafa þeir lofað hlutleysi og efnt. Ætla jeg því ekki að tala alment um stefnu þeirra; um hana getur hv. þm. deilt við þm. þess flokks. Hv. þm. kallaði Framsóknarflokkinn fyrst og fremst bændaflokk, og er það alveg rjett. Það leikur ekki á tveim tungum, að Framsóknarflokkurinn vinnur mest fyrir bændurna, og hann leggur að sjálfsögðu höfuðáhersluna á viðreisn landbúnaðarins. Hvernig er svo farið að því að ná þessu marki? Við framsóknarmenn erum ekki nema 20 á þingi, svo að við getum ekki af eigin ramleik borið áhugamál okkar fram til sigurs. Til þess skortir okkur atkvæðamagn, en atkvæðin, sem þarf til viðbótar, höfum við fengið frá jafnaðarmönnum. Jeg efa það ekki, að mörg af okkar áhugamálum hefðu sennilega komist í gegnum þessa hv. deild án hjálpar jafnaðarmanna, en enginn hefir rekið sig betur á það en jeg, hvernig þeim mundi reiða af í hv. Ed., ef jafnaðarmanna nyti þar ekki við. Jeg vil nú nota tækifærið í þessu sambandi til þess að þakka hv. jafnaðarmönnum fyrir velvild þeirra og skilning á nauðsynjamálum landbúnaðarins, sem þeir hafa sýnt með framkomu sinni hjer á Alþingi. Mjer eru í minni þær undirtektir, sem lögin um búfjártryggingar fengu í hv. Ed. Þetta var ákaflega vel undirbúið mál og eitt hið sjálfsagðasta mál. Allir íhaldsþingmennirnir risu öndverðir gegn því, en með tilstyrk jafnaðarmanna gat Framsóknarflokkurinn komið því í gegn. Þetta voru kaldar kveðjur, sem íhaldsmennirnir sendu landbúnaðinum, en þær hafa komið margar síðar. Mun jeg lengi minnast þessara kveðja.

Jeg held, að það hafi svo ekki verið fleira, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín. Jeg vil þá að síðustu benda honum á það, að þó að tínt verði til ýmislegt, sem andstæðingarnir telja aðfinsluvert í fari stjórnarinnar, þá mun það verða ljettvægt við hliðina á þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf í upphafi. Jeg ætla svo að enda á því, sem hann byrjaði á, og segja, eins og hann segir um núverandi stj.: Batnandi manni er best að lifa.