10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhann Jósefsson:

Það má segja um hæstv. forsrh., að það þarf ekki mikið til þess að gleðja hann. Hvaða aðfinslur, sem koma frá andstæðingunum, verða til þess að gleðja hæstv. forsrh. Það er auðvitað gott, að hann getur glaðst, en mjer þótti samt æðiundarlegt, að hann skyldi geta glaðst yfir ræðu hv. 1. þm. Reykv. og því, sem hún gaf tilefni til. Hv. 1. þm. Reykv. talaði um ýmsa stórkostlega galla á stjórnarfarinu í landinu, og þó að hann hafi sagt í gamni, að eldiviðurinn væri minni nú en áður, þá eru samt allar líkur til þess, að hæstv. stj. geti ylnað nóg af þeim sprekum, sem tínd verða á glæðurnar áður en lýkur. Jeg ætla þó ekki að fara út í almennar ádeilur, en ætla að láta mjer nægja að taka eitt mál sjerstaklega til athugunar. Jeg verð þó að vera stuttorður, þar sem ekki eru eftir nema 3 „kortjer“ af fundartímanum. (BÁ: Það má nú segja mikið á 3 „kortjerum“). Já, jeg efast ekki um, að hv. þm. Mýr. gæti sagt mikið á 3 „kortjerum“. Að minsta kosti gæti hann komið með mörg aflátsbrjef á svo stuttum tíma, því að hann hefir útbúið þau áður. Það var hann, hv. þm. Mýr., sem bjó út og ljet samþ. á þingmálafundi í kjördæmi sínu þakkarávarp og aflátsbrjef fyrir alt það versta, sem núverandi stj. hefir gert og látið gera.

Merkur stjórnmálamaður skrifaði einu sinni grein um stjórnarfarið í landinu eins og það er í höndum núverandi stj. Hann gat þess, að núverandi stj. er alls ekki vaxin upp úr því að vera flokksstjórn; hún sjer ekki út yfir flokkinn og hugsar aðeins um hann og hans hagsmuni. Þetta hljóta flestir óhlutdrægir menn að viðurkenna og taka undir, þegar verk hæstv. stj. eru athuguð ofan í kjölinn. Hlutdrægnin gengur eins og rauður þráður gegnum alt stjórnarfarið. Jeg ætla þó ekki að rekja marga þætti í keðju stjórnarafglapanna, en víkja máli mínu fyrst og fremst að áfengisversluninni.

Á undanförnum þingum hafa núverandi stjórnarflokkar með dómsmrh. í broddi fylkingar haldið uppi látlausum árásum á Íhaldsflokkinn út af áfengismálunum — alt undir bindindisyfirskini. Mönnum hefir verið ætlað að trúa því, að Íhaldsflokkurinn væri samsafn óreglumanna og drykkjurúta, en allir aðrir væru hvítir englar í þessum efnum, og því hefir frá upphafi verið haldið að mönnum, að undanþága sú, sem gefin var frá bannlögunum með Spánarsamningunum frá 1925, hafi verið til þess eins gerð að svala hinni óslökkvandi drykkjufýsn íhaldsmanna í landinu.

Nú kom að því, að þessir sömu stjórnmálamenn fengu völdin í landinu, og fengu því um leið tækifæri til þess að ráðstafa þessu eftir vild. En síðan hefir verið blessunarleg þögn um þessi mál, og það liggur ekki fyrir þinginu nú fjöldi áskorana um að afnema útsölustaði spánarvína. Það hefir því færst kyrð yfir hæstv. dómsmrh. og flokksbræður hans í þessu máli. Meira að segja er haldið, að þessi hæstv. ráðh. hafi ritað blaðagrein, þar sem hann talar um, að hægt sje að nota þessi spánarvín án þess að misnota þau, eins og vitanlega er alveg rjett. En þetta er ekki fyr en málið horfir þannig við, að ekki er lengur hægt að nota það sem kosningabrellu og til árása á annan flokk.

Þegar hæstv. ráðh. var kominn til valda, leið ekki á löngu, að hann færi að skifta sjer af áfengisversluninni, sem ekki var nema eðlilegt og sjálfsagt. En afskiftin byrjuðu með því, að hann sagði öllum starfsmönnum hennar upp. Hvort hann gerði það sama daginn að segja upp starfsmönnum verslunarinnar hjer og útsölumönnunum úti um land, veit jeg ekki, enda skiftir það engu máli. Ástæðurnar fyrir þessari frávikningu komu hvergi fram, nema það sem lesa mátti í stjórnarblöðunum, að alt hefði verið í skuldum og óreglu hjá þessum mönnum. Hvað snertir útsölumenn vínanna úti um land, þá er það víst, að fyrir uppsögn þeirra voru engar ástæður teknar fram. Þannig er t. d. sagt, að einn þeirra hafi ekki vitað fyr en annar maður kom inn í búðina og sama sem sagði honum að fara út.

Jeg er nú alls ekki að halda því fram, að uppsögn þessara manna hafi í alla staði verið órjettmæt. Þvert á móti lít jeg svo á, að það hafi beinlínis verið rjett að láta suma þeirra fara, því að það er rjett að láta óreiðu menn fara frá trúnaðarstörfum. Hjer í Reykjavík munu nú einhverjir af þeim, sem störfuðu við áfengisverslunina, hafa fengið stöður sínar aftur. Hvort það hafa verið þeir, sem ekkert hafa gert fyrir sjer, veit jeg ekki. Annars mun áfengisverslunarforstjórinn hafa gefið það í skyn í einhverjum skrifum sínum, að það hafi verið eingöngu drykkjumennirnir, sem hafi verið látnir fara.

Hvað snertir útsölumenn vínanna úti um land, þá mun enginn þeirra hafa fengið að sitja kyr, nema útsölumaðurinn á Akureyri. Og þau opinberu skil, sem gerð voru fyrir frávikningu þeirra, voru engin önnur en þau, sem jeg gat um áðan, að komið hefðu fram í stjórnarblöðunum, að þeir, sem hefðu verið látnir fara, hefðu verið látnir fara frá vegna óreiðu og vanskila. Væri nú þetta satt, væri ekkert við því að segja. En svo er alls ekki um alla þá, er í hlut eiga. Þegar frávikning þessara manna átti sjer stað, var í gildi reglugerð frá 18. júlí 1922, þar sem svo var ákveðið, að bæjarstjórnir hefðu tillögurjett um það, hverjum skyldi falin útsala spánarvína á hverjum stað. Þannig var manni þeim, sem útsöluna hafði í Vestmannaeyjum, og hæstv. ráðh. hefir nú rekið, veitt hún eftir till. bæjarstjórnarinnar þar.

Nú veit jeg ekki betur en að reglugerð þessi hafi verið í fullu gildi þegar oftnefndur hæstv. dómsmrh. ljet reka alla útsölumennina, og suma hverja alveg saklausa. Hefir því hæstv. ráðh. rjett í það skiftið(!) brotið í bág við lög og reglur og fótum troðið rjett annara, því að það var svo sem ekki verið að bera það undir bæjarstjórnir kaupstaðanna, hverjum skyldi veita þessar stöður eftir að búið var að reka úr þeim þá, er þar voru fyrir.

Hæstv. ráðh. skipaði bara vildarmenn sína í stöðurnar, án þess á nokkurn hátt að leita um það tillagna bæjarstjórnanna, eins og honum bar skylda til. Sá eini af hinum fyrri útsölumönnum, sem fjekk að vera kyr, var útsölumaðurinn á Akureyri, en hann er líka tryggur flokksmaður hæstv. ráðh.

Í landsreikningnum fyrir 1927, sem hjer liggur fyrir, eru upplýsingar um það, hverjar hafi verið skuldir þessara útsölumanna í árslok 1927. Og það einkennilega er, að sá af útsölumönnum spánarvínanna, sem einn þótti verðugur að halda starfi sínu áfram, skuldar langmest. Skuldir hans eru kr. 50913,- 74. Sá, sem næst honum kemst með skuldirnar, skuldar þó ekki nema 33 þús. kr., og virðist það þó að vísu ærið nóg.

Um suma þessa útsölumenn hefi jeg fengið þær upplýsingar, að þeir hafi skuldað mjög lítið. Þannig mun t. d. útsölumaðurinn í Vestmannaeyjum ekki hafa skuldað neitt á þessum tíma. Þannig eru því heilindi hæstv. ráðh. í þessu máli, að mesti óskilamaðurinn er látinn sitja kyr, af því að hann er flokksbróðir hans, en margir hinna, sem eru alsaklausir, eru reknir.

Eins og nærri mátti geta, var það ekki látið bíða lengi að setja nýtt yfirhöfuð á vínverslunina í Reykjavík, ég varð fyrir valinu sá sami maður, sem seinna fann upp vísdóminn með uxahöfuðin. Það var svo sem heldur ekki farið í geitarhús að leita ullar í þeim efnum! Maður þessi hafði aldrei komið nærri slíkri verslun og bar því ekkert skyn á þessa hluti. En hann var tryggur fylgifiskur ráðh. og flokksbróðir, og það var nóg. Eins og hv. dm. mun flestum kunnugt, mintist maður einn úr Íhaldsflokknum á þessa ráðstöfun hæstv. stj. á landsmálafundum í sumar sem dæmi upp á hlutdrægni stj. í embættaveitingum. Út af þessu spunnust svo allmiklar blaðadeilur, sem byrjuðu með langri ritsmíð eftir sjálfan forstjóra vínverslunarinnar. Hann byrjar á að tala um það í grein sinni, að einum hv. íhaldsmanni hafi þótt það kynlegt, að sjer skyldi falin forstaða vínverslunarinnar. Heldur hann svo áfram og telur upp ýmislegt viðvíkjandi rekstri verslunarinnar, sem hann telur að hafi farið aflaga hjá fyrv. stj. hennar. Af þeirri frásögn forstjórans er það sýnilegt, að skuldir verslunarinnar og jafnvel birgðir hennar hafa verið óþarflega miklar í tíð fyrv. forstjóra. Annars var það ekki þessi hv. nýi forstjóri, sem fann púðrið þarna. Alþingi 1927 hafði vakið athygli á því, að útistandandi skuldir ríkisverslananna væru alt of miklar. Og það mun hafa verið hv. 1. þm. Reykv., sem hafði framsögu fyrir þál., sem fjhn. flutti þá á þinginu, þar sem skorað var á stj. að hlutast til um, að betur væri gengið eftir skuldum verslananna en gert hafði verið, og sömuleiðis að sjá um, að birgðir þeirra væru ekki nema hæfilega miklar.

Árangurinn af þessari áskorun varð líka góður. Skuldir verslananna, sem um áramót ’26–’27 voru 480 þús. kr., minkuðu á árinu 1927 um 184 þús. kr. Er því augljóst, að hafist hefir verið handa að ná inn skuldunum. Á sama tíma minkuðu birgðirnar líka um 70 þús. kr.

Í áðurnefndri ritsmíð forstjórans, sem stjórnarblaðið flutti, er ýmislegt um rekstur verslunarinnar í tíð fyrirrennara hans, og þó að það skíni í gegn, að hann vilji koma sem flestu af óreiðunni, sem hann telur vera, yfir á hendur fyrirrennarans, er þó sýnilegt, að stjórn verslunarinnar hefir ekki verið í sem bestu lagi, sjerstaklega að því leyti, að útistandandi skuldir hafa verið of miklar.

Í ritsmíð þessari fer hinn nýi forstjóri svo að minnast á ýmsar tiltektir, sem hann hafi ráðist í til hagsbóta fyrir vínverslunina. Mest af þeim umbótaráðstöfunum eru áætlanir og ýkjur, sem ekki styðjast við neinn veruleika, en eru því vægast sagt Journalistiskt“ slúður. En svo kemur nýtt innlegg frá honum í sambandi við minkun birgðanna. Um hana farast forstjóranum orð á þessa leið í stjórnarblaðinu, með leyfi hæstv. forseta: — „Undir hinni nýju stj. hefir tekist að finna ráð til þess að gera meginhluta hinna gömlu og áður óseljanlegu birgða að verslunarvöru með vonum minna tapi. Í septembermán. einum mun hafa losnað verðmæti úr þremur slíkum vörutegundum fyrir um 60 þús. kr.“.

Svo mörg eru þau orð. „Undir hinni nýju stjórn“ tókst að finna ráð, og ráðið var að sulla saman mismunandi vintegundum, sem forstjórinn kallar svo „cocktail“ og selur þennan mjöð svo sem White Lisbon Port, eða hvítt portvín frá Lissabon. Það leið nú ekki á löngu þangað til menn fóru að veita þessu frekari athygli og þótti eitthvað kynlegt við þessa nýju blöndunaraðferð, og var því farið að skrifa um þetta í andstæðingablöð stjórnarinnar, og jafnframt bent á, að þetta nýja ráð forstjórans væri ef til vill ekki eins heppilegt eins og hann hafði búist við. Fóru þá að renna á hann tvær grímur, og í stað þess að eigna sjer og „hinni nýju stjórn“ heiðurinn af þessari nýju uppgötvun, vildi hann nú fara að gefa fyrirrennara sínum hlutdeild í heiðrinum‘ með sjer. Hann hafði þá fengið nasasjón af því, að það væri valdast, hvernig á það væri litið, þegar blandað væri saman tveimur ólíkum vörutegundum og selja þær svo undir fölsku vörumerki.

Þá segir forstjórinn, að blöndunin hafi ekkert gengið hjá fyrirrennara sínum, Mogensen. Hann hafi verið að „kjótla“ þessu í 10 lítra brúsa. Það átti svo sem ekki við sannan framsóknarmann slíkt vinnulag. Hann segist því hafa tekið upp aðra vinnuaðferð, og eins og hann lýsir henni sjálfur í stjórnarblaðinu, þá segist hann hafa fengið sjer ámu, sem hafi tekið 5 uxahöfuð, til að blanda í. Þá var svo sem ekki verið að „kjótla“. Þennan „cocktail“ sinn kallar hann hinn „góða mjöð“, og segir, að eftirspurnin eftir honum hafi verið svo mikil, að í septembermánuði einum hafi selst af honum fyrir 60 þús. kr. En svo hógvær er forstjórinn, að hann getur þess í stjórnarblaðinu, að þar sem hann sjálfur hafi ekki haft þekkingu á gæðum vínsins, þá hafi hann fengið fyrirrennara sinn, Mogensen, þennan sama sem „kjótlaði“, til þess að smakka á því. Hinn nýi forstjóri er því svo mikill bindindismaður, að hann getur ekki sjálfur verið þektur fyrir að bragða þennan „góða mjöð“, sem hann er að framleiða, og fær því fyrirrennara sinn, sem hann telur nægilega mikinn syndasel, til þess að smakka á uxahöfðunum hjá sjer. (Hlátur). En örlögin eru stundum kaldhæðin, og svo hefir orðið hjer. Þegar forstjóri áfengisverslunarinnar, sem valinn er úr þeim flokki, sem sjerstaklega hefir haft bindindismálin sem kosningabeitu, og er jafnframt hinn mesti meinlætamaður hvað snertir áfenga drykki, skuli einmitt verða til þess að sulla saman víntegundum og búa þannig til blöndu, sem verður ennþá sterkari en hinar einstöku víntegundir voru upphaflega, til þess að freista hinna vínhneigðu manna. Og í stað þess að sjá niðurlægingu sína í þessum efnum, þá hælist forstjórinn yfir því, að hið sterka vín, sem hann hefir bruggað, skuli hafa runnið svo út, að hann á skömmum tíma hefir selt af þessari aukagetu fyrir 60 þús. kr. Í gleði sinni gleymir þessi ,bindindisfrömuður‘ stjórnarflokksins því, að hann með þessu hefir gerst mesti vínbruggari þessa lands. Maður gæti nú í raun og veru brosað að þessu brölti forstjórans og blönduninni, ef maður sæi ekki, að bindindis-„principið“ er látið eiga sig, og það, sem þó er verra og alvarlegra, að þessi blanda er seld undir fölsku vörumerki. Blöndun þessari er þannig lýst af forstjóranum sjálfum, að hún sje þannig gerð, að blandað sje saman 3 ódýrum tegundum við eina dýrari. Ofan á það svo að ginna landsmenn til þess að kaupa þessa sviknu vöru undir ákveðnu vörumerki bætist það, að þessi ríkisstofnun verður til þess að brjóta svo stórlega á hluta hins útlenda verslunarhúss, að setja undir vörumerki þess falsaða vöru. Áhrif vörusvikanna vita því bæði út á við og inn á við, til neytendanna.

Hæstv. dómsmrh. hefir nú eflaust ekki þótt „vandskírð fátækra manna börn“, og því talið, að á sama stæði, hvernig sú víntegund væri, sem menn helst keyptu til þess að verða ölvaðir af. Þetta er nú sá verknaður, sem mest var hælst af „undir hinni nýju stjórn“ hvað áfengisverslunina snerti.

Jeg vil þá fara nokkrum orðum um starfsmannaskiftin við áfengisútsölurnar. Það er rjett að segja það, sem rjett er í þessu máli eins og öðrum. Og 2 af þeim mönnum, sem útsölu höfðu með höndum, mun hafa verið rjett að láta fara. En þremur, á Seyðisfirði, Ísafirði og Vestmannaeyjum, var vikið frá alveg að ástæðulausu. Verður það að skoðast sem hættulegt fordæmi og hættulegt fyrir borgara landsins að eiga það á hættu, að landsstj. reki þá frá starfi sínu, þó ekkert sje átöluvert, hvernig þeir leysa það af hendi. Og það á við um þá 3 menn, er jeg nefndi síðast. Þetta verður enn átöluverðara fyrir það, að sá maðurinn, sem mest hafði brotið af sjer með skuldasöfnun, er kyr, og er ekki betur hægt að sjá en að eina ástæðan til þess sje sú, að þessi maður, útsölumaðurinn á Akureyri, er flokksbróðir hæstv. dómsmrh.

Þá vil jeg enn árjetta það, hversu óheppilega ríkisstj. hefir komið fram gagnvart vínhneigðum mönnum í landinu, þar sem hún hefir unnið að því að gera vín meira tælandi og auka þar með drykkjuskap, sem nemur, eftir frásögn forstjórans, fyrir 60 þús. kr. á einum mánuði umfram hið venjulega. Þá eru vörusvikin alvarlegt atriði, þótt máske valdi meiru um þau fáfræði en ásetningur forstjórans. Jeg hefi nú sjeð því haldið fram, að ríkisstj. hafi ekkert um þetta vitað. Það getur verið, að svo sje. En þó er það nú heldur ósennilegt, að hin fimmfalda uxahöfuðsbruggun hafi algerlega farið framhjá stj. Og sjálft stjórnarblaðið var notað til að segja frá, hvernig að þessu var farið. Forstjórinn hefir og játað þetta. En hann vill draga úr því og kalla það óhapp. Já, jeg held nú að það geti kallast nokkuð stórt óhapp, að falsa þannig vöru. Jeg veit nú ekki, hvað stj. hefir gert í þessu máli. Það hafa ekki verið háværar raddir um það í stjórnarblöðunum, að hegna þessum svikum. Ef um einstaklingsfyrirtæki hefði verið að ræða, einkanlega ef stjórnarandstæðingur hefði átt hlut að máli, þá hefði áreiðanlega verið heimtuð rannsókn á því. Ef til vill getur hæstv. dómsmrh. upplýst það, hvort sú rannsókn hefir verið fyrirskipuð. Slík rannsókn hefði átt að fara fram, hver sem í hlut átti. Nú hefir líklega alt verið gert af hálfu ríkisstj. til þess að blíðka hið portugalska verslunarhús, sem var móðgað með því að taka upp merki þess á þessa blöndu. Jeg hefi líka heyrt, að keyptur hafi verið friður við það. Veit þó ekki, hvort satt er, og fullyrði því ekkert um það. En af öllum ástæðum var rjett að afmá þennan blett, sem á okkur fjell við þetta verslunarhús. Hefði því verið rjett að fyrirskipa opinbera rannsókn. Við höfum meiri viðskifti við Portúgal en þau, að við kaupum vín af þeim. Þetta ríki kaupir vörur af okkur fyrir miklu meira en við kaupum þaðan. Hefði því verið rjett að fara sem varlegast. Jeg býst við, að hæstv. dómsmrh. upplýsi þetta.

Hv. 1. þm. Reykv. komst svo að orði í sambandi við þetta mál alt, vínmálið, að þar væri um dýpsta djúp spillingarinnar að ræða. Jeg veit nú ekki, hvort rjett er að kveða svo hart að orði, en það er djúp spilling, þegar alsaklausum mönnum er vikið frá starfi án allra orsaka. Hjer er ekki hægt að afsaka sig með því, að um nýtt skipulag sje að ræða, sem útheimti nýja menn. En það væri hin eina ástsæða, sem takandi væri til greina. Og besta sönnunin fyrir því er, að sá maður, sem reynst hafði allra óhæfastur samkv. skýrslu um skuldir útsölumanna, er látinn sitja kyr. — Það, sem allra alvarlegast er í þessu máli og öllum hlýtur að ofbjóða, er sú tegund rjettlætiskendar, sem lætur blað stj. skýra frá þessari stórkostlegu fölsun, sem átti sjer stað, um leið og hið sama blað sífelt stagast á því, að stj. vilji uppræta alt óhreint í opinberu lífi hjer á landi. En í þessu sem öðrum málum, sem ríkisstj. núverandi tekur sjer fyrir hendur að fást við, mun fara svo, að hún tekur vægt á sínum flokksmönnum, þótt hún veifi sverði rjettlætisins hátt yfir höfði andstæðinganna. Þetta er nú eitt lítið dæmi þess, en mætti nefna fleiri. Þessi rjettlætiskend hefir komið svo greinilega fram hjá hæstv. ríkisstj., að um það má segja, að hjer er um mikið djúp spillingar að ræða. Jeg er ekki hjer með að bera skjöld fyrir brotlega menn, sem störfuðu áður við þessa verslun. Jeg er aðeins að benda á það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefir búið að saklausum mönnum og hvað rekstur ríkisins getur verið afar óheppilegur, þegar þannig er með farið sem jeg nú hefi lýst. Það er ekki hægt í einni og sömu ræðu að koma eins víða við og þörf er á um hið marga og mikla, sem aflaga fer í gerðum stj. En jeg býst við, að drepið verði á fleiri mál, svo sem Tervanimálið, sjálfstæðismálin og fleiri mál, af mjer eða öðrum áður lýkur. Jeg hygg, að þá muni sýna sig, að hæstv. ríkisstj. er ekki sjerstaklega beysinn bógur gagnvart útlendingum, þótt hún sje ærið hnarreist hjer heima. Mun þetta sjást glögt í Tervani-málinu. Þar hefir efalaust ekki ráðið annað en ótti stj. við erlent vald, ótti, sem samkv. undangenginni reynslu er algerlega ástæðulaus og til þess eins að veikja afstöðu ríkisins út á við í landhelgismálunum. Á síðasta þingi var nokkuð rætt hjer um svokallað ,0hm‘-mál. Það var útlent skip, sem bjargað hafði verið, og var krafist björgunarlauna. Þetta þótti hæstv. dómsmrh. mjög misráðið og gaf bjarglaunin til útlendinga. Þetta þótti honum sjálfum ágæt ráðstöfun og eins hinum útlendu vátryggingarfjelögum. Mátti því ætla, að hann hjeldi sömu stefnu uppi framvegis. Jeg get nú reyndar ekki sjeð, að það sje neitt voðalegt að taka bjarglaun fyrir útlend skip, þótt það sjeu varðskipin, sem bjarga þeim. En hæstv. ráðh. er nú, eins og um var getið, á annari skoðun. Nú nýlega bjargaði Þór belgískum togara, sem ella hefði strandað og eyðilagst við Vestmannaeyjar. Jeg veit nú ekki, hvort nokkur próf hafa farið fram í þessu máli ennþá. Sje nú svo, að engin skýrsla hafi verið tekin, hlýtur það að vera að fyrirlagi ríkisstj. En heyrt hefi jeg, að 3000 kr. hafi verið greiddar fyrir björgunina.

Í sumar sem leið bjargaði Þór bát frá Vestmannaeyjum fyrir norðan land. Fyrir þetta hefir stj. krafist um 2000 kr. björgunarlauna. Það sýnist ekki mikið samræmi í því að heimta 2000 kr. fyrir bát um eða innan við 20 tonn, en ekki nema 3000 kr. fyrir togara. Ástæðan til ósamræmisins er e. t. v. sú, að togarinn var útlendur, en báturinn innlendur. Það sýnist koma vel heim við stefnu hæstv. stj. í Tervani-málinu og öðrum slíkum málum.

Þegar Óðinn var nýkominn hingað frá skipasmiðastöðinni, komu, eins og allir vita, fram allhættulegar misfellur á smíði hans. Enginn gekk lengra í því en hæstv. dómsmrh. að átelja þetta. Í þingræðu komst hann m. a. svo að orði, að þáverandi stj. myndi ekki hafa viljað hafa skipið betra. Nú var það vitanlegt, að stj. átti enga sök á misfellunum, heldur skipasmíðastöðin og hinn útlendi sjerfræðingur, sem teiknaði skipið. Skipasmíðastöðinni má segja það til hróss, að hún bætti úr missmíði skipsins.

Nú skyldi maður ætla, að hæstv. dómsmrh., sem mest hafði átalið fyrv. stj. fyrir eftirlitsleysi með smíði Óðins, hefði kosið sjer annan ráðunaut en hún hafði haft, þegar bygging annars strandvarnaskips var fyrir hendi. Því leyfi jeg mjer að spyrja hæstv. ráðh.: Er það satt, sem heyrst hefir, að þessi sami maður sje ráðunautur núv. stj. við smíði nýja skipsins, maðurinn, sem hæstv. ráðh. var búinn að ófrægja óbeinlínis hvað eftir annað hjer á Alþingi? Og jeg vil ennfremur spyrja: Er það satt, að þessum manni hafi verið veitt alveg sjerstök viðurkenning af hálfu hins íslenska ríkis, nefnil. fálkaorðan svonefnda? Jeg veit ekki, hvort þetta er satt. Jeg spyr aðeins. En sje það rjett, að þessi maður sje ráðunautur núv. stj. og hafi fengið opinbera viðurkenningu 1. des. síðastl., þá fer að verða skrítin aðstaða hæstv. dómsmrh. til sinna fyrri digurmæla um smíði Óðins.

Það mun best að láta nú staðar numið í bili. Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. er með eitthvert blátt hefti á borðinu fyrir framan Sig. Það minnir mig á hinar svo nefndu „bláu bækur“, sem ófriðarþjóðirnar gáfu út á stríðsárunum öðru hverju til þess að verja atferli sitt í ófriðnum. Sje hjer um að ræða einhverja slíka „bláa bók“, sem hæstv. stj. er að reyna að koma á framfæri hjá þjóðinni, sýnir það, að hún muni finna fulla þörf á að verja sig og gerðir sínar. Og þá telur hún sjálfsagt ekki eftir þjóðinni að borga útgáfuna. Til eru raunar margar bláar bækur, og kemur brátt í ljós, hvort hjer er á ferðum ein slík, sem jeg hefi talað um. En ekki þykir mjer ólíklegt, að stjórnin sjái ástæðu til að gera hreint fyrir sínum dyrum; svo raunalega margar ávirðingar dregst hún nú með á bakinu eftir hina stuttu stund, sem hún hefir setið við völd.