10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir rjettara að hafa þau vinnubrögð, að koma að því jafnóðum, sem til mín er beint. Hafa nú tveir íhaldsmenn talað eftir síðustu ræðu mína, hv. þm. Vestm. og hv. þm. Borgf.

Hv. þm. Vestm. hjelt alllanga ræðu, en af því átti jeg ekki nema örfá orð í upphafi ræðunnar. Það var út af því, sem jeg hafði sagt í upphafi og lokum minnar ræðu. Hv. þm. sagði, að það þyrfti ekki mikið af því til að gleðja mig, sem kæmi frá andstæðingunum. En það fer auðvitað eftir því, í hvernig ljósi það er skoðað. Jeg býst við, að þegar eldhúsdagurinn kemur og andstæðingarnir beita öllum vopnum sínum á stj., þá megi það gott þykja, að í þetta skiftið var það fyrsta kveðjan, sem þeir sendu okkur, að stj. væri að batna. Mjer hefði ekki þótt neitt undarlegt að heyra það frá vinum mínum, en þegar maður fær að heyra það frá andstæðingunum, og það á sjálfan eldhúsdaginn, þá er það talsvert mikils virði. — Annað var það ekki, sem hv. þm. Vestm. beindi til mín.

Hv. þm. Borgf. hefir haldið hjer nokkuð langa ræðu, og hefði mátt segja það fyrirfram, hvernig hans ræða mundi verða, því að hann er maður, sem kemur fram harðlega og djarflega. Það var vitanlegt, að hlutverk þess hv. þm. myndi vera að draga fram einstakar smáupphæðir og halda um þær vandlætingarræðu.

Það var aðeins eitt atriði, sem ekki kom þessu við, og það var út af þeim orðum, sem jeg hafði látið falla um framkomu íhaldsmanna í Ed. í frv. um búfjártryggingar. Hv. þm. vildi afsaka sig með því, að málið hefði ekki verið nægilega undirbúið; það var sagt á Búnaðarþinginu 1927, en frv. var borið fram á þinginu 1928, og þá höfðu þeir menn, sem mesta og besta þekkingu höfðu á slíkum málum, undirbúið það, svo að þessi fyrirsláttur, sem íhaldsmenn báru fram í hv. Ed., átti sjer engan stað. En hitt vita allir, að það er stundum notaður sá fyrirsláttur, að málin sjeu ekki nægilega undirbúin, þegar á að reyna að koma þeim fyrir kattarnef. Jeg nefndi aðeins eitt dæmi af mörgum, og vil ekki vera að draga fleiri inn í eldhúsdagsumr., en þetta eina dæmi kom aðeins til af því, sem jeg svaraði hv. 1. þm. Reykv. En jeg geri annars ráð fyrir því, ef jeg held heilsu næsta sumar, að íhaldsmenn fái tækifæri til að standa og svara því á fundum úti um land, hvernig framkoma þeirra hafi verið í helstu áhugamálum landbúnaðarins.

Þá vjek hv. þm. að nokkrum atriðum, sem heyra undir starfsvið mitt, og byrjaði þá að tala um utanfararstyrkina og minti á, að það væri sjerstakur liður í fjárlögunum til þess, 6 þús. kr., en kvaðst ætla, að það væri búið að veita helmingi meira. Jeg veit þetta ekki fyrir víst og vil ekkert vera að rengja það, sem hv. þm. segir, en hitt vil jeg aðeins benda hv. þm. á, að ef hann fer í fjáraukalög undanfarandi ára, þá mun hv. þm. fá að sjá, að það, sem veitt hefir verið til utanfarar handa einstökum mönnum, hefir verið töluvert meira en þetta. Og þegar gengur yfir landið eins gott árferði og nú er, þá veldur það meiri bjartsýni hjá einstökum mönnum, hjá þingi og hjá stj., og þegar viðskifti okkar við umheiminn fara altaf vaxandi, þá er ekki nema eðlilegt, að meira fje fari í þess háttar styrki, en þær tölur, sem hv. þm. nefndi í þessu sambandi, bentu alls ekki á það.

Hv. þm. benti svo á nokkra styrki af þessu tægi. Voru það sjerstaklega tveir, sem snertu mig, nefnil. styrkurinn til Hallgríms Þorbergssonar fjárræktarmanns, og annar til Hallbjörns Halldórssonar forstöðumanns Alþýðuprentsmiðjunnar. Jeg held, að það sitji illa á þessum fulltrúa fyrir landbúnaðinn að vera að finna að því, að það sje styrktur maður til að kynna sjer vinnubrögð við eina þýðingarmestu grein landbúnaðarins, maður, sem einmitt hefir sjerstaka þekkingu til að bera. Hitt hefir verið skrifað afarmikið um í andstæðingablöðunum hjer, að forstöðumaður fyrir einni prentsmiðju hjer í bænum, Hallbjörn Halldórsson, fjekk styrk af því fje, sem ætlað er til iðnaðarnáms. Jeg skal taka það fram, að stj. notaði ekki meira en veitt var, og það lágu svo fáar umsóknir fyrir, að þeir, sem sóktu um styrk, fengu hann allir, sem yfirleitt kom til mála að styrkja, svo að það var ekki tekið frá neinum og ekki á neinn hátt farið út fyrir heimildir, að Hallbirni Halldórssyni var veittur styrkur. Svo vil jeg bæta því við, að þessi maður hefir að vísu verið töluvert við stjórnmál riðinn, en jeg er honum allmjög kunnugur á öðru sviði. Jeg var, eins og hv. þm. veit, ritstjóri fyrir blaði, og var Hallbjörn Halldórsson þá verkstjóri í þeirri prentsmiðju, sem blaðið var prentað í, svo eftir 10 ára ritstjórnarstarf þekki jeg hann allvel, enda er þessi maður að mínum dómi einn með allra fremstu mönnum í sinni grein, svo að þótt honum væri veittur styrkur til að auka þekkingu sína á þessu sviði, og þegar fjárveitingin annars ekki hefði verið notuð, þá get jeg ekki tekið við ákúrum fyrir þetta. En úr því að hv. þm. er að segja, að stj. hafi sýnt af sjer hlutdrægni og finnur ekki aðeins sjerstakt bragð að því, að þessum góða iðnaðarmanni var veittur styrkur, heldur vill hv. þm. láta það skína í gegn, að stj. hafi verið að koma sjer vel við jafnaðarmenn með þessu. Jeg vil nú spyrja hv. þm. að því, hvers vegna nefndi hann ekki tvo aðra menn, sem hafa fengið styrk til utanfarar? Annar þeirra er samherji hv. þm. og fyrverandi þm. Íhaldsflokksins, Björn Líndal, og sem þar á ofan fjekk hærri styrk en Hallbjörn Halldórsson. Sá maður fjekk styrk af markaðsleitarfje, og jeg skal játa það, að jeg fjekk snuprur hjá mörgum fyrir þessa styrkveitingu, en jeg taldi það víst, enda kom það líka á daginn, að hann myndi verða kosinn í hina væntanlegu stjórn síldareinkasölunnar. Svo er annar maður Íhaldsflokksins, sem er trúnaðarmaður flokksins í stjórn Búnaðarfjelags Íslands; hann hefir fengið styrk til að fara utan og kynnast erlendum búnaðarháttum. Má hv. þm. af þessu sjá, að um utanfararstyrkina hefir síður en svo gætt hlutdrægni af pólitískum ástæðum.

Þá var það viðvíkjandi síldarverksmiðjunni. Hv. þm. var mikið að smjatta á nokkrum smáupphæðum, en til síldarverksmiðjunnar eru þegar komnar 6 þús. af e. 1 milj. kr., sem verksmiðjan á að kosta, og kastar það nokkru ljósi yfir þessi ósköp, sem hv. þm. var að tala um. (ÓTh: Ekki fara allar miljónirnar til undirbúnings). Jóni Þorlákssyni verkfræðingi og alþm. var falinn fyrsti undirbúningur, sem kunnugt er. En það, sem Guðm. Hlíðdal verkfræðingi hefir sjerstaklega verið falið að gera í þessu efni, er að ráða erlendan mann til að standa fyrir byggingu verksmiðjunnar og hafa yfirsýn um verkið, og finst mjer rjett að hafa til að sjá um þá ráðningu einhvern af þeim mönnum, sem í þjónustu landsstj. eru, og þá sjerstaklega þegar þessi maður varð að fara utan hvort sem var, fyrir landssímann, og jeg get upplýst hv. þm. Borgf. um, að það hefði kostað töluvert meira að fá Jón Þorláksson til að gera þetta. (PO: En hversvegna er verið að sækja menn til útlanda til að gera þetta?). Það er af því, að við höfum engan mann á Íslandi, sem getur það, en sá maður, sem hefir verið ráðinn til þess, hefir stjórnað byggingu á flestum slíkum verksmiðjum hjer á landi. En hinsvegar hefir stj. einmitt haft þetta í huga, og þess vegna hefir hún ráðið þriðja manninn, sem hv. þm. nefndi, Þorkel Clementz vjelfræðing, til að stjórna vjelunum, og þótti vel ráðið, að sá maður færi utan og fengi að kynnast vjelunum í byrjun, til þess að hann væri færari að starfa að uppsetningu þeirra og stjórn eftirleiðis. (ÓTh: Það eru mjög einfaldar vjelar alt saman, sem notaðar eru við þessa iðju; jeg treysti mjer til að kenna hæstv. forsrh. að fara með þær allar á fáum klukkustundum). Jeg skal ekki efast um, að hv. 2. þm. G.-K. muni vera góður verkmaður á því sviði sem öðrum, en jeg ætla samt aldrei að fara í tíma til þess hv. þm.; jeg vona, að jeg þurfi þess ekki. En hvað það snertir, sem hv. þm. Borgf. segir um Þorkel Clementz, þá er því til að svara, að það eru margir menn aðrir, sem hafa reynslu fyrir því, að hann sje mjög vel fær maður á sínu sviði.

Þá gat hv. þm. þess, að dr. Paul hefði verið greiddar 1200 kr. fyrir að gefa einhverjar upplýsingar á þessu sviði. En það er alls ekki rjett. Það var sókt afarsterklega á þinginu í fyrra, að fengin væri á leigu síldarverksmiðja til að reka, og sú eina, sem komið gat til mála, var síldarverksmiðja dr. Pauls, og fyrir áskorun þessara manna og þeirra, sem mjer stóðu þá næstir, þótt þeir sjeu nú horfnir hjeðan, var þessi maður kallaður hingað, til þess að athuga um það, hvort hann vildi leigja ríkinu verksmiðjuna. Hann kom hingað um páskaleytið í fyrra, og vissu margir þm. um komu hans, því að þingið stóð þá. Voru þá gerðar ítarlegar tilraunir til samninga við hann, en sem ekki tókust, því að hann var ekki fáanlegur til að leigja verksmiðjuna með þeim kjörum, sem jeg taldi viðunanleg. En það var ekki hægt, þegar þessi maður var kvaddur hingað heim, þó það bæri engan árangur, að komast hjá að greiða honum nokkurn ferðakostnað. Jeg álít, sem sagt, hvað þessa smáupphæð snertir, sem hv. þm. setti í samband við síldarverksmiðjuna, og þær framkvæmdir, sem gerðar voru í þessu máli, megi að öllu leyti verja. Ef átti að fara á stað með þetta á annað borð, þá hefði það verið rangt, ef nokkuð af því, sem gert var, hefði verið látið hjá líða; það væri þá hið eina, sem jeg væri áfellisverður fyrir, að jeg ljet undan þessum mönnum með að fá dr. Paul hingað, til þess að reyna, hvort ekki væri hægt að fá verksmiðju hans leigða.

Þá mintist hv. þm. á skoðunarmenn bifreiða og að þeir myndu hafa einhver laun. Jeg vil aðeins minna hv. þm. á það, að þingið gekk svo frá þeirri löggjöf, að það var ætlast til, að það starf bæri sig, enda hefir sá kostnaður, sem ríkið hefir af þessu eftirliti með bifreiðum, komið aftur, eins og ætlast var til, en náttúrlega er það svo, þegar byrjað er á auknu eftirliti, að það verður nokkur aukakostnaður. En gott væri fyrir ríkissjóðinn, ef hægt yrði að koma því svo fyrir á fleiri sviðum, að sá kostnaður, sem leiðir af að ríkið verður að halda uppi þannig löguðu eftirliti, t. d. með skipum og bátum, væri borinn af þeim fyrirtækjum, sem eftirlitið er við; það var frv. á ferðinni um það, en sem strandaði m. a. á mótstöðu hv. þm. Borgf.

Þá mintist hv. þm. á það, að landsstj. hefði skipað ýmsa menn sjer til aðstoðar og sömuleiðis kvatt menn til aðstoðar við að undirbúa ýmsa löggjöf, en var þó svo sanngjarn að benda á um leið, að þetta hefði átt sjer stað áður, eins og sjá má í 19. gr. landsreikninganna, en vildi halda fram, að það væri í stærra stíl en verið hefði. Jeg get ekki borið það fullkomlega saman, því að jeg hefi ekki fylgst með því, hvað gerst hefir í hinum skrifstofunum, enda er mjög erfitt að átta sig á þessu, því að það getur kornið fram á svo mörgum sviðum, bæði í 19. gr., sem kostnaður við lög, sem verið er að undirbúa, og líka sem skrifstofukostnaður, svo að mjög erfitt verður að fá heildaryfirlit. En hinsvegar er það ekkert óeðlilegt, þegar stjórnarskifti hafa orðið og þegar ný stj. kemur, sem leggur áherslu á að koma mörgu nýju fram, og þegar starfað er að endurskoðun á ýmsum sviðum, svo sem á skólalöggjöf landsins, búnaðarlöggjöf o. fl., þá er ekkert óeðlilegt, þótt nokkur kostnaður verði slíku starfi samfara. Jeg vil ennfremur halda því fram og fullyrða það, að af þeim störfum, sem unnin hafa verið í minni skrifstofu, hafi alt verið nauðsynleg störf. En hitt er ekkert undarlegt, þó að hv. þm. Borgf., sem er mótfallinn sjálfri löggjöfinni, sem verið er að bera fram, sje gramur yfir þeim kostnaði, sem við það kemur fram.

Þegar hv. þm. var að tala um Böðvar Bjarkan lögfræðing og undirbúning löggjafar um lánsstofnanir landbúnaðarins, þótti honum dýrt, að greiddar hefðu verið 2 þús. kr. fyrir það starf, en jeg vil benda hv. þm. á, að áður hefir verið greitt miklu meira fyrir svipað starf. (PO: Já, Sigurður Jónsson var þá atvmrh.). Það skiftir ekki máli, hver þá var atvmrh., en annars mun það hafa verið gert á dýrasta tíma, en jeg get þessa aðeins til þess að sýna, að núverandi stj. hefir ekki gengið eins langt og aðrar stjórnir.

Annars er það svo, að þingið, með þáltill. o. þ. h., gerir meira og minna að því á hverju ári að leggja fyrir stj. að inna af hendi ýms störf, t. d. eins og það, sem greitt hefir verið fyrir til hv. 4. þm. Reykv. og forseta Fiskifjelagsins. Þingið lagði fyrir að undirbúa sjómannalöggjöf og að láta rannsaka um veðurstofuna. Rannsóknin var falin þessum tveim mönnum, og það starf, sem þeir hafa leyst af hendi að því er veðurstofuna snertir, hefir sett niður þær deilur, sem þar hafa verið, og má vænta þess, að hún geti starfað óhindrað áfram. En þeir unnu líka á öðrum sviðum, hv. 4. þm. Reykv. og forseti Fiskifjelagsins, og eftir því, sem jeg hefi fylgst með, þá hefir sú borgun, sem þeir hafa fengið, verið talsvert miklu minni en sú, sem greidd hefir verið til þess manns, sem hafði þá undirbúningsvinnu á hendi fyrir fyrverandi stj.

Þá var hv. þm. að sletta því til mín, að jeg hefði ekki greitt af mínu risnufje fyrir vindla, sem notaðir voru í ferð upp í Borgarfjörð. Jeg vil hjer taka það fram, að það er enginn kendur þar, sem hann kemur ekki; jeg var alls ekki með í þeirri för, og auk þess tel jeg mjer ekki skylt, ef gestir eru hjer á annara vegum, margar þingmannaleiðir í burtu frá mjer, að nota mitt risnufje handa þeim mönnum.

Þá kom hv. þm. að því síðasta í sambandi við þessar greiðslur, að tala um, að hann þyrfti ekki að lýsa því spillingarástandi, sem stæði í sambandi við þessar fjárgreiðslur allar. En hver leggur svo dóm á það? Jú, hv. þm. Borgf. dæmir eftir töluvert nánum kunnugleika. En jeg held, að stuðningsmenn fyrv. stj. ættu ekki að tala mikið um spillingu í þeim efnum, því að jeg held, að það hafi komið mjög átakanlega á daginn, að það hafi ekki þróast neitt lítil spilling og alvöruleysi í landinu á hennar dögum. Og án þess jeg vilji fara frekar inn á það, vil jeg samt segja svo mikið, að það mun lengi verða minst þeirra mjög þörfu uppskurða, sem gerðir hafa verið síðan. Það hefir verið eitthvað svipað og þegar Guðmundur heitinn Magnússon kom með hnífinn, til þess að hreinsa til í líkömum manna og hleypa út þeim ígerðum og viðbjóðslegu meinsemdum, sem þar voru innibyrgðar. Jeg held, að það hafi verið ósköp svipaðir uppskurðir, sem hefir orðið að gera á þjóðarlíkamanum, enda verði þess lengi minst, hversu stungið hefir verið á kýlunum í tíð núv. stj.

Þá fór hv. þm. Borgf. að tala um, að stj. gripi til úrræða spillingarinnar til að festa sig í sessi. Jeg hefi gerólíkar skoðanir í þessu efni. Jeg álít það verða síst til að festa stj. í sessi, að hún grípur til úrræða, er valda spillingu. Jeg hygg það vissasta veginn til að stj. verði svift völdum. Þeim hugsunarhætti, að þetta sje líklegasti vegurinn til að festa stj. í sessi, er jeg algerlega andstæður.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að minnast hjer á krossana. Um þá hefir margt verið talað og mikið rætt í blöðum. En það get jeg sagt hv. þm. Borgf. í fullri einlægni, að „privat“- maðurinn Tryggvi Þórhallsson er nákvæmlega á sömu skoðun um þá og hann hefir verið. Jeg lít svo á, eftir þeirri þekkingu, sem jeg hefi öðlast, að það geti verið gagn að því fyrir landið að hafa heiðursmerki. Jeg lít svo á, að maður, er á að koma fram fyrir landsins hönd, verði að láta sínar „privat“-skoðanir víkja fyrir því, er telja má rjett landsins vegna. Jeg hefi talið mjer skylt að gera þetta.