11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það var hv. 1. þm. Reykv., sem í ræðu sinni í gær gerði að umtalsefni úrskurð viðvíkjandi skattsektum, sem nýgenginn er í fjármálaráðuneytinu. Vegna þess að þetta er mjer viðkomandi, vildi jeg segja nokkur orð, en jeg skal lofa því að taka ekki mikinn tíma frá þeim hv. dm., sem bíða eftir að komast að. Mjer þykir að vísu leitt, að hv. 1. þm. Reykv. skuli ekki vera viðstaddur, en það er ekki hægt að bíða eftir honum.

Þau eru tildrög þessa máls, að það kom í ljós í Reykjavík við síðasta skattframtal, að hjá allmörgum framteljendum var mikið ósamræmi á milli framtalsins og þeirra raunverulegu eigna og tekna, sem vitað var um, að þessir menn hefðu. Undandráttur þessi gat ekki, eins og á stóð, stafað af misgáningi, vegna þess, að hjá ýmsum framteljendum nam hann mjög miklu fje, tugum og jafnvel hundruðum þúsunda. Þegar þetta kom á daginn, spurðist skattstjóri fyrir um það hjá fjármálaráðuneytinu, hverja meðferð málið skyldi hafa. Nú stendur það í lögunum um tekju- og eignarskatt, að þegar vísvitandi er skýrt rangt frá um nokkuð það, sem máli skiftir, skuli sá, sem það gerir, vera sekur um alt að 10-falda skattupphæðina. Þó má ekki miða við lengri tíma en 10 ár, nema þar sem um dánarbú er að ræða. Eftir þessum ákvæðum virðist vera samband á milli hámarks sektar og árafjöldans, sem rangt er talið fram. Það getur því legið nærri, ef ekki á annað borð á að fara upp í hámark sektar, að miða skattsektina með því að margfalda með árafjöldanum. Nú er það sannað, að öll árin, síðan tekju- og eignarskattslögin gengu í gildi, hefir verið svikinn skattur. Lögin hafa nú verið í gildi í 7 ár. Eftir því er sá undandráttur, sem lengst hefir verið viðhafður, 7 ára. Þess vegna var í þetta sinn ákveðið að 7-falda framtalið.

Jeg skal fúslega játa, að með þessu er farið vægilega í sakirnar, því að þegar þessari reglu er fylgt, þá verður skatturinn aðeins fjórfaldur. Jeg taldi hyggilegra ð fara ekki mjög stranglega að að svo stöddu, af því að jeg áleit, að menn yrðu þá ljúfari að telja fram, en engu að síður er ekki loku fyrir það skotið, að síðar verði tekið harðara á þessu.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi í ræðu sinni í gær vafasamt, að hjer væri farið að lögum. Jeg hefi nú skýrt, hvernig þetta er, en jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi verið að reka erindi þeirra manna, sem eru óánægðir út af þessum úrskurði. Og jeg verð að segja, að jeg er ekkert hissa á því, þó að hlutaðeigendur sjeu óánægðir. Það er altaf svo, að þeir, sem brjóta lög, eru óánægðir, ef þeir eru látnir sæta ábyrgð á gerðum sínum. En þessi óánægja, sem nú er farið að flytja inn í þingið, hefir gert mjög mikið vart við sig gagnvart skattstjóranum, af því að hann hefir sýnt mikla röggsemi í því að fá framtalið sem rjettast. Og það er ekki altaf vel tekið upp, þegar verið er að reyna að leiða sannleikann í ljós.

Jeg verð að segja, að mjer fanst sá kafli í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem jeg hefi nú lítillega minst á, vera óleikur hlutaðeigandi mönnum, og mjer finst hv. þm. hefði getað tekið sjer eitthvað betra fyrir hendur en að tala hjer máli þeirra, sem hafa brotið lög landsins.