11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

16. mál, fjárlög 1930

Einar Jónsson:

* Jeg verð að byrja á því að lýsa því yfir, að þó að hæstv. dómsmrh., sem nú er nýbúinn með 5 klukkutíma ræðu, virtist álíta flest það heilagt og rjettlátt, sem hann hefir gert, þá er mín skoðun alt önnur. Það er þegar búið að minnast á margt, sem aflaga hefir farið hjá hæstv. stj., og jeg er ekki í vafa um það, að ef það væri alt tínt saman í eina skrá, yrði sú skrá æðilöng. Það er hægt að vitna í ýmsar aðgerðir hæstv. stj., sem hafa orðið landinu í heild sinni til tjóns, og aðrar, sem hafa orðið til tjóns einstökum hjeruðum og einstökum mönnum. Það, sem jeg ætla aðallega að minnast á, eru nokkur þýðingarmikil atriði mínu kjördæmi viðkomandi, sem ekki hafa fengið þann stuðning hjá hæstv. stj., sem við mátti búast og rjett var.

Þegar jeg vitna í þessi stærri atriði, sem ekki hefir fengist afgreiðsla á, er það einkum Suðurlandsskólinn, sem jeg ber fyrir brjósti. Hann er nú kominn í það öngþveiti, að ekki hefir áður lakara verið. Eftir að búið var að skipa samninganefnd með mönnum úr báðum sýslunum og stjórnskipuðum oddamanni, höfðu Rangæingar talsverða von um, að lausn mundi fást á þessu máli. Eins og kunnugt er, ákvað nefndin, að skólinn skyldi vera að Árbæ í Holtum, og hefði það getað orðið gott og blessað, ef svo hefði ekki tekist til, að hæstv. ráðh. hafði að engu þá till. nefndarinnar.

Nú þótti mjer kynlegt nokkuð, sem kom fyrir í kvöld. Jeg heyrði, að hæstv. ráðh. var að hrósa sjer af því, að sjer hefði tekist að koma á stofn skólanum að Laugarvatni — og jeg hefi í sjálfu sjer ekkert út á það að setja —, en hæstv. ráðh. lýsti yfir því, að hann hefði gert það „í trássi“ við íhaldsmenn. Það er alls ekki rjett. Þrætan vaknaði hjá Árnesingum sjálfum, og varð til þess, að ráðh. hafði svona mikið fyrir því að koma skólanum á stofn. Hitt eru algerlega ósönn ummæli, að sú þræta hafi verið íhaldsmönnum að kenna. Jeg hefi aldrei orðið var við, að íhaldsmenn hjer á þingi hafi nokkuð gert á móti því máli.

Þó að jeg geti lýst yfir því, að frá mínu sjónarmiði er ekkert við það að athuga, að skólinn sje að Laugarvatni, þá er það afarilla sjeð af Rangæingum flestum. Nú verð jeg að segja, að jeg hefi ekki heyrt neinar hótanir frá hæstv. ráðh. um það, að Rangæingar fengju ekki að njóta rjettar síns, og vona jeg því, að hann standi við það, að veita þeim stuðning í þessu áhugamáli þeirra.

Það er annað mál, sem Rangæingum er mjög hugfólgið, og það er járnbrautarmálið. Jeg skal taka það fram, að það er ekki frekar dómsmrh. en forsrh., sem á sökina á því, hvernig komið er með járnbrautarmálið. En sakir hæstv. forsrh. eru ekki smáar. Jeg er ekki viss um, að hann geti nokkru sinni afsakað það óheillaráð, sem hann tók, þegar hann veitti ekki Titan sjerleyfi og lofaði því ekki einu sinni að gera tilraun, sem búið var að ákveða, hvernig skyldi verða framkvæmd. Nú er ekki eftir nema tæpur mánuður af frestinum. 1. maí 1929 átti að byrja á verkinu og 1. júlí 1933 átti því að verða lokið. Ef fjelagið neyddist til að hætta í miðju kafi, átti landið að fá alt verkið endurgjaldslaust. En fullyrðingin um, að Titan yrði með öllu ómögulegt að framkvæma verkið, er allsendis úr lausu lofti gripin. Hitt er sjáanlegt, að nokkur útgjöld muni fylgja þessu. En við getum aldrei vænst þess að fá slík kostakjör hjá nokkurri veru heimsins, að þurfa ekki að leggja nema aðeins 2 milj. kr. fram, í stað þess að verkið sjálft kostar alls 7–9 milj. kr. Á þessu atriði tel jeg hæstv. atvmrh. eiga stóra sök, og það þá sök, sem mörgum mun reynast erfitt að fyrirgefa.

Hæstv. dómsmrh. fór að blanda sjer inn í þetta mál. Mintist hann nokkuð á, hvað fyrir sjer hefði vakað, og var auðheyrt, að hann vildi láta þakka sjer aðgerðir sínar í málinu. En fyrir hvað er að þakka? Það, sem hæstv. dómsmrh. gerði, var að halda fundarnefnu um málið. Eitt var undarlegt við þennan fund, og það var, að hæstv. forsrh. var ekki boðaður á fundinn, enda þótt hann sje forráðamaður þessa máls. Eins og hæstv. dómsmrh. lýsti, þá varð nú fundurinn lítils virði. Vildi hann kenna hv. 1. þm. Reykv. um það. En jeg held, að það sjeu fleiri, sem litla trú hafa á þessu þjóðráði hæstv. ráðh., sem líka eðlilegt er, þegar þess er gætt, að ætlast var til, að hjeraðsmenn legðu til úr buddu sinni 2–3 milj. kr. — En nú hefir hæstv. dómsmrh. sagt frá því í hv. Ed., þegar hann var að tala um Flóann og Skeiðin í sambandi við rafveitumálið, að þeirra buddur væru meira en tæmdar. Og ef svo er, sem ég efa ekki, — hvar á þá að taka þessar miljónir? Þetta er því alt hjá hæstv. ráðh. tilgerð, mont og alvöruleysi, sem þokar málinu ekkert áfram.

Þá eru það vatnamálin svonefndu: fyrirhleðsla Markarfljóts, sem er eitthvert stærsta mál sýslunnar. Þar er nú ekki um beinar sakir að ræða á stj., þótt ekki sje búið að gera meira en enn er. Eins og hæstv. dómsmrh. lýsti, þá hefir verið haldinn einn fundur og kosin nefnd og myndað vatnafjelag. En í raun og veru er nú svo, að ekkert hefir verið gert, og þetta er eiginlega alt til málamynda, líkt og járnbrautarmálið. Hið eina, sem gagn er í að gera, það er að veita fje sem fyrst til fullrar rannsóknar verksins, er sýni, hvort fært sje að vinna það. Hefði stj. viljað gera þessu máli gagn, þá átti hún að leggja til við þingið, að til þessa yrði veitt fje, því það er ekki hægt að gera nema með fjárstyrk frá ríkinu. Eftir þeim upplýsingum, sem fengist hafa um kostnaðinn, má gera ráð fyrir því, að verkið verði ekki unnið að gagni fyrir minna en 1 milj. kr. Og ef bændur eiga að leggja fram 14 hluta þess, þá er þeim það sýnilega ofvaxið; þeir eru ekki fleiri en það, að sýnilegt er, að jarðirnar á þessu svæði mundu naumast hrökkva fyrir þessari upphæð. Málum þessum verður ekki skipað með fundarhöldum einum saman, og það jafnvel þótt hæstv. dómsmrh. kæmi þangað sjálfur ríðandi á Skjaldbökunni. En mjer kom hún í hug vegna þess, hve mikið veður hefir verið gert út af henni til áfellis fyrv. stj. En jeg hefi líka máske verið næmari fyrir þessu hestamáli en aðrir, vegna þess að jeg hefi sjálfur selt einn hest. Sá hestur hefir ekki verið nefndur Skjaldbaka, en hann hefir verið kallaður húðarbykkja. Jeg hygg nú, að hæstv. dómsmrh. sje ósýnt um að dæma um gæði hesta. En jeg vissi, hvernig minn foli var. Það var 5 vetra gamall foli, brúnn að lit, vel alinn og efnilegur til reiðar. Þetta þykir nú okkur fyrir austan gott. En hæstv. dómsmrh. með alt sitt hestavit finst máske annað. En reyndar getur vel verið, að búið sje að gera þennan hest að húðarbykkju.

Mjer er nú hvorki gjarnt að endurtaka það, sem aðrir hafa sagt, nje að halda langar ræður. En mjer fanst ekki óþarft að taka þessi atriði fram og minna á þarfir hjeraðs míns. Og þótt jeg sje kannske vondur við stj., þá vona jeg, að hæstv. stj. láti ekki Rangæinga gjalda þess, en veiti þessum nauðsynjamálum þeirra lið eftir mætti.

* Ræðuhandr. óyfirlesið