11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Aðeins fá orð út af ræðu hv. 1. þm. Rang. Það er misskilningur hjá hv. þm., að mikil óánægja sje út af skólamálinu. Sannleikurinn er sá, að n., sem hv. þm. mintist á, hefir haft marga mánuði til þess að koma fram með kröfur sínar, en hún hefir enn eigi hafist handa. Og engar óskir hafa borist til stj. frá þessum meiri hl. Árnesinga og allri Rangárvallasýslu, sem hv. þm. gat um að stæði á bak við þessar óskir.

Viðvíkjandi járnbrautarmálinu vil jeg geta þess, að þann fund hjelt jeg sem landsk. þm. Og það mátti heyra á hv. þm., að Rangæingar mundu ekkert vilja á sig leggja til að hrinda því máli áfram, ekki einu sinni svo mikið, sem svarar eins árs útsvörum þessara hjeraða. Með þessu er í raun og veru unnið á móti málinu frá þeirra hálfu, svo sem framast er unt. Það er ólíkt því, sem gerðist í Eyjafirðinum og Akureyri, þegar þar var á einu ári safnað 200 þús. kr. til hælisins í Kristnesi. Hv. 1. þm. Rang. óskaði eftir því, að stj. væri Rangæingum innan handar í þessu máli. En hv. þm. ætti að muna það, að þeim er jafnan fyrst hjálpað, sem eitthvað vilja hjálpa sjer sjálfir.