11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil aðeins svara ræðu hv. þm. N.-Ísf. nokkrum orðum. Þó mun jeg ekki svara sumum ummælum hans, t. d. því, hvert gildi Lárus Jóhannesson hefði sem vitni. Jeg vil aðeins leiðrjetta þann misskilning hjá hv. þm., að vantaði bæði sókn og vörn í þessu máli. Það er ekkert annað gagn frá undirrjetti en þetta skjal. (JAJ: En dómsforsendurnar?). Þær voru í undirrjetti í fullu samræmi við skoðun þessa lögmanns, því að undirrjettur dæmdi sýknudóm í málinu. Hitt vildi jeg benda hv. þm. á, að það er undarlegt, að sá maður, sem er aðaleigandi þess blaðs, er mest hefir fjargviðrast út af Tervani-málinu, skuli bera fram slíkar röksemdir, og það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. N.-Ísf. falli það þungt, að einn af helstu mönnum Íhaldsflokksins skuli verða til þess að bera fram slík rök gegn skoðun þm. Annars hjelt jeg, að þessi hv. þm. ætti ekki að vera svo sjerstaklega viðkvæmur, þótt menn leyfi sjer að hafa sínar skoðanir á því, sem rjett er og rangt, hvaða úrskurð sem dómstólarnir leggja þar á, því að sjálfur hefir þessi hv. þm. sýnt svo dæmalausa ósvífni fyrir rjetti, að hann hefði átt að sæta hegningu fyrir, ef hann væri sá maður, að nokkur tæki mark á hans framkomu.

Ennfremur ætti hv. þm. að minnast þess, að í blaði því, er hann sjálfur kostar, hefir ekki verið lint látum á því að óvirða suma dómara landsins, ef þeir hafa þótt of duglegir að hafa hendur í hári sökudólganna og leiða ýms mál til lykta. En það er annars skrítið, að það er eins og íhaldsmenn haldi, að þeir geti farið með hæstarjett eins og þeir vilja. Dómar hans virðast ekki altaf vera eins óskeikulir og í Tervani-málinu. Því að þegar hæstirjettur hafði dæmt einn Kveldúlfstogarann í 15000 kr. sekt, virtist hæstirjettur ekki alveg eins heilagur í þeirra augum og hann er vanur, ef menn kynna sjer skrif eins af forstjórum Kveldúlfsfjelagsins skömmu eftir að sá dómur fjell.

Þá kom hv. þm. nokkuð inn á landhelgisvarnirnar. En áður en jeg svara þeim ummælum hv. þm., vil jeg leyfa mjer að spyrja hann einnar spurningar. Svo er mál með vexti, að í blöðunum á Ísafirði hafa komið fram þær kærur á hendur einum manni þar í kaupstaðnum, að hann væri hjálplegur brotlegum togurum, sem mist hafa vörpur sínar af þeim ástæðum, við að ná aftur vörpunum þegar þær hafa verið seldar á uppboðum. Með öðrum orðum, þessi maður er ákærður fyrir að hafa verið leppur togaranna, og þá helst erlendra togara, og þessi leppmenska hefir haft þau áhrif, að togararnir hafa komist samstundis út á veiðar — til þess að brjóta á ný.

Sá maður, sem hafður er fyrir þessari kæru, er hv. þm. N.-Ísl. Nú vil jeg spyrja hv. þm., hvort hann geti þvegið sig hreinan af þessum ákærum. Hefir hv. þm. aldrei keypt vörpur, sem gerðar hafa verið upptækar hjá brotlegum togurum, og hefir hann aldrei selt neinu slíku skipi vörpurnar aftur, svo að þau gætu haldið áfram sinni brotlegu iðju? Það mundi gleðja mig mjög mikið, ef hv. þm. gæti hrakið þessar ákærur blaðanna, því að það væri óbætanleg smán fyrir kjördæmið, ef slík ósvinna sannaðist á þm. kjördæmisins, auk þess sem það væri leiðinlegt fyrir Alþingi, að slíkur maður ætti þar sæti.

Þá fór hv. þm. um það nokkrum orðum, að það væri óviðkunnanlegt, hve mikið stj. hefði notað varðskipin til þess að flytja menn á milli hafna. Það hefir ætíð verið svo frá fyrstu tíð, að varðskipin hafa verið notuð nokkuð til þessa, enda er það óhjákvæmilegt, eins og samgöngum er ennþá háttað hjer á landi. Og mörg erindi þeirra manna, er skipin flytja, eru svo mikils virði fyrir þjóðfjelagið, að þau geta fyllilega jafnast á við hið eiginlega starf, sem þessum skipum er ætlað, landhelgisvarnirnar.

Það kom fyrir fyrir nokkrum dögum, að skósmiður einn á Ísafirði, sem var nýkominn heim veikur frá útlöndum eftir hættulegan uppskurð, þurfti að komast til Reykjavíkur, því að á Ísafirði gat hann ekki fengið þá aðhlynningu, er hann þurfti, og læknirinn gat ekki linað þrautir hans. Talið var, að ef hann gæti ekki tafarlaust komist til Reykjavíkur, væri það sama og að drepa hann. Þá tók stj. þá ábyrgð á sig að láta varðskipið, sem þá var fyrir vestan, taka á sig krók inn á Ísafjörð til þess að sækja manninn og flytja hann til Reykjavíkur. Þegar hingað kom, var maðurinn strax fluttur í sjúkrahús, og þar var honum veitt öll sú aðstoð, er frekast var unt — Þetta er frekar sjaldgæft; þó man jeg eftir því, að einu sinni var veik kona eins háværasta íhaldssýslumannsins flutt fárveik suður á spítala til Reykjavíkur. Þetta þótti enginn óþarfi, enda var það að mínu áliti alveg sjálfsagt.

Einu sinni var farið með einn mesta stólpagrip íhaldsins, Þórarin á Hjaltabakka, norður á land. Þegar varðskipið var rjett búið að skjóta Þórarni í land, tók það fjóra togara, sem voru að veiðum í landhelgi fyrir norðan. (JAJ: Þau eru líklega ekki svona fengsæl varðskipin, nema þegar þau flytja íhaldsmenn á milli hafna). Jú, jeg get glatt hv. þm. með því, að einu sinni í vetur þurfti að láta annað varðskipið flytja þá menn, er unnu að endurskoðun póstmála, austur og norður á land, og komu þá undir eins tveir togarar í veginn fyrir varðskipið, sem voru þar að ólöglegum veiðum. Annars hefir þetta altaf viðgengist hjá öllum stj., að varðskipin væru látin skjóta manni á milli hafna, ef þess hefir þurft með. Það hefir t. d. sagt mjer einn merkur maður úr Skagafirði, að þegar hv. 1. þm. Skagf. var dómsmrh., hafi hann boðið sjer að koma með sjer norður á einu varðskipinu, þegar hv. þm. ætlaði í eina pólitíska yfirreið sína þangað. Þó varð það eigi úr, að þeir færu þennan leiðangur saman.

Þá vítti hv. þm. N.-Ísf. það, að annað varðskipið var látið flytja þá húsameistara ríkisins og landlækni fyrir ítrekaða beiðni þeirra, er þeir í fyrra haust þurftu að fara norður að Kristnesi að líta eftir byggingu hælisins. (JAJ: Og varðskipið kom ekki að landhelgisgæslu í 9 daga!). Það veit hv. þm. ekkert um, — eða kannske hann vilji leggja fram skjöl skipsins, því til sönnunar? Annars var stórhríð á meðan skipið lá í höfn, og jeg býst við því, að jafnvel meiri sjóhetja en hv. þm. N.-Ísf. hefði kosið að sitja kyr. Það mun mála sannast, að það eru alls ekki þessar ferðir, sem hafa bitið sig í hv. þm., þótt hann vilji láta líta þannig út, og það því fremur, sem hann var feginn að láta senda varðskip með sig til að athuga byggingarskilyrði innarlega við Ísafjarðardjúp fyrir skömmu síðan. Það, sem situr í hv. þm. og hann getur ekki gleymt, eru ferðir þær, sem stj. hefir sent Óðin til Vestfjarða með dómara landsins. En jeg vil benda hv. þm. á það, að þótt ekki sje nema um 140 þús. kr. sjóðþurð að ræða, og það hjá íhaldssýslumanninum Einari Jónassyni, mun stj. hvorki blikna eða blána, þótt hún hafi sent Óðin vestur þangað með mann til þess að rannsaka þetta mál og önnur — og bjarga sýslunni undan yfirráðum Einars Jónassonar. Það kemur áreiðanlega illa við slíka menn, að þeir skuli ekki fá að vaða uppi eins og þeim sjálfum sýnist og eins og þessi hv. þm. fara með ókurteisi og dylgjur við dómara landsins.

Svo var það Borgarfjarðarferðin. Hv. þm. N.-Ísf. hefir líklega lært þar hjá hv. þm. Borgf., því að honum var eitthvað illa við þá ferð. Nú hafa báðir skipstjórar íslensku varðskipanna lýst yfir því, að í júnímánuði sje nálega ekkert að gera fyrir varðskipin. Á þeim tíma árs er gert við skipin, skipverjum veitt sumarfrí, — og að því er Óðin snertir mun víst enginn hafa talið það eftir skipverjum, þótt þeir fengju að vera 11/2 dag uppi í Borgarfirði, enda urðu allir skipverjar mjög glaðir yfir þessu litla fríi og landgöngu í hjeraðinu. Viðvíkjandi danska varðskipinu er það að segja, að það er undir danskri yfirstjórn og háð fyrirmælum eigenda sinna, hve lengi vjelahreinsun þess stendur yfir. — Jeg hefi talað um það við skipstjóra þessa varðskips, að mjer þætti sá tími óþarflega langur, en jeg fjekk það svar, að hann fari þar eftir ákveðnum fyrirskipunum sinna yfirmanna. Skipstjóri þess færði það í tal við mig, að þessa ferð langaði sig til þess að fara, því að hann hafði gert nokkrar uppmælingar á Borgarfirði vorið áður, og var þetta einskonar reynsluferð. Þegar svo báðir íslensku skipstjórarnir álitu, að mjög lítið væri að gera á þessum tíma árs, fanst mjer vel við eiga, að skipstjórarnir og menn þeirra fengju þarna nokkurn hluta af sínu sumarfríi.

Hv. þm. N.-Ísf. ber alt of mikið traust til mín, ef hann heldur, að jeg muni alveg leggja niður að nota varðskipin á þennan hátt, ef þess þarf með. Á alveg sama tíma í sumar, eða í júlíbyrjun, hefi jeg ákveðið, að annaðhvort varðskipið skreppi með 40 mentaskólanemendur og 2–3 kennara austur á Hornafjörð. Um leið gæti varðskipið litið austur á Hvalbak og tekið nemendurna í bakaleiðinni.

Jeg er alveg sannfærður um það, að þótt þessi stj. fari frá, muni það verða að fastri venju að fara slíkar ferðir með nemendur mentaskólans. Það er mesti misskilningur, ef hv. þm. heldur, að það sje óleyfilegt fyrir þjóðfjelagið að nota þessi skip til nokkurra annara hluta en landvarna, þótt skipin sjeu ef til vill alveg aðgerðarlaus. Hv. 1. þm. Reykv. lýsti því áðan með mörgum fögrum orðum, hvað hræsnin væri góður hlutur í heiminum. Mjer virðist, að þessi mikla umhyggja hv. þm. N.-Ísf. fyrir strandgæslunni muni helst heyra undir þessa heimspeki flokksbróður hans, hræsnisheimspekina. í fyrra, þegar mest reyndi á það, hvort ætti að þvo af þjóðinni þann smánarblett, að íslensku togurunum væri stjórnað inn í landhelgina af útgerðarmönnum í landi, varð jeg ekki var við neinn stuðning frá þessum hv. þm. í því máli, nje öðrum flokksmönnum hans hjer í Nd. Í Ed. ljeði þó hv. þm. Snæf. því stuðning sinn, þótt hann sje íhaldsmaður, af því að hann skildi nauðsynina á því að hafa slíkt eftirlit. Þennan lofsamlega og heiðarlega vitnisburð get jeg ekki veitt hv. þm. N.-Ísf. Þetta mál var prófsteinn á hv. þm. og aðra íhaldsmenn, hvort þeir í raun og veru vildu láta lögin ná líka til íslensku togaranna. En sómatilfinning þessara manna og virðing þeirra fyrir þeim lögum, er Alþingi hefir sett, var ekki meiri en svo, að þeir treystust ekki til þess að styðja málið. Svo mikil var frekjan hjá aðstandendum hinna seku skipa, að þessi einföldu veraldarhyggindi, að vera málinu fylgjandi, gátu ekki bjargað þeim.

Viðvíkjandi landhelgisvörnunum við Snæfellsnes er það að segja, að tvö varðskipin, Óðinn og Fylla, voru við Snæfellsnes allan tímann, sem um er að ræða. Núv. stj. hefir gert meira fyrir Snæfellsnes í þessum efnum en nokkur önnur stj. Landhelgissjóður leigði Hermóð til þess að hafa þar gæslu á hendi, og nú í vetur hefir verið leigður talsvert stór bátur í sama tilgangi. Auk þess hafa strandvarnarskipin altaf farið þarna um til þess að fæla lögbrjótana burtu.

Ef hv. þm. tekur aftur til máls, vona jeg, að hann geri hreint fyrir sínum dyrum sem útgerðarmaður, netakaupmaður, blaðaútgefandi og þm. — og þegar frv. um eftirlit loftskeyta á ísl. togurum kemur hjer til umr. í hv. d., mun það sjást, hvort öll þessi umhyggja hans fyrir landhelgisgæslunni hefir verið tómt hjóm og yfirlæti og hvort hann hefir í raun og veru meiri samúð með þeim mönnum, sem vilja frv. þetta feigt, en landhelgisvörnunum. Þar er prófsteinninn á hv. þm. og þar býðst honum tækifæri til þess að standa sig betur en í fyrra.