11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Dal. hefir nú dregið utanríkismálin inn í þessar umr. Mjer skildist á honum, að hann teldi þau mál annars eðlis og meira virði en önnur mál, sem hjer hefir verið talað um. Undir þetta get jeg tekið með hv. þm. En jeg vil ganga lengra en hann. Jeg tel svo mikilsvert um þessi mál, að mjög óheppilegt sje að draga þau inn í venjulegar eldhúsdagsumr. Hv. þm. fylgdi öðrum sið á síðasta þingi. Þá flutti hann sjerstaka fyrirspurn um málið, en blandaði því ekki saman við hin algengu deilumál dagsins. Jeg býst við, að hv. þm. muni sjá það, þegar hann hugsar sig um, að heppilegra muni eftirleiðis að fara þá leiðina, sem hann fór í fyrra, en ekki hina, sem hann nú hefir valið.

Þessar almennu aths. vildi jeg gera við ræðu hv. þm. Dal.

Hv. þm. talaði um yfirlýsingu þá, er jeg gaf á Alþ. af hálfu stj. og Framsóknarflokksins. Þá yfirlýsingu kallaði hann skýra og drengilega. En síðan gerði hann að umtalsefni ummæli ýmsra blaða um sambandsmálið og afstöðu stj. til þess. Hv. þm. veit það vel, alveg eins og jeg, að ummælum blaða er stundum varlega treystandi. En sú yfirlýsing, sem gefin var á síðasta þingi, liggur ennþá fyrir skýr og ótvíræð. Jeg get sagt hv. þm. það, að á bak við þá yfirlýsingu standa ennþá sömu skoðanir og sami vilji og í fyrra, bæði af minni hálfu og flokksins.

Á síðasta Alþ. var fleira gert en að gefa umræddar yfirlýsingar. Það var ákveðið að kjósa sjerstaka nefnd, sem hafa skyldi utanríkismálin með höndum. Gegn stofnun þessarar n. var engum mótmælum hreyft. Jeg hefi litið á þessa atburði sem nokkurskonar yfirlýsingu frá öllum flokkum þingsins um það, að þeir ætluðu að standa saman út á við, hvað sem baráttunni liði inn á við. Hv. þm. kemur nú ekki fram sem þm. Dal. eingöngu, heldur einnig sem fulltrúi í þessari nefnd og samverkamaður minn. í n. eiga sæti menn, sem eru harðvítugir andstæðingar stj. En á samvinnuna milli hennar og mín um utanríkismálin hefir hvorki fallið blettur nje hrukka. Þar hefir aldrei borið neitt á milli. Jeg veit ekki til þess, að hv. þm. hafi nokkurntíma komið þar fram með neinn ágreining gagnvart stj.

Þær aths., sem hv. þm. hefir gert nú, hefði hann átt að koma fram með innan utanríkismálanefndarinnar. Þar eru þær á rjettum vettvangi. Jeg vil mælast til þess, að hv. þm. geri svo framvegis. Það ætti ekki að vera hart aðgöngu fyrir hann, þar sem samvinnan í n. hefir verið ákjósanleg í alla staði, en því mótmælir hann sjálfsagt ekki, að svo hafi verið.