12.04.1929
Neðri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Ísaf., sem nú settist niður, hóf ræðu sína með hinu sama og hv. 1. þm. Reykv., á því að kvarta. Að vísu ekki um kuldahroll og beinverki eins og hv. 1. þm. Reykv., heldur yfir því, að hann hefði orðið að vaka of mikið. Þessi sami þrældómur hefir nú komið yfir okkur alla, og get jeg fyrir mitt leyti látið ánægju mína í ljós yfir honum, og jeg álít, að maður eins og hv. þm. Ísaf., sem er upp á sitt besta, megi vel við því að standa í dálitlu striti.

Þá kvartaði þessi hv. þm. yfir því, hve illa sjer hefði gengið að komast að til þess að láta í ljós það, sem honum lá mest á hjarta. Jeg get vel skilið þetta, því að það, sem hann þurfti að koma að, var fyndni út af teikningu, sem hv. þm. hafði einhverntíma sjeð í „Speglinum“. Jeg get nú látið ánægju mína í ljós yfir því, að hann skuli vera orðinn ljettari að þessu leyti. En hvað snertir myndina í „Speglinum“, þá get jeg verið ánægður með hana, því að mjer finst, að það hafi verið rjett hjá mjer að sprengja utan af mjer íhaldsspjarirnar. Það, sem hv. þm. vjek til stj., var um vanrækslusyndir hennar, en um verknaðarsyndir var engar að ræða. Hann byrjaði á að tala um tvær einkasölur, einkasölu á tóbaki og einkasölu á steinolíu. Umr. um steinolíueinkasöluna virðist mjer ekki viðeigandi að fara að innleiða hjer að þessu sinni, þar sem fyrir þinginu liggur þáltill. um hana, sem bráðlega verða greidd atkv. um. Læt jeg því frekari umr. um það mál bíða. En jeg vil minna hv. þm. á, að til þess að tala um ólag á steinolíuversluninni þarf hann ekki að fara svo langt sem alla leið yfir um til mín.

Þá skammaði hv. þm. stj. fyrir að hafa ekkert látið frá sjer heyra um tóbakseinkasöluna, Þessu er því að svara, að stj. hefir þegar gert sitt í því máli, því eins og kunnugt er, kaus síðasta þing, og Framsóknarflokkurinn því eins og aðrir, milliþinganefnd til þess að athuga tolla- og skattamál landsins. Var nefnd þessari meðal annars falið að athuga, hvort ekki megi afla ríkissjóði tekna án þess að íþyngja gjaldþegnum, svo sem með einkasölu á hátolluðum vörum, eða öðrum þeim vörum, sem hentugar eru til einkasölu, eða á annan hátt. Nú vill einmitt svo vel til, að hv. þm. Ísaf. er sjálfur í þessari milliþingan. og á því að fjalla um þetta. Jeg vil því spyrja hann sjálfan: Hvað líður þessu starfi hans, og hvað segir hann um að taka upp einkasölu á tóbaki?

Þá talaði hv. þm. um, að stj. væri of einhliða bændastjórn. Þetta má vel vera rjett hjá hv. þm. En hann hlaut að vita það fyrirfram, að stj. myndi sjerstaklega styðja bændastjettina, þar sem líka hún sjálf styðst aðallega við hana. Þetta vissi hv. þm. í fyrra, og hefir því í því efni ekkert nýtt komið fram. Annars býst jeg við, að kjósendur þessa þm. hafi rekið sig á það, að stj. líti á eitthvað fleira en hagsmuni bændanna í landinu, því að jeg veit ekki betur en að stofnað hafi verið til mjög myndarlegs atvinnurekstrar í kjördæmi hv. þm. einmitt fyrir till. frá mjer, og það með svo góðum árangri, að bæði hv. þm. og sjómenn þar vestra eru harðánægðir.

Svo áttum við að hafa spyrnt á móti breyt. á kjördæmaskipuninni. Jeg játa fúslega, að jeg er mjög andstæður miklum breyt. á henni, enda þótt hún að einhverju leyti kunni að vera orðin ranglát, þar sem það er vitanlegt, að hinn mikli fólksstraumur, sem orðið hefir til kaupstaðanna á síðari árum, er fyrir rangláta skiftingu á fjármagni milli atvinnuveganna. Það getur því ekki komið til neinna mála að fara að hlaupa til og breyta kjördæmaskipuninni nú, einmitt þegar sú stefna hefir orðið ofan á, að veita fjármagninu einnig til landbúnaðarins. Jeg álít því, að það sje sjálfsögð skylda þjóðfjelagsins að bíða við og sjá, hver ávöxtur verður af þessari stefnu. Og það er trú mín, að eftir fá ár sjái fólkið nýja þróun í sveitunum, sem sanni það, að þar eigi að vera áfram, eins og verið hefir, aðalþungamiðja hins pólitíska valds í landinu.

Þá talaði hv. þm. með sterkum rómi og lagði mikla áherslu á, að stj. hefði sýnt vanrækslu í því að framkvæma ekki ýmislegt, sem síðasta þing hefði lagt fyrir hana. Út af þessum mikla hávaða hv. þm. vil jeg minna hann á hið fornkveðna, að kýrin mjólkar ekki meira, enda þótt skjólan sje stór. Það, sem hv. þm. taldi stj. fyrst og fremst hafa vanrækt, var útvarpsmálið. Þessu er því að svara, að stj. hefir gert alt, sem frekast hefir verið unt, til þess að flýta fyrir því máli, eins og jeg þegar hefi tekið fram hjer í þinginu, þegar jeg svaraði fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. um þetta mál. Málið er því á bestu leið. En það má hv. þm. vita, að slíkt stórmál sem þetta verður ekki leyst í einu vetfangi. Hvert víxlspor, sem stigið er í því í byrjun, getur orðið til þess að valda árekstri og jafnframt ótrú manna á málinu.

Um ellitryggingarnar er það að segja, að undirbúningur þeirra hefir verið falinn þeim manni, sem mesta sjerþekkingu hefir á slíkum hlutum hjer. En þar sem það er mjög mikið verk, og hann auk þess hefir orðið að inna af hendi mikið starf fyrir Landsbankann um leið, hefir honum ekki unnist tími til að fullgera þennan undirbúning. Annars sagði nú hv. þm., að hann myndi fyrirgefa þennan drátt, ef málið yrði tilbúið fyrir næsta þing.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvort stj. væri snúin í strandferðaskipsmálinu. Lesi hv. þm. frv. það, sem lagt hefir verið fyrir hv. Ed. um stjórn póst- og símamála, þá hlýtur hann að komast að raun. um, að við höfum síst breytt skoðun í því máli. Þar er gert ráð fyrir í brjefi, sem stjórnarráðið skrifaði nefndinni, að ríkið starfræki tvö strandferðaskip. Eins og kunnugt er, hefir stj. heimild til þess að taka lán til byggingar á nýju strandferðaskipi, en hún hefir ekki notað þá heimild enn, og ætlar sjer ekki að gera, nema þá því aðeins, að hægt verði að fá mjög hagkvæmt lán, því að hún er þeirrar skoðunar, að ekki beri að stofna til framkvæmda í landinu með ókjaralánum, eins og stundum hefir átt sjer stað áður. Hún telur slíkt ganga landráðum næst.

Hvað síldarbræðsluverksmiðjuna snertir, þá þarf jeg litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt um það mál. Að undirbúningi þess er unnið af kappi. Það hefir þegar verið ráðinn mjög fær maður til þess að standa fyrir byggingu verksmiðjunnar, maður, sem áður hefir staðið fyrir byggingu slíkra fyrirtækja. Þá hefir og verið sendur út maður, til þess að kynna sjer verksmiðjur og vjelar. beinlínis með það fyrir augum að vinna svo við hina fyrirhuguðu verksmiðju.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar vanrækslusyndir, sem hv. þm. Ísaf. var að víta stj. fyrir. Jeg viðurkenni þær alls ekki.

Að síðustu vil jeg segja örfá orð út af ummælum hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Reykv. um afstöðu okkar framsóknarmanna til hinna stjórnmálaflokkanna. Okkur er það ljóst, að við erum milliflokkur, höfum annan flokkinn til hægri, en hinn til vinstri. Nú er það hlutur, sem því oft kemur fyrir, að flokkarnir á víxl ýmist skamma okkur eða líta hýru auga til okkar. Við því eigum við að snúast í hvert sinn. Er það fastur ásetningur okkar, sem berum ábyrgð á stjórnarfari landsins, að stýra eftir þeim stefnum, sem við höfum markað og teljum að til mestrar hagsældar megi verða fyrir þjóðfjelagið í nútíð og framtíð, hvernig svo sem augnatillit þessara aðilja er, sem sitja oss til hægri og vinstri.