13.04.1929
Neðri deild: 44. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg get lofað hæstv. forseta því að spara mál mitt, því að bæði eru umr. orðnar langar, eins og hæstv. forseti hefir lýst, og svo hafa flokksmenn mínir tekið sumt það fram, sem jeg hefði viljað minnast á.

Það er eðlilegt, að menn minnist á stjórnarfarið, þá einu sinni, sem þeim leyfist að leysa frá skjóðunni, hver frá sínu sjónarmiði. Jeg mun tala út frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna, að sjálfsögðu.

Því ber ekki að neita, að menn bjuggust við stjórnarfarslegum straumhvörfum við síðustu stjórnarskifti, einkum þær stjettir, sem áttu mest undir högg að sækja í tíð íhaldsstj., enda verður því ekki neitað, að að nokkru leyti hefir skift um til batnaðar. Sjerstaklega mega bændurnir hrósa happi yfir þeirri stj., sem nú situr að völdum, því að svo mörg og merkileg mál hefir hún borið fram og leyst til hagsbóta fyrir þá. En því hefir verið haldið fram, að verkamenn hafi ekki verið afskiftir, en jeg verð að segja það, að það eru smámunir einir, sem þeir hafa hlotið til umbóta á sínum kjörum. Fæst af áhugamálum verkamanna hafa verið leyst, eins og hv. þm. Ísaf. benti á. Og mjer virðist, sem nú sje ský á lofti og Íhaldsflokkurinn sje að fá of mikil tök á Framsóknarflokknum til hins verra. Þess hefir kent um of á þessu þingi, að áhrif Íhaldsflokksins eru að aukast í framsóknarherbúðunum og íhaldsmönnum farið að takast að draga úr framgangi þeirra mála, sem verkalýðinn snerta, og jafnvel að hefta framgang þeirra með öllu. Og það eru ekki eingöngu hans mál, sem tafin eru og dregin; það eru einnig mál, sem Framsóknarflokkurinn hefir gert að sínum málum, og við getum viðurkent, að fram gangi alþjóðleg viðreisnarmál. Jeg þykist ekki þurfa að færa dæmi fyrir þessu, því að það er öllum kunnugt, hve við jafnaðarmenn eigum við þungan mótstraum að etja um mál okkar. En þó að jeg viðhafi þessi ummæli, játa jeg að fullkomlega, að hjá núv. stj. hefir kent meiri velvilja til verkamanna og meiri skilnings í þeim málum, sem verkalýðinn snerta, en hjá fyrirrennara hennar, íhaldsstjórninni. Þess var einnig vænst af öllum frjálslyndum og framfaramönnum í þessu landi. En þrátt fyrir góðan skilning, þykir mjer ljelega fylgt á eftir framgangi málanna. Það var minst á það í gær, að ef til vill væru vanrækslusyndir núv. stj. í garð verkalýðsins fleiri en ásetningssyndirnar, og hygg jeg, að það sje rjett að mestu leyti. Jeg vil í því sambandi minnast á eitt mál, sem verkalýðinn snertir. Í fyrra sótti forráðamaður verksmiðjunnar í Krossanesi um leyfi til þingsins til þess að fá að flytja inn erlenda verkamenn, og ef jeg man rjett, var umsögn þeirrar n., sem um það fjallaði. neikvæð. Nú hefir heyrst, að hæstv. forsrh. hafi leyft verksmiðjunni að flytja inn 20 menn í skjóli þess, að hjer væri um sjerfræðinga að ræða. Kunnugir menn fyrir norðan segja að þessu sje alls ekki til að dreifa að um sjerfræðinga sje að ræða. Heldur muni þessir menn aðeins verða forstjóranum þægari í taumi og vinna fyrir lægra kaupi en íslenskir menn við slík störf mundu fást fyrir. Ef það er rjett, að enginn nauður reki að láta verksmiðjuna fá þessa menn. verður að átelja, að hæstv. forsrh. skyldi hafa veitt þetta leyfi. Það er öllum mönnum vitanlegt, að þessi Krossanesherra, sem þar ræður ríkjum, er hinn versti harðstjóri við íslenska verkamenn, og í norðlenskum blöðum hefir því verið lýst yfir þráfaldlega, að hann fari ekki með verkamenn sína eins og mönnum er sæmandi. Mun þetta gert meðfram til þess að íslenskir verkamenn forðist að vinna við verksmiðjuna, og sennilega af meðfæddri harðstjóralund hans við þá, sem vinna, eða jafnvel af drotnunargirni gagnvart fátækum Íslendingum, sem hann auðsjáanlega lítur á sem þræla. Það er því einnig ástæða til að gefa gaum að þessu framferði hans.

Nú hefir þessi sami atvinnurekandi sótt um sömu undanþágu um innflutning á starfsmönnum. Nú vil jeg gera fyrirspurn til hæstv. fors.- og atvmrh. um það, hvort hann sæi sjer ekki fært að neita innflutningi erlendra manna vegna þessarar atvinnu, nema þeirra örfárra sjerfræðinga, sem nauðsynlegir mega teljast, og sem að áliti nefndarinnar eru 7 menn í hæsta lagi. Yfirleitt eru þessi störf ekki vandasöm. Er og rjett, að þessi atvinnurekandi lúti íslenskri löggjöf og kauptöxtum þeim, sem gilda í viðkomandi kaupstöðum.

Í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að gera aðra fyrirspum til hæstv. forsrh., sem telja má jafnþýðingarmikla. Eins og kunnugt er, þá hafa þessum norsku síldarbræðsluverksmiðjum verið veitt stórfríðindi með leyfi til að kaupa síld af útlendum skipum, án þess tillit hafi verið tekið til þarfar Íslendinga á sölu síldar til bræðslu. Leyfi þetta var veitt af fyrv. stj. í mjög ríkum mæli og svo að mönnum alment þótti hneyksli að. Nú er leyfistíminn útrunninn, og verða því þessi fyrirtæki að sækja um leyfi til stj. um að fá leyfistímann framlengdan. Þetta ótakmarkaða leyfi, sem bræðslustöðvarnar höfðu, var mjög vítt á þinginu í fyrra. Þetta mál hefir nú verið lagt fyrir þingnefnd eða þing nefndir og álits þeirra leitað um hvað gera skyldi. Mun stefna þeirra hníga í þá átt, að leyfi verði ekki veitt. Nú hefir verið orðasveimur um það, að leyfið muni verða veitt, en í hvað víðtækum mæli, veit jeg ekki. Nú vil jeg spyrja hæstv. forsrh., hvað hæft er í því. Jeg trúi því þó varla, að þessi orðasveimur sje á rökum bygður, því það liggur í hlutarins eðli, að þar sem engin íslensk verksmiðja er til á öllu Norðurlandi, en útgerðin fer hraðvaxandi og söltun síldar til útflutnings er takmörkuð og góðærið nú gefur vonir um mikla veiði, eins og undanfarin tvö ár, þá er þörf að tryggja það, að hægt verði að selja aflann af innlendum skipum, og eina ráðið er að leyfa sem minst kaup af útlendingum og að landsmenn sitji fyrir sölunni. Þetta er þýðingarmikið atriði. Jeg vil ekki fullyrða það, að innlendu skipin geti í meðalári fullnægt þörfum verksmiðjanna, en þó mun láta nærri, að svo sje, og ef þeim er trygð forgangssala, þá hvetur það til meiri síldarútgerðar. Jeg veit heldur ekki til þess, að Ís lendingum sje skylt að Játa nein fríðindi til Norðmanna í þessum efnum.

Jeg býst að vísu við, að hæstv. forsrh. muni nefna kjöttollssamninginn. En jeg held, að ef nokkur ákvæði í honum sjeu þessu til fyrirstöðu, þá sjeu þau þó harla ónákvæm og erfitt að finna þau þar, og síst af öllu að þau gefi tilefni til, að slík hlunnindi sjeu látin Norðmönnum í tje og hjer um ræðir. Stj. mun nú hafa takmarkað þetta leyfi í fyrra svo sem unt var. Lengra gat hún ekki gengið þá, vegna þess leyfis, er verksmiðjurnar höfðu frá fyrri stj. Þetta mun hafa verið gert við Goos og dr. Paul á Siglufirði.

Má vera, að orðasveimur þessi sje ekki á rökum bygður og að ekkert sje að átelja, en jeg vænti að fá skýr svör við því.

Þá er eitt mál enn, sem snertir iðnaðarmennina hjer og ríkissjóðinn. Það er landssjóðsverkstæðið svonefnda. Saga þess er sú, að 1910 ljet þáv. stj. og landsverkfræðingur byrja þar að vinna að smíði brúa og skipa. Þessu var haldið áfram, þar til á stríðsárunum. Þá minkaði mjög um framkvæmdir ríkissjóðs við brúargerðir o. fl. En að stríði loknu hófust þær aftur og var þá fyrst í stað unnið þar nokkuð í sambandi við brúargerðir, vita og að einhverju leyti húsagerðir ríkissjóðs. En með árinu 1923 lagðist þessi landssjóðsverkstæðisvinna að mestu niður og var flutt inn á verkstæði einstakra manna hjer í bænum. 1927 var samþ. hjer í Nd. till. um, að hafist yrði handa um að efla þetta verkstæði, svo að ekki þyrfti að sækja til útlanda smíði á því, sem hægt væri að gera hjer á landi í sambandi við vita og brúarsmíði, en bólað hafði á því, að slíkt væri reynt. Nú hefir hæstv. atvmrh. gert nokkra tilraun um, að verkstæðið verði starfrækt í þessu skyni. En svo illa hefir til tekist, að ekki er þar hægt að sinna nema nokkru af þörfum ríkissjóðs, og aðeins til brúa sem einfaldast má telja. Og um val á forstöðu manninum hefir einnig tekist svo, að hann er ekki lærður járnsmiður, heldur trjesmiður, en vinna þar er næstum eingöngu járnsmíði, og þó er nóg til af hæfum mönnum í þeirri iðngrein. Vegamálastjóri og vitamálastjóri kynoka sjer líka við að láta smíða á þessu verkstæði undir stj. manns, sem ekki er iðnlærður járnsmiður. Iðnaðarmenn hafa líka kvartað undan þessu við stj., en jeg veit ekki til, að hún hafi gert neitt til að laga; þetta. Hjer getur verið um mikla vinnu að ræða, vegna hinna ýmsu framkvæmda ríkisins. Hefir því nú síðustu árin mestur hluti af smíði brúa, vita og húsagerða, sem ríkið lætur vinna árs árlega og sem skiftir miklum fjárhæðum, verið unnið á verkstæði hjer í bænum, sem íhaldsmenn eru eigendur að. Eru vitamálastjóri og vegamálastjóri báðir meðeigendur í því. Hafa þeir því persónulegan hag af því að láta vinna þetta á sínu eigin verkstæði. Er kunnugra manna mál, að ríkissjóði hafi mátt blæða drjúgum vegna þessa. Hefir heldur ekki verið sú regla að semja um þessa vinnu fyrirfram, og því verðlagt eftir á og eftir eigin geðþótta. Drjúgum mun lagt á þessa vinnu. Kunnugur maður hefir sagt mjer, að 1921 kostaði vinna á tonni af smíðuðu brúarjárni 400 kr. frá landssjóðsverkstæðinu. En nokkru síðar kostaði vinna miðað við sömu þyngd, unnin þá fyrir ríkissjóð hjá vjelaverkstæðinu „Hamri“, 1200 kr. Hjer er um mikla starfrækslu og vinnu að ræða fyrir ríkissjóð, og mætti vafalaust spara mikið fje við smíði á öllu því, sem ríkissjóður lætur árlega vinna við verklegar framkvæmdir, með því að gera ríkissjóðsverkstæðið svo úr garði bæði hvað áhöld snertir og starfsmenn. Jeg verð að finna að því, að ekki hefir verið meira gert að umbótum í þessu skyni á þeim árum, sem liðin eru síðan till. var samþ. hjer í hv. deild. Óska jeg þess, að þetta verði athugað rækilega og kipt í betra horf, sem áfátt er í þessu efni, og ríkissjóður firtur þeim óþarfa útgjöldum, sem nú renna til nokkurra íhaldsmanna hjer í bænum í sambandi við smíði brúa og vita og smíði til þeirra húsa, sem húsameistari hefir umráð yfir, og að sjálfsögðu annarar starfrækslu, sem unnin er fyrir fje ríkissjóðs.

Þá er enn eitt mál, sem jeg vil minnast á og þar sem jeg tel, að hæstv. stj. hafi enga búhygni sýnt, en það er salan á e/s Willemoes. Vil jeg beina til hæstv. atvmrh. spurningu um, hvers vegna það var gert. Að vísu hefði verið rjettara að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. En skipið var selt í febr. 1928, og sá, sem þá var fjmrh., er látinn og því ekki til andsvara. Tel jeg því rjettast að beina spurningunni til hæstv. atvmrh. Skip þetta var keypt 1917; þá voru líka skipin Borg og Sterling keypt. Voru lög sett um kaup á skipum þessum. Er mjer því spurn um það, með hverri heimild skipið var selt. Jeg bjóst við, að til þess þyrfti lagaheimild, svo sem er með aðrar eignir ríkissjóðs. En jeg veit ekki til, að slík heimild hafi verið gefin. Hygg jeg, að þetta hafi verið gert án vitundar þingsins; að minsta kosti vissu Alþýðuflokksþingmennirnir ekkert um þá ráðstöfun þegar hún fór fram. Það er spurning, hversu mikill búhnykkur það hafi verið að selja 15 ára gamalt skip, vel lagað til að flytja þungavöru til landsins og milli hafna. Og mests gróða gat verið að vænta af slíku skipi sem Willemoes var. Það skip skilaði í fyrra 70 þús. kr. í arð til Eimskipafjelags Íslands þá 10 eða 11 mánuði, sem það átti skipið og rak. — Þá er verðið. Það mun hafa verið gert útboð til útlanda, og hæsta boð mun hafa verið 150 þús. kr., hvort það hefir verið í útlendri eða innlendri mynt, veit jeg ekki. En segjum, að það hafi verið ísl. kr. En nú eru til lög, sem banna sölu á skipum út úr landinu, og tel jeg það rjettmæta ráðstöfun, að selja skipið ekki úr landi, úr því nauðsyn þótti bera til að selja það. Skipið er síðan selt hjer innanlands fyrir 140 þús. kr. (Forsrh.: Var rjettara að selja það út úr landinu?). Nei, en það hefði mátt selja það hjer fyrir það hæsta verð, sem í það var boðið. Og þetta er vitanlega mjög lágt verð, þegar tekið er tillit til, að á skipinu græddust 70 þús. kr. á einu ári. Og hefði það verið rekið í tvö ár áfram með sama árangri, þá hefði það verið búið að borga þetta verð með ágóðanum, því líkur eru til, að skipið skili ekki minni arði í ár en í fyrra samkv. skoðun framkv.stj. Eimskipafjelags Íslands. Er þá fjelagið búið að fá skipið greitt á 2 árum, en samkv. samningum við ríkissjóð á skipið að greiðast á 10 árum. Jeg vil bæta því við, að frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna á ríkið að eiga sem flest skip, og að minsta kosti að selja ekki þau skip, sem það hefir eignast og reka má með hagnaði. Enda hefir nauðsyn þess verið viðurkend í þinginu með samþykt um smíði nýja strandferðaskipsins. Skal jeg víkja nánar að því. Stj. var í fyrra, samkv. ósk hennar sjálfrar, gefin heimild til að byggja strandferðaskip. Var það gert með það fyrir augum, að sú heimild yrði framkvæmd. En af hverju hefir það ekki verið gert? Að vísu sagði hæstv. atvmrh., að stj. hefði ekki viljað taka til þess okurlán. Jeg skal ekki segja um, hvort hún hefir þurft þess. Hagur ríkissjóðs um áramótin benti þó ekki til slíks. En jeg veit, að þörfin fyrir skipið er brýn. Þannig fóru t. d. 300 smál. af vörum í einni ferð með Nova til Vestur- og Norðurlandsins frá Reykjavík nú fyrir stuttu, sökum þess, að öll íslensku skipin gátu ekki tekið þessar vörur. Er leitt að þurfa að verða að nota erlend skip til flutninga hjer á milli hafna.

Stj. fól Nielsen framkvæmdarstj. að gera teikningu af skipinu. Hefir hún legið í stjórnarráðinu síðan á síðastl. sumri án þess neitt hafi verið gert frekar í því máli. Alt var undirbúið til þess að bjóða verkið út. En nú hefir heyrst, að komin sje fram önnur hugmynd um gerð skipsins, bráðabirgðateikning gerð af einum starfsmanni Eimskipafjelagsins. Er sú teikning þannig, að sögn kunnugs manns, er hefir sjeð hana, að hún gerir gerð skipsins alt aðra en þá, sem fulltrúi stj., E. Nielsen, hefir látið gera teikningu að. Sú hin nýja teikning er sögð að vera 25 ár á eftir tímanum að ýmsu leyti. T. d. er gert ráð fyrir 8 mílna hraða á vöku o. s. frv. Jeg veit nú ekki, hvað fyrir hæstv. ráðh. vakir með þessu, Hvort hann ætlar nú að aðhyllast þessa nýju hugmynd með öllum hennar göllum, sem á henni kunna að vera, eða teikningu þá, sem fulltrúi stj., E. Nielsen, hefir lagt fram. En samkv. henni fengjum við að mörgu leyti dágott skip, þó sá galli fylgi, að skipið myndi verða of lítið. Nú er það álit þeirra manna; er mesta reynslu og kunnugleik hafa, að þetta fyrirhugaða skip þurfi að vera stærra en Esja, vegna sívaxandi flutningsþarfa, og að það sje gert með það fyrir augum, að útlend skip taki ekki fólksflutninginn frá íslensku skipunum. Hvað kostnaðarhliðina snertir, þá myndi skipið kosta eftir teikningu Nielsens hverfandi lítið meira en það skip, sem nú er verið að hugsa um, þótt það sje hugsað nokkru minna. Mismunurinn sagður að vera 5 þús. danskar krónur. Fyrir það eitt tel jeg ekki gerlegt að breyta um og fá máske minna og á ýmsan hátt óhagkvæmara skip í staðinn.

Þá vil jeg minnast örlítið á það eftirlit, sem er á innflutningi verkafólks hingað til lands. Jeg skal þó ekki ávíta mjög hæstv. atvmrh. vegna þessa, því lítið mun hafa verið hugsað um þetta áður. Í nágrannalöndum okkar eru víða ströng ákvæði um þetta. Svo er það t. d. í Bretlandi og Noregi. En hingað getur hver sem vill komið og setst hjer að og stundað atvinnu, þótt enginn sjerfræðingur sje. Hvaða útlendingur sem er getur komist hjer í atvinnu, enda þótt atvinnuleysi ríki hjá íslenskum verkalýð. Þetta eru sjómenn og menn, sem gera allan þremilinn hjer og þar, án þess nokkuð sje við því sagt.

En það var að mig minnir í þinginu 1923 gert ráð fyrir að setja reglugerð um þetta efni, en hún er ókomin enn. Að vísu voru á þinginu 1927 sett lög um rjett erlendra manna til atvinnu hjer á landi, en með þeim er þó fulllangt gengið um að veita erlendum mönnum vinnu, Með þessu, sem jeg hefi nú sagt, vildi jeg aðeins benda hæstv. atvmrh. á það, að ástæða sje til að hafa fyllra eftirlit með þessu en verið hefir.

Þá verður það og að telja vanrækslusynd hæstv. atvmrh., hve mjög hefir seinkað byggingu síldarverksmiðjunnar á Siglufirði. Jeg held, að þetta hefði þótt næsta hægfara, ef um einstaklingsframtak hefði verið að ræða, sem engin ástæða er til að lofa. Ef hæstv. stj. hefði gengið hjer skörulega að verki, þá hefði verksmiðjan átt að vera komin upp og taka til starfa í byrjun síldveiðitímans á sumri komanda. Og það er þessi dráttur um byggingu verksmiðjunnar, sem jeg sje ástæðu til að víta. Um fyrirkomulag þessa rekstrar ætla jeg ekki að ræða, en vil þó aðeins segja, að það er ekki í anda okkar jafnaðarmanna að hverfa frá því sjálfsagða takmarki, að ríkið hafi rekstur þessa fyrirtækis í sínum höndum. En sem sagt, út í það ætla jeg ekki að fara að þessu sinni. Jeg held, að að viðbættu því, sem flokksmenn mínir hafa talið hæstv. stj. til syndar, hafi jeg þá lítið eitt meira að segja að þessu sinni. Fleira væri þó hægt að tína til.

Jeg hefi viðurkent, að borið hefir meira á velvilja í garð hinnar vinnandi stjettar á landinu hjá þessari hæstv. stj. en menn hafa átt að venjast hjá undanförnum stj. En verkalýðurinn lítur líka svo á — og það með fullri sanngirni —, að sú stj., sem styðst við atkv. alþýðufulltrúanna á þingi, ætti að taka tillit til alþýðu og málum hennar vegna betur en nú eru horfur á. Landbúnaðurinn, eða þeir, sem hann stunda, þurfa síst að kvarta, enda hefir hæstv. stj. sagt, að hann væri stóra barnið, sem ganga ætti á undan um alla hjálp og rjettarbætur, og það yrði smáa barnið að skilja og fyrirgefa. En nú hafa á þessu þingi verið stigin svo stór stökk til viðreisnar landbúnaðinum og til þess að rjetta hlut bænda, að verkalýðurinn, sem er fjölmennasta stjett landsins, á nú heimting á, að hæstv. stj. fari að vilja hans og fari að sinna málefnum hans meira en verið hefir. Og á því velta lífskjör verkalýðsins eins og nú stendur, hvernig hæstv. stj. snýst í þeim málum.

Hæstv. atvmrh. fórust orð eitthvað á þá leið, að engin stjett í landinu hefði fengið kjör sín jafnvel bætt eins og verkalýðurinn, og veit jeg satt að segja ekki, hvernig hann eða aðrir, sem sömu skoðun halda á lofti, fara að því að finna slíkum orðum stað. Það er vitanlegt, að samtök verkalýðsins hafa skapast síðasta mannsaldur, en eru þó harla skamt á veg komin, þegar borið er saman, hvað verkalýð nærliggjandi þjóða hefir orðið ágengt með sínum samtökum. Þar erum við langt á eftir, Íslendingar, eins og í svo mörgu öðru.

Og ef bera á saman þann rjett, sem verkalýður okkar hefir öðlast til þess að bjarga sjer, við sumar aðrar stjettir í landinu, þá þolir það engan samanburð. Í atvinnulífi þjóðarinnar hefir orðið sú bylting síðustu áratugina, að sumir atvinnurekendur eru, frá því að vera bjargálnamenn, orðnir stóreignamenn. Iðnaðarmannastjettin hefir líka komið svo vel ár sinni fyrir borð, að hún stendur fyllilega á sporði samskonar stjettum í nágrannalöndunum hvað efnahag og aðra vellíðan snertir. Og sama er um verslunarmannastjettina að segja, að hún hefir fengið kjör sín stórum bætt, samanborið við verkalýðinn.

Verkamenn verða að vinna nótt með degi. Skylduvinna er oftast 10 stundir í sólarhring, en oft verða þeir líka að vinna allan sólarhringinn samfleytt á þeim tíma árs, sem mest er að gera, sem að jafnaði er stuttur. Hinn tímann verða þeir að ganga heila og hálfa dagana leitandi eftir vinnu, fáandi ekki neitt oft og tíðum. Af þessu verður því sjeð, að rjettarbætur verkamönnum til handa eru skamt á veg komnar, og virðist mjer þá nokkuð mikið sagt, að kjör verkamanna sjeu orðin það góð, að ekki þurfi að bæta þau. Jeg gat ekki látið vera að minnast á þetta út af þeim orðum, sem fjellu frá hæstv. atvmrh. Geri jeg ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi mælt þetta af ókunnugleika á kjörum verkamanna og afkomu verkalýðsins yfirleitt.

Jeg fer nú að slá botninn í þessa ræðu, enda sje jeg, að hv. þdm. muni vera farnir að hugsa til matarins.

En þar sem reynslan hefir sýnt, að framsæknar og frjálslyndar stjórnir í öðrum löndum hafa jafnan tekið tillit til jafnaðarmanna og hafa ekki sjeð sjer annað fært á meðan þeir hafa ekki bolmagn til þess að mynda stjórn, þá verður að heimta það af framsóknarstjórn okkar, sem telur sig styðjast við frjálslynda menn, að hún vinni að umbótum verkalýðnum til handa og vilji ekki eingöngu ganga erindi þeirra, sem efnaðri eru. Og þó að sumt af þeim umbótamálum yrði að gerast á kostnað efnamannanna, þá má hæstv. stj. ekki hika við að stíga það spor verkalýðnum til hjálpar, jafnvel þó að það ljetti eitthvað pyngju hinna, sem orðið hafa ríkir á kostnað verkalýðsins í landinu, sem þeir hafa getað skamtað lífskjör eftir eigin geðþótta, á kostnað þess þjóðskipulags, sem við lifum undir. Með því móti getur hún væntst að fá hlutleysi verkalýðsins framvegis í stjórnarsessinum.