15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg verð að segja það út af ræðu hv. 2. þm. Skagf., að hún haggar ekki á nokkum hátt þeirri skýrslu, sem jeg hefi gefið í þessu máli, og hún rökstyður ekki á nokkum hátt þau ummæli, sem hv. þm. hefir haft um það, að stj. hafi sýnt langlæti og ofsókn gagnvart þessu fjelagi.

Hið fyrsta, sem hv. þm. bendir á að sje tortryggilegt, er þetta með brjefið frá sýslumanninum með fundargerðinni. Þetta leggur hv. þm. áherslu á, að sje tortryggilegt. Jeg benti á, að það hefði engin áhrif haft, hvort brjefið hefði komið til stj. í janúar eða mars, og báðir hv. þm. Skagf. hafa lýst yfir því, að þessi umsókn kemur í rauninni málinu alls ekkert við, því að það, sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) var að finna að, var ekki það, að þessi umsókn hefði ekki verið uppfylt. Hv. þm. (JS og MG) eru að tala um, að það hafi komið einhver sameiginleg umsókn, en hún var frá Frystihúsfjelagi Skagfirðinga, þar sem kaupmenn á Sauðárkróki voru aðilar. (JS: Þeir voru engir aðilar). Það eru, eins og sjest af sýslufundargerðinni, tvö lán, sem sýslunefndin fer fram á, enda eru það líka tvær umsóknir, sem hv. þm. (JS) segir, að hafi komið; en úr því að hv. þm. segir, að þetta komi málinu ekkert við, hvað er þá tortryggilegt við það, þótt umsóknin hverfi? En svo segja báðir hv. þm. Skagf., að það komi einhver önnur umsókn, á alt öðrum grundvelli, m. ö. o. alt tal hv. 2. þm. Skagf. viðvíkjandi þessari umsókn frá sýslumanni er alveg út í loftið, og jeg tel ekki, að hægt hafi verið að leggja neitt upp úr málinu, eins og afgreiðsla þess var að norðan. Og hvað er eiginlega tortryggilegt í málinu, ef ekki það, að þeir vita ekki, hvert á að snúa sjer? Og þessi alþýðumaður, sem ekki veit, hvert á að snúa sjer, er enginn annar en sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu. Já, það er sem sagt þessi maður, sem í mörg ár hefir verið starfsmaður í stjórnarráðinu. Það var ekki svo lítið um það skrifað hjerna um árið, þegar núv. sýslumaður Skagfirðinga fór í stjórnarráðið. En það, sem hv. 2. þm. Skagf. gengur alveg framhjá, er það, að fyrst haustið 1927 kemur umsókn frá Kaupfjelagi Skagfirðinga, og síðar um veturinn, í febrúar, kemur símskeyti frá fjelaginu. En frá samvinnufjelögunum, sem hv. þm. hefir nefnt, hefir ekkert komið, og hvað snertir þetta lauslega viðtal, sem vitnað hefir verið i, þá segir dómsmrh., að ekkert ábyggilegt viðtal hafi verið átt við sig um þetta mál. Og þegar svona stórmenni vilja fá lán, sem skiftir tugum þúsunda króna, geta þeir þá ekki látið svo lítið að senda þótt ekki væri nema símskeyti um það? En að það hafi verið beint einhverjum ásökunum að frá Sigfúsi Jónssyni, þá er það nokkuð, sem ekki fer vel í munni hv. 2. þm. Skagf.

Hv. þm. er að tala um, að það hafi verið reynt að sundra bændum þar fyrir norðan, en það er sannast að segja, að það hefir enginn gengið betur fram í því en hv. þm. sjálfur.

Jeg verð að kalla það sorglegt, hvernig komið er fyrir hv. 2. þm. Skagf. Það er ekki langt síðan við riðum saman um hjeruð til að tryggja samtök bænda. Nú er svo komið, að einhver illur andi hefir náð tökum á honum, svo nú ríður hann um hjeraðið til að sundra bændum.

Sláturfjelagið hefir ekki rætt þetta mál við Sambandið. Sambandið annast þó söluna fyrir fjelagið. Kaupfjelagið er langstærsta bændafjelagið í hjeraðinu. Það hefir á síðustu árum annast sölu á 2/3 hlutum af öllu kjöti skagfirskra bænda móts við Sláturfjelagið. Það var því eðlilegt að veita því lánið. Það hafði líka fyrst sótt um það, og eitt sótt formlega. — Það var sett að skilyrði fyrir lánveitingunni, að allir bændur hefðu aðgang að frystihúsinu og gætu lagt þar inn kjöt sitt.

Svo var hv. þm. að tala um tilraun til að drepa Sláturfjelagið. Það er hlutur, sem jeg tek ekki til mín. Og að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar til að sundra bændum! Nei, það er hv. 2. þm. Skagf., sem hefir heiðurinn af því. Hann var fullur af reiði til Sambandsins og vildi ekki, að það væri haft með í ráðum um þessar lánveitingar. Jeg er alveg á gagnstæðri skoðun. Jeg álít það sjálfsagt, að stj. fari eftir bendingum þess.

Stj. hefir beint allmiklu fje í þessum tilgangi til Skagfirðinga. Kaupfjelagið hefir komið upp frystihúsi, og að því eiga allir aðgang. Sje það satt, að það hafi verið einlægur vilji Sláturfjelagsins að fá að vera með, þá verður ekki annað sagt en að því hafi farist mjög óhönduglega.

Hv. þm. vildi bera mjer á brýn pólitíska hlutdrægni í þessum afskiftum. Andstæðingar mínir í pólitík skipi stjórn Sláturfjelagsins. Jeg er að vísu ekki persónulega kunnugur því, en þó veit jeg ekki betur en einn af stjórnendum Sláturfjelagsins sje eindreginn framsóknarmaður. Og mótmæli jeg algerlega og afdráttarlaust öllum ásökunum um, að jeg hafi beitt hlutdrægni í þessu máli.