27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg vil fyrir mitt leyti leggja þessu máli liðsinni og greiða fyrir því, að það nái fram að ganga. Jeg tel það rjett framhald og fullkomnun á starfi undanfarinna þinga um að greiða fyrir lánveitingum til landbúnaðarins, fyrst og fremst með ræktunarsjóðnum, síðan með byggingar- og landnámssjóði og nú með þessu frv. En jeg get ekki annað en látið í ljós, að mjer finst vera þó nokkrir gallar á frv. Það liggja þegar fyrir brtt. til þess að bæta úr sumum þeirra, og þeim er jeg meðmæltur, en aðrir gallar eru þess eðlis, að ekki þýðir að bera fram brtt. til að bæta úr þeim, af því að þar gætir skoðanamunar á milli mín og meiri hl. þingsins.

Fyrsti gallinn er sá, að ábyrgð ríkissjóðs er of víðtæk. Í 4. gr. stendur: „Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans“. Þetta er alveg sami gallinn og komst inn í löggjöfina um Landsbankann, eftir að núverandi þingmeirihluti breytti henni, og er ekki annað en einn þátturinn í alveg óskiljanlegri og ótrúlegri ljettúð, sem hv. þingmeirihluti og hæstv. stjórn hafa sýnt um að hlaða ábyrgðum á ríkissjóð. Jeg skal viðurkenna, að það eru til þau atriði í þessu máli, þar sem rjett er, að ábyrgð ríkissjóðs komi til. En það er alt annað að láta hana í tje á takmörkuðu sviði eða hlaða hverri stofnuninni á fætur annari á ábyrgð ríkissjóðs, og leggja þannig ráðstöfunarvald yfir ríkissjóðstekjum í hendur mönnum, sem standa utan löggjafarvaldsins og geta ekki borið ábyrgð gagnvart þjóðinni, eins og þingmenn og ráðherrar.

Næsti bletturinn á þessu frv. er sá — og hann er alveg óþarfur —, að ráðist er á gamla og góða stofnun, þar sem er viðlagasjóðurinn. Jeg sje ekki, að viðlagasjóðurinn sje til lengur, eftir að búið er að samþ. frv. Nú væri ekkert um þetta að segja, ef til bæri nauðsyn. En því fer fjarri, að svo sje. Þessi ákvæði um stofnsjóð fyrir veðdeild og bústofnslánadeild eru afturgöngur úr ríkisveðbankalögunum, sem lágu fyrir þinginu 1921 og voru samþ. Þau lög voru undirbúin af sama manni og þetta frv., og hann tekur hjer upp aftur gamla tillögu um að taka þá sjóði, sem ríkið átti, og gera þá að stofnsjóðum fyrir verðbrjefaútgáfunni. Þetta getur verið rjett og nauðsynlegt, á meðan ekki er lögð til önnur trygging meiri eða betri. En það er svo í þessu frv., að í báðum tilfellum er aftan við stofnsjóðstrygginguna sama sem alger ábyrgð ríkissjóðs á vaxtabrjefum bankadeildanna. Jeg þori að fullyrða af minni þekkingu um lántökur, að það fæst ekki eyri meira fyrir verðbrjefin, þó að viðlagasjóður sje tekinn, en fengist hefði með þeirri tryggingu einni, sem ríkissjóðsábyrgð veitir. Það er svo, þegar boðin eru út verðbrjef með ríkissjóðsábyrgð, að þá er ekki spurt um aðrar tryggingar, af því að allir vita, að ríkissjóðsábyrgð er fullkomnasta tryggingin, sem hægt er að láta í tje. Jeg teldi satt að segja, að fyrir nýskipaðan fjmrh. ætti það að vera metnaðarmál að bjarga viðlagasjóði frá eyðileggingu eða afnámi, sem hann er lagður í að óþörfu. Og það er leiðinlegt, þegar verið er að stofna til nauðsynlegrar löggjafar fyrir landbúnaðinn, þá skuli það vera notað sem tilefni til þess að gera að engu gamla og góða stofnun, sem hefði getað orðið til mikils gagns í framtíðinni,

Þá tel jeg, að 39. gr., sem fjallar um lotteríspil eða happvinninga, sje stór blettur á frv. Jeg get um það atriði tekið undir með hv. 4. landsk. og álít, að sú grein eigi niður að falla.

Jeg hefi nú talið upp þrjá höfuðgalla frv. Tveir af þeim eru þess eðlis, að það ætti að geta orðið samkomulag um að lagfæra þá. Löggjöfin yrði með því ekki skemd, heldur miklu fremur bætt.

Enn eru nokkur atriði, sem jeg hefði heldur kosið öðruvísi. Í fyrsta lagi er jeg hv. 1. þm. G.-K. sammála um, að það er ástæðulaust og ekki rjett að taka fasteignaveðlánabanka upp í þetta frv. Þar kemur til greina ein ástæða, sem ekki hefir verið nefnd enn. Þegar ríkisveðbankalögin voru á döfinni 1921, var af höfundi þeirra og fylgismönnum rík áhersla lögð á það, að best væri fyrir alla fasteignaveðlánastarfsemi, að ekki væri á markaðinum nema ein tegund brjefa frá einni stofnun. Ef fleiri væru tegundir brjefa og fleiri seljendur, yrði úr því samkepni um verðbrjefamarkaðinn, sem hefði óheppileg áhrif á sölu verðbrjefanna og yrði til þess að hækka söluverðið, sem er sama og að hækka vexti fasteignaveðlána. Mjer fanst nú höfundur frv. ganga of langt í að heimta, að öll verðbrjefaverslun rynni í einum og sama farvegi, því að mjer hefir altaf fundist eðlilegt að hafa tvennskonar verðbrjef sitt með hvoru móti; aðra tegundina fyrir erlendan markað, hina fyrir innlendan. Það eru mismunandi kröfur, sem þessir tveir aðilar gera. Utanlands vilja menn kaupa brjefin til langs tíma, en innanlands til skamms tíma. En með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er stefnt út í hreinustu öfgar. Ef það verður óbreytt að lögum, má gera ráð fyrir, að það verði að minsta kosti sex tegundir hliðstæðra íslenskra verðbrjefa á markaðinum, og það er áreiðanlega of mikið og verður þessari fasteignaveðlánastarfsemi til ógagns. Þegar af þessari ástæðu tel jeg varhugavert að fjölga tegundum brjefa með því að taka fasteignalán samskonar og veðdeild Landsbankans lánar nú út úr og setja þau í sjerstaka deild. Hjer við bætist, að af því að við lifum í landi, sem oft verður að þola áföll af náttúrunnar hendi, er það varhugavert að flokka hin eiginlegu fasteignaveðlán sundur í ýmsar deildir eftir tegundum fasteignanna. Jeg held, að fasteignaveðlánin sjeu yfir höfuð betur trygð, ef blandað er saman lánum gegn jarðaveðum og öðrum fasteignaveðum, t. d. í kaupstöðum. Í sveitunum geta komið áföll, t. d. fyrir eldgos eða öskufall, og rýrt jarðir í verði, þannig að þær reynist ekki nægilega veðhæfar; en óvíst er, að það geri nokkum skaða í kaupstaðnum, þannig að tryggingar bankans haldast þar fullkomlega. En svo þegar áföll koma fyrir í kaupstöðunum af öðrum ástæðum, sem fella fasteignir þar í verði, þá gerir það sveitunum sennilega ekkert til, þannig að jarðaveðin eru þá fullkomin trygging gagnvart bankanum. Það dregur úr áhættu veðlánastofnunarinnar að hafa mismunandi tryggingar, og hlýtur yfirleitt að lyfta sölu vaxtabrjefanna og lækka vextina.

Hvernig sem litið er á þetta mál frá sjónarmiði landbúnaðarins, þá álít jeg það mjög varhugavert spor að greina fasteignaveðlán sveitanna frá öðrum fasteignalánum í landinu og tel rangt að gera það að óyfirlögðu ráði. Mjer virðist helst, að þetta sje fram borið sem metnaðarmál fyrir sveitirnar, að þær geti haft öll sín viðskifti við einn og sama banka. En það má ekki koma til greina, ef raunverulegar ástæður mæla á móti því.

Jeg álít rjett að fella kaflann um veðdeildina úr frv.; hann á eiginlega ekkert skylt við annað í frv. Og það má altaf taka það til athugunar síðar, hvort rjett sje eða hentugt að auka þeirri deild við bankann, eftir að búið er að koma honum vel fyrir. Jeg álít, að samkomulagstill. frá hv. 1. þm. G.-K., á þskj. 430, fullnægi ekki því, sem æskilegt er að ná í þessu efni. Því að samkv. þeim á að gefa út sjerstakan flokk veðdeildarbrjefa, til þess að lána eingöngu gegn veði í jörðum og fasteignum, sem ætluð eru til ræktunar og framleiðslu landbúnaðarafurða, eða til almenningsnota í sveitunum. En önnur veðdeildarbrjef á svo að gefa út gegn öðrum fasteignaveðum í landinu. Jeg er sannfærður um, að þessi skifting verður engum til hagsbóta. En þó eru þessar till. hv. 1. þm. G.-K. ekki eins varhugaverðar, af því að sama stofnun á að gefa út hvoratveggja brjefaflokkana: þ. e. veðdeild Landsbankans.

Næsta aths., sem jeg vildi gera við þetta frv., er um bústofnslánadeildina. Jeg hefði kosið, að fjárútveguninni til hennar væri komið fyrir á öðrum grundvelli en frv. fer fram á. Deildin má veita lán til 10 ára, í lengsta lagi, gegn tryggingum, sem eru rýrari en 1. veðrjettur í fasteignum. Þá get jeg ekki álitið hentugt að byggja fjárútveganir til hennar á vaxtabrjefasölu. Jeg held, að erlendis fengist enginn markaður fyrir slík brjef, sem ekki eiga að vera lengur en 10 ár í umferð. Þar er venjan sú, að þeir menn, sem kaupa verðbrjef, gera það af því, að þeir vilja koma fje sínu fyrir á tryggan hátt um lengri tíma. Sjerstaklega væri það óheppilegt fyrir stofnun eins og bústofnslánadeildina, ef verðbrjefamrkaðurinn breyttist snögglega vegna almennrar breytingar á bankavöxtum, svo að ekki þætti annað fært en að láta brjefin falla í verði, til þess að samsvara breytingum á almennum bankavöxtum. Þessi lán, sem aðeins eru veitt til 10 ára, mega ekki vera affallalán. En tilhögunin í frv. heimtar það, að vaxtabrjefin sjeu seld með afföllum, ef svo ber undir. Nú er það svo, að þegar aðeins er um að ræða lán til 10 ára, þá eru aðrar aðferðir eðlilegri og venjulegri til fjárútvegunar. Sjerhver banki og sparisjóður getur fullkomlega forsvarað að lána nokkuð töluvert af fje sínu út í 10 ára afborgunarlán. Jeg álít því rjett að nota nokkuð af fje sparisjóðsdeildar bankans á þennan hátt, enda er það alls ekki hentugt að láta alt sparisjóðsfje ganga til rekstrarlána. Ef sparisjóðsfje nægir ekki handa bústofnslánadeildinni, þá má benda á tvenskonar fjárútveganir aðrar, sem eru eðlilegri og heppilegri en vaxtabrjefasala, annaðhvort að bankinn taki lán með ábyrgð ríkissjóðs, eða að ríkissjóður útvegi beinlínis fjeð og láni bankanum það. Á þann hátt getur stofnunin fengið fje með hentugri kjörum. Jeg álít rjettara og heppilegra að sameina bústofnslánadeildina og rekstrarlánadeildina, til þess að hafa sameiginlegar fjárútvegur fyrir þær. En útlánareglur gætu verið tvenskonar — mismunandi fyrir hvora tegund lána. Jeg geri ráð fyrir, að það sje of seint að bera fram þá breytingu nú; en þó verð jeg, út af ummælum hæstv. forsrh., þar sem hann gerði ráð fyrir endurskoðun á lögunum síðar að því er snertir bústofnslánadeildina, að taka það fram, að þetta fyrirkomulag gerir það ómögulegt að breyta ákvæðunum um bústofnslánadeildina í nokkru verulegu, eftir að bankinn er tekinn til starfa. Stofnun, sem gefur út bankavaxtabrjef, má ekki breyta lögum sínum eða reglum, þannig að það geti haft nokkur áhrif á hagsmuni lánveitenda, eða kaupenda brjefanna. Og ef stjórnin ætlar að láta fram fara endurskoðun á löggjöfinni um bústofnslánadeildina, eftir að hún er komin í framkvæmd, þá vil jeg benda á, að þingið ætti að samþ. bráðabirgðaákvæði, er heimila annarskonar fjárútvegun handa deildinni í bili, þangað til endurskoðun þessi er um garð gengin.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja um frv. sjálft annað en að taka undir þá ósk með hv. 5. landsk., að stj. megi auðnast að halda svo á þessu máli í framkvæmdinni, að það verði landbúnaðinum til viðreisnar, en eigi niðurdreps. Við, sem erum kunnugir hjer sunnanlands, höfum kynst afleiðingum þess, að ógætilega hefir verið lánað til landbúnaðarins eins og til sjávarútvegsins. Starfsemi útibúsins á Selfossi er ljóst dæmi þess. Það er misskilningur hjá hv. 6. landsk., að nokkrar sjerstakar ástæður hafi valdið slíkum þrengingum á suðurláglendinu, ilt árferði, stríðsafleiðingar eða stórfyrirtæki; það er engu slíku um að kenna. Þar hefir fje bankanna tapast á sama hátt og hjá sjávarútv., lánsfjeð lá of laust fyrir á dýrtíðarárunum. Margir álitu sig þá ríkari en þeir voru. Þetta, sem gerst hefir á Suðurlandi, nægir til að sýna, að fjárhagslega getur farið eins fyrir landbúnaðinum og sjávarútveginum, þegar lánað er fyrirhyggjulaust, að peningarnir koma ekki aftur, sem lagðir eru í atvinnureksturinn, og þá myndast töpin. Það verður enn tilfinnanlegra fyrir landbúnaðinn en sjávarútveginn, þegar fjöldi framleiðenda getur eigi staðið í skilum, og kemur harðar niður á hlutaðeigandi hjeruðum. Töp sjávarútvegsins koma jafnan niður á færri einstaklingum.

Gætilega verður að fara um útlán til landbúnaðarins, en þó mega menn hinsvegar ekki vera svo hræddir, að menn þori ekki að leggja hönd á plóginn til þess að rjetta landbúnaðinn úr kútnum. Það verður að gæta þess, að útvega eða vinna eitthvað gagnlegt á hverjum stað fyrir hvern pening, sem Búnaðarbankinn lánar út; þá verður stofnunin að góðu liði fyrir þjóðina.

Þó að það sje málinu óviðkomandi, þá vil jeg skjóta þeirri aths. til stj., að á tveimur stöðum í frv. er henni veitt heimild til lántöku; í 40. gr., um veðdeildina, og í 52. gr., um bústofnslánadeildina. Og í báðum greinunum stendur, að stj. skuli heimilt að taka lán erlendis til kaupa á vaxtabrjefum. Þetta ætti að fella burtu úr annari hvorri gr. Jeg held það nægi, að stj. sje á einum stað í lögunum veitt heimild til slíkrar lántöku. Hún hlýtur að ráða til lykta í einu lagi lántöku handa bankanum. Og á meðan hún er að leita fyrir sjer um lán, er gengið út frá, að heimildin sje til, án þess það þurfi að vísa til hennar fyr en til þess kemur að gera lántökusamning. En þá held jeg það sje óhægra að vísa til heimilda á mörgum stöðum í lögunum. Jeg álít jafnvel, að það sje nauðsynlegt fyrir stjórnina að fá í einu lagi, eða með sjerstökum lögum frá þinginu, heimild til lántöku erlendis, sem hún getur lagt fyrir lánveitendur.

Jeg hefi tekið eftir því, að í Danmörku er altaf höfð sú aðferð að setja sjerstök lög um lánsheimildir handa stjórninni, sem ætluð eru til sýnis lánveitendum. Í 1. gr. þeirra laga er það tekið fram, að stjórninni sje veitt skilyrðislaus heimild til lántökunnar, en í síðari greinum þeirra eru sett ákvæði um, hvernig lánsfjenu megi verja. Jeg vil benda stj. á, að jeg er hræddur um, að það geti leitt til vandræða að þurfa að vísa á lánsheimildir í mörgum lögum og lagagreinum; það gæti leitt til þess, að lánveitendur teldu heimildirnar ekki nógu skýrar, og mjer finst óþarfi að setja stj. í þá afstöðu gagnvart þeim.