15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

16. mál, fjárlög 1930

Benedikt Sveinsson:

Hv. þm. Dal. hefir að nýju vakið máls á hinu mikilvægasta málefni vor Íslendinga, sambandsmálinu, um afskifti stj. af því og afstöðu hennar til þess nú. Hefir hann borið fram fyrirspurn, sem hæstv. ráðh. hefir þegar svarað. Þessi fyrirspurn er nokkurskonar árjetting eða endurnýjun þeirrar fyrirspurnar, er hv. þm. Dal. bar fram á sjerstöku þskj. á síðasta þingi um stefnu stj. gagnvart sambandslagasamningnum frá 1918. Hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurninni þá út í æsar, skýrt og drengilega og með öllu afdráttarlaust. Galt allur þingheimur svörum hans jákvæði sitt, á þann hátt, að formenn flokkanna svöruðu hver fyrir sinn flokk. Hv. þm. Dal. mátti vera fullkomlega ánægður með svörin, ekki síst svar hæstv. forsrh. Var það af öllum viðurkent, að hann hefði svarað „af sinni hálfu og allra flokksmanna sinna“ afdráttarlaust, skýrt og drengilega, — einmitt á þann hátt, sem sjerhver góður Íslendingur hlaut að óska.

Hæstv. ráðh. (TrÞ) hefir nú svarað enn á ný með því að lýsa yfir því, að engin breyt. hafi orðið í huga hans til þessa máls. Væri það og undarlegt, ef hæstv. ráðh. hefði hvarflað nokkuð í þessu máli, sem allir viðurkenna, að hann hafi tekið svo drengilega, allra helst þar sem Alþingi hafði og goldið því jákvæði sitt, og allir Íslendingar stóðu að baki.

Jeg hefi ekki heyrt allar umr., er nú hafa farið á milli hv. þm. Dal. og hæstv. dómsmrh., en þó hefi jeg orðið þess áskynja, að þeim hefir orðið allmjög sundurorða um afskifti þeirra af sjálfstæðismálinu. Hinsvegar þekki jeg hæstv. dómsmrh. svo vel, að jeg veit, að hann bregst ekki í þessu máli. Að vísu hefi jeg sjeð í blöðum orðatiltæki, höfð eftir hæstv. dómsmrh., sem ekki væru geðfeld. ef sönn gætu talist, en það er alkunna, að heldur lítið mark er á takandi, hvað blaðanegrar í öðrum löndum fleipra um sjálfstæðismál Íslendinga eða hafa eftir þeim mönnum, er þeir hafa snöggvast hitt að máli. Er það og alkunna, að allflestir þeirra bera eigi fremur skyn á frelsismál Íslands en skelfiskur. Jeg hygg jafnvel, að stundum hafi verið haft rangt eftir hv. þm. Dal. í útlendum blöðum. — Á hinn bóginn er jeg allskostar ósamþykkur hæstv. dómsmrh. um það, að ekkert lið sje í þm. Dal. í þessu máli. Jeg skoða þau ummæli reyndar sem nokkurskonar kerskiyrði á milli þessara gömlu kunningja, en þeim fylgi lítil alvara, því að allir vita, að fáir hafa gengið betur fram í sjálfstæðismálinu en einmitt hv. þm. Dal. Eru ekki aðrir fremri í flokki Íslendinga nú á dögum í þeirri baráttu en hann. Hitt er alveg rjett, að berjast þarf fyrir mörgu öðru, sem sjálfstæðismálinu er samfara, svo sem öllum atvinnumálum landsmanna og margháttaðri menningu þeirra. En ekki verður úr því dregið, að hv. þm. Dal. hefir staðið í brjóstfylking þeirri, sem barist hefir fyrir sjálfstæðismálinu. Það var hann, fyrstur af nútíðarmönnum, sem kom Dönum í skilning um það, að Íslendingum væri alvara um kröfur sínar að losna úr „ríkiseiningunni“. „Frelsishjal“ okkar — sem Dönum virtist vera — var aldrei borið svo djarflega fram suður við Eyrarsund, að þeir „tækju það alvarlega“, fyr en hv. þm. Dal. lagði málið fyrir konung 1914 og sagði: „Þetta vil jeg hafa fram, eða jeg fer frá völdum“. Hv. þm. Dal. hefir gert Íslendingum ómetanlegt gagn með þeirri einurð sinni, og það er skylt, að hann fái að njóta sannmælis.