15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg ætla, að það hafi verið hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Skagf., sem í þessum umr. mintust á sjerstakt atriði viðkomandi fjármálaráðuneytinu. Og það líti málaferlin milli ráðuneytisins og Einars Jónassonar fyrv. sýslumanns í Barðastrandarsýslu. Þessir hv. þm. vildu gefa í skyn, að einhver mistök hefðu orðið á þessu máli frá hálfu stj. og orðið því að falli. Þeir reyndu og að gera málaflutningsmann stj. tortryggilegan. En af því að þessir hv. þm. fóru rangt með, sem ef til vill hefir stafað af því, að þeir eru ekki kunnugir gangi þessa máls, vil jeg nota tækifærið til þess að gefa hv. d. stutta skýrslu um málið, hvernig það hefir gengið og hvernig það stendur nú.

Mjer skildist á hv. þm. Vestm., að ríkissjóður hefði ekki fengið sjer tildæmt nema 65 þús. kr., eða helming þeirrar kröfu, er hann hafði á hendur sýslumanninum. En gangur málsins er á þessa leið:

Með dómi, uppkveðnum í gestarjetti Reykjavíkur 15. ágúst síðastl., var Einar M. Jónasson dæmdur til að greiða fjmrh. f. h. ríkissjóðs krónur 65112.02 með 5% ársvöxtum frá 16. apríl 1928 til greiðsludags, og var þessi upphæð fje sýslusjóðs, sjúkrasjóðs og ýmsra dánar- og þrotabúa. Í þessu máli var ekki tekin til greina krafa ríkissjóðs (vangreiddar ríkissjóðstekjur) og krafa út af einu dánarbúi. Í þessu sama máli höfðaði E. M. J. gagnsök og krafðist rúmra 90 þús. kr. af ríkissjóði. Gagnkrafan var ekki að neinu leyti tekin til greina, en E. M. J. dæmdur til að greiða 500 kr. í málskostnað. Þessu máli hefir nú E. M. J. skotið til hæstarjettar, og er það nú undir dómi rjettarins.

Með öðrum dómi gestarjettar Reykjavíkur, uppkveðnum 27. mars síðastl., var E. M. J. svo einnig dæmdur til þess að greiða fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs kr. 59457,50 með 5% ársvöxtum frá 20. mars 1928 til greiðsludags, og auk þess kr. 2000.00 í málskostnað. Voru það kröfur þær, er ekki voru teknar til greina í fyrra málinu, sem dæmt var 15. ág. síðastl. Af rjettinum var tekinn til greina hver einn einasti eyrir af ríkissjóðstekjum þeim, sem talið er, að E. M. J. skuldi, og auk þess varakrafa út af dánarbúi einu. Hefir ríkissjóður þannig fengið tildæmt fyrir undirrjetti nákvæmlega alt það, er hann gerði kröfur um út af beinum ríkissjóðstekjum, en dálítið hafa verið lækkaðar kröfurnar út af dánar- og þrotabúum, og er það sumpart gert með samþykki ríkisstj., að fengnum nýjum upplýsingum, og er það aðeins ríkissjóði hagnaður, ef dóm stólarnir líta svo á, að E. M. J. ber ekki ábyrgð á öllu því búafje, er upprunalega var talið, að hann ætti að standa skil á, því að þá eru þeim mun meiri líkur til þess, að ríkissjóður fái dómana að fullu greidda af andvirði eigna þeirra, sem lagt hefir verið löghald á hjá E. M. J.

Þannig eru nú fengnir dómar í undirrjetti fyrir samtals kr. 124569,54 á hendur E. M. J., og má óhætt fullyrða, að mörg mál hafi lengur dregist, sem þó hafa ekki verið eins flókin eins og mál þau, er hjer um ræðir, og úrslit málanna, það sem komið er, á þann veg, að ríkissjóður má mjög vel við una, þar sem alt bendir til þess, að hann fái alt greitt af fje því, sem honum ber frá E. M. J.

Jeg vil geta þess út af orðum hv. þm. Vestm. um borgun til málaflm. stj., Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem hefir haft þetta mál, að hann hefir ekki enn fengið einn einasta eyri fyrir þessi mál greiddan úr ríkissjóði; og allar líkur eru til þess, að mestur hluti þess málskostnaðar, sem leiðir af þessum málum, verði greiddur af eignum E. M. J., en ekki af fje ríkissjóðs. E. M. J. hefir verið dæmdur til að greiða allan málskostnað, og líklegt er, að þær eignir, sem löghald hefir verið lagt á, hrökkvi einnig fyrir honum.

Út af því, hvort málaflm. ríkisstj. fylgi ekki taxta málaflutningsmannafjelagsins, má geta þess, að heimild er samkv. þeim taxta að fara niður fyrir hann allverulega, ef ríkisstj. ræður sjer fastan málaflutningsmann og greiðir honum einhverja smáa ársþóknun. Stj. hefir nú samið við málaflutningsmanninn um að greiða honum 300 kr. þóknun á ári, og mun varla vera unt að komast að betri kjörum um það, enda flytur hann málin fyrir miklu lægra gjald en taxtinn ákveður. Hinsvegar má geta þess, að málaflm. fyrv. stj. mun altaf hafa farið eftir ýtrasta taxta, og íhaldsstj. virðist ekki hafa hirt um að leita betri kjara, þó að hún notaði altaf sama málaflm., og ber það ekki vott um sjerstaka sparnaðarhneigð hjá henni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mikið út í gullmál ríkisins við Íslandsbanka, sem leitt hefir verið inn í þessar umr. Allra síst vil jeg gera málaflm. fyrv. stj. á nokkurn hátt tortryggilegan. Það mun vera rjett, að hann krafðist að fá 5000,00 kr. fyrir undir rjett í því máli, er hann hafði fyrir ríkisstj. gegn Íslandsbanka. Jeg vil ekkert áfella Jón Ásbjörnsson fyrir það og geri ráð fyrir, að þetta hafi verið nákvæmlega eftir taxta, en þó miðað við þær ýtrustu kröfur, sem Íslandsbanki gerði í málinu. En óneitanlega hefði það staðið nær fyrir fyrv. stj. að gera samning við þennan málaflm. sinn um þetta mál heldur en að koma hjer fram nú og reyna að gera málaflm. núv. stj., St. Jóh. Stef., tortryggilegan.

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. hefir sagt um þessi málaferli, að stj. hafi hætt við að áfrýja þeim til hæstarjettar, er það að segja, að um það gat ekki verið að ræða; eins og skýrt hefir verið frá, þá er stj. búin að fá dóm í báðum málunum fyrir undirrjetti, á þann hátt, sem hún má mjög vel við una. Annað þessara mála er undir dómi hæstarjettar, en hinu hefir verið þangað stefnt af E. M. J., og verður sennilega þar flutt í maí eða byrjun júní næstk. Er umsögn hv. 1. þm. Skagf. og annara stjórnarandstæðinga um þessi mál mjög villandi í aðalatriðum, og gefa algerlega ranga hugmynd um, hvernig málin hafa gengið upp á síðkastið.