15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

16. mál, fjárlög 1930

Hákon Kristófersson:

Hæstv. dómsmrh. hefir nú svarað þeim fyrirspurnum, er jeg beindi til hans viðkomandi gjöf Herdísar Benediktsen. En áður en jeg fer frekar út í svar hæstv. ráðh., verð jeg að leiðrjetta dálítinn misskilning, sem kom fram hjá honum viðvíkjandi ummælum, er hann vildi láta mig hafa haft um hv. 2. þm. G.-K. Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út, að jeg hefði verið að bendla hv. 2. þm. G.-K. við vínsmyglun í sambandi við varðbátinn „Trausta“. En það var eitt af vörnum hæstv. ráðh. í Tervani-málinu, að af því að bátur þessi hefði áður orðið uppvís að því að smygla víni inn í landið, þá væri ekki hægt að taka eins mikið mark á honum við landhelgisgæslu. Jeg sagði aðeins, að þó að góð vinátta hefði verið á milli „Trausta“ og hv. 2. þm. G.-K., eins og hæstv. ráðh. vildi halda fram, þá væri það engin sönnun fyrir því, að neitt óheiðarlegt samband hefði verið þar á milli. Sú tilraun hæstv. ráðh., að láta það líta svo út, að jeg hefði viljað sneiða að vini mínum hv. 2. þm. G.-K. í því sambandi, er því algerlega mislukkuð og verður að engu, að öðru leyti en því, að sýna viðleitni hæstv. dómsmrh. í því að leggja miður sæmandi meiningu í mín orð á þann hátt, að reyna til að láta líta svo út, að jeg hefði kastað ásökunum til hv. þm. (ÓTh), sem jeg vitaskuld hefði ekki getað gert nema ljúgandi. En þó að fordæmi sjeu fyrir slíkri framkomu, og jafnvel á hærri stöðum, tel jeg mjer þau ósæmileg.

Þetta var nú aðeins lítilsháttar útúrdúr, sem jeg var knúinn til þess að gera af þeim ástæðum, er jeg hefi nefnt, og kem jeg þá að því máli, sem jeg gerði aðallega að umtalsefni í fyrri ræðu minni, og hæstv. dómsmrh. hefir svarað. Hæstv. ráðh. sagði, að þeir atburðir hefðu gerst viðvíkjandi gjöf Herdísar Benediktsen, sem hefðu gert það að verkum, að rjettlætti hans aðstöðu til málsins. Með því vildi hann gefa í skyn, að ef brugðið hefði verið á annað ráð um framkvæmd málsins en hann hefði nú upp tekið, þá hefði verið gert ógilt það samkomulag, sem orðið hefði á milli Jóns heitins Magnússonar og Magnúsar Friðrikssonar á Staðarfelli. Um þetta atriði er það að segja, að erfitt er að ganga langt inn á það, þar sem um látinn mann er að ræða. Og með skírskotun til þess, er þá hefði gerst, sagði hæstv. ráðh., að komist hefðu á samningar milli þáverandi stj. og Magnúsar Friðrikssonar.

Það má nú vel vera, að þetta sje rjett fram tekið, en jeg lít þá svo á, að ef um samning sje að ræða, þá sje hann ekki grundvallaður á þeirri föstu undirstöðu, sem þó var nauðsynlegt með tilliti til þeirra óska, sem teknar eru fram í gjafabrjefi frú Herdísar Benediktsen.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jeg hefði verið á Alþingi, þegar samningar þessir fóru fram, og því hefði jeg átt að vita um þá. Það er að vísu satt, að jeg átti sæti þá á Alþingi, en hinsvegar hafði jeg enga hugmynd um samninginn, og því síður á hverju hann væri bygður, enda vissi jeg ekkert um hann fyr en tveimur árum síðar. Það mun mála sannast, að ekkert hafi um þetta legið fyrir þinginu þá, a. m. k. ekki opinberlega, en að stj. og fjvn. hafi fjallað um málið og bundið enda á það. Því er það ekki rjettilega að orði kveðið, að jeg hafi þá þegar þolað þetta, þar sem jeg hafði enga hugmynd um, hvað var að gerast.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um gjöf Magnúsar Friðrikssonar og taldi sig bundinn við þann samning, sem þáv. stj. hefði gert henni viðvíkjandi. Um þá gjöf er það að segja, að jeg tel hana verið hafa hagkvæmustu sölu, sem fram gat farið, og gæti jeg því búist við, að seinni tíminn líti svo á, að hann teldi engan við þann samning bundinn. Annars er ekki nema gott að heyra, að hæstv. dómsmrh telur sig bundinn við þá samninga, sem fyrv. stj. hafa gert. (Dómsmrh.: Ekki við það, sem aðrar stj. hafa ilt og rangt gert). En mjer er ekki kunnugt um, að fyrv. stj. hafi gert neitt það, er kallast geti ilt eða rangt, og gæti því hæstv. dómsmrh. með góðri samvisku tekið þær sjer til fyrirmyndar.

En eins og jeg hefi áður tekið fram, þá hefi jeg litið svo á, að úrskurður þessa máls hafi ekki legið undir Alþingi, heldur eingöngu þá aðila, sem nefndir eru í gjafabrjefi frú Herdísar Benediktsen.

Þó að talað sje um, að Herdísarsjóðurinn hafi eignast jörð, sem er 70 þús. kr. virði, þá efast jeg um, að rjett sje að komast svo að orði, enda þykist jeg mega fullyrða, að ekki nokkur lifandi maður hefði viljað gefa svo mikið fyrir jörðina.

Að arðurinn af sjóðnum væri einn of lítill til þess að bera skólann uppi, skal jeg ósagt láta. En hitt var ógerlegt, að ætla að bjarga málinu með því að slá saman þessum tveim hlutum. Nú var kominn tími til þess að láta vilja gefandans njóta sín með því að láta skólann taka til starfa, en þá áttu líka rjettir aðilar að hafa þar hönd í bagga, en það eru sýslunefndirnar í Vesturamtinu (sem komu í staðinn fyrir amtsráðið áður) og stjórnarráðið. Því eins og hæstv. dómsmrh. hlýtur að vera kunnugt um, þá er konungleg tilskipun um það, að störf amtsráðsins leggist undir sýslunefndirnar.

Að aldrei hefði fengist samkomulag á milli sýslunefndanna um að láta skólann fara að starfa, þykir mjer nokkuð djúpt tekið í árinni. Því hefði verið óhætt að treysta, að samkomulag hefði fengist um það, hvenær skólinn skyldi stofnaður. En hitt er satt, að ágreiningur hefir verið um það. hvar í sveit skólinn skyldi standa. En rjettir aðilar, sýslunefndirnar, voru um hvorugt spurðar. Þess vegna er það aukaatriði, þó að hver aðili hafi haft sjerstaklega augastað á þessari eða hinni jörðinni sem mjög vænlegri til skólaseturs. Það er vitanlegt, að í kringum Breiðafjörð eru margar góðar jarðir og höfuðból, sem henta mundu ágætlega sem skólasetur, og má því vel vera, að einhver reipdráttur hefði orðið um staðinn. En úr því að aldrei kom undir rjetta aðila að úrskurða neitt í því efni, þá er ekkert hægt að fullyrða þar um.

Að líklegt sje, að gera hafi þurft breyt. á tilsk., skal jeg ekki leiða neinum getum að. En þá breyt. tel jeg óhagkvæma, ef hún kemur á eftir því, sem þegar er búið að gera og ákveða. (Dómsmrh.: Það er nóg, ef hún kemur á undan framkvæmdunum). Já, það má kannske segja, ef það verður þá gert. En hvernig. hugsar hæstv. dómsmrh. sjer að koma því vel fyrir, þegar verið er að slá saman hlutum með óskyldum nöfnum? Jeg fullyrði að minsta kosti, að það verður ekki hægt áð gera á annan hátt en í beinu ósamræmi við gjafabrjef frú Herdísar Benediktsen.

Jeg býst nú við, að hæstv. dómsmrh. hafi bundið sig svo fast við sínar fyrri ákvarðanir, að ekki verði um þokað. En jeg vildi einungis láta mitt fylsta ósamþykki í ljós, og jeg er ekki í neinum efa um, að jeg mæli þar fyrir hönd hinna rjettu aðila gjafabrjefsins. Jeg hefi aldrei efast um, að hæstv. dómsmrh. sje hugaður maður og hefði þor til framkvæmda, en jeg hefði ekki trúað þeim ódrengskap og þeirri bíræfni að ganga á snið við síðasta vilja deyjandi manns. (Dómsmrh.: Þetta var síðasti vilji Jóns heitins Magnússonar). Við skulum nú ekki gera okkur þau börn að ætla, að hæstv. dómsmrh. sje að leitast við að gera síðasta vilja Jóns heitins Magnússonar, þess ágæta manns. (Dómsmrh.: Jeg breytti eftir boðum skyldunnar). Já, gott er nú að heyra slík orð af munni þessa manns. En jeg vil minna hann á, að í hitteðfyrra samþ. Alþingi lög, sem síðan hlutu hina allrahæstu konunglegu staðfesting, og jeg veit ekki betur en ráðh. hafi algerlega brugðist þeim boðum skyldunnar að láta framfylgja þessum lögum. (Dómsmrh.: Jeg fylgdi fordæmi íhaldsins). Þetta er ekki rjett, því íhaldið braut alls ekki þessi lög, en maður getur sagt, að þau hafi þá ekki verið komin í kraft, þegar íhaldsstj. fór frá völdum. Annars býst jeg við, að það beri lítinn árangur, þótt við sjeum að þrátta um þetta, en jeg er sannfærður um, að það, sem gert verður, verður ekki gert samkv. því, sem það ætti að vera. Jeg held þetta sje helst til mikið einræði af hæstv. dómsmrh., og jafnvel óvænt einræði, því það er nokkur munur á, hvort menn sýna ófyrirleitni í smámálum, ellegar að ganga algerlega á snið við skjallegar ákvarðanir deyjandi manns. Jeg hafði satt að segja alls ekki búist við slíku af hæstv. stj. (Dómsmrh.: Stj. 1921 tók þessa ákvörðun, og þm. studdi þá stj.). Jeg geri ráð fyrir, að örðugt veitist að komast á það hreina í þessu máli, því sá merki aðili, sem hjer ræðir um, er nú dáinn, en hinsvegar get jeg varla trúað því, að stj. 1921 hafi tekið við jörðinni með þessum skilmálum. En jeg vil slá því föstu, að ákvarðanir hæstv. dómsmrh. grundvallast ekki af loforðum eða vilja Jóns heitins Magnússonar. Ráðh. má alls ekki taka þetta illa upp, vitandi það, að aldrei hefir verið sagður helgari sannleikur. Það eru áreiðanlega aðrar hvatir, sem liggja til grundvallar, enda þó svo væri, að fyrirrennari ráðh. hafi gert rangt í þessu, þá er ráðh. hvorki rjett eða skylt að framfylgja því.

Sem sagt býst jeg ekki við, að það þýði nokkuð að tala um þetta úr því sem komið er, en jeg vildi aðeins vekja máls á því til þess að sýna, að þetta alt of mikla einræði hæstv. dómsmrh. hafi ekki farið svo framhjá mjer, að jeg hreyfi ekki andmælum.