27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. landsk. þm. Hann gat þess, að hann mundi fylgja frv. og þeirri meginhugsun, sem á bak við það liggur. Þótti mjer vænt um að heyra þetta. En svo var hann að nefna ýmsa galla, sem hann taldi að væru á frv. Voru það einkum þrjú atriði, sem hann taldi verulega galla á þessu frv., auk annara smáatriða, sem hann lagði minni áherslu á.

Er það þá fyrst ríkisábyrgðin. Ætla jeg ekki að fara að ræða það mál nú, en vil aðeins benda á, að hjer gegnir sama máli sem með Landsbankann í fyrra. Hv. 3. landsk. var á móti ríkisábyrgð til handa Landsbankanum í fyrra og er af sömu ástæðum á móti ríkisábyrgð í þessu tilfelli. Við, sem í fyrra vildum veita Landsbankanum ríkisábyrgð, viljum veita Búnaðarbankanum hana nú, af sömu ástæðum. Þetta atriði er svo þaulrætt frá því í fyrra, að jeg sje ekki ástæðu til að fara inn á það nú. Það kom engum á óvart, þótt menn hjeldu nú fram sömu skoðunum í þessu máli sem í fyrra.

Annað atriði, sem hv. þm. lagði allmikla áherslu á viðvíkjandi þessu, að viðlagasjóður yrði við hann bundinn, var það, að hv. þm. taldi það fylsta óþarfa að hafa slíkan stofnsjóð sem tryggingu, af því að ábyrgð ríkissjóðs væri nóg trygging, og gat þess um leið, að það fengjust ekkert betri lán, þótt þessi stofnsjóður væri. Það er vitanlega alveg rjett, að það fást ekkert betri lán, þótt þessi stofnsjóður sje settur inn í bankann, heldur ef það gert til þess að efla stofnunina, því það, að taka viðlagasjóð inn í með öllu, sem honum fylgir, verður vitanlega til þess að gera Búnaðarbanka Íslands öflugri. Jeg álít, að stofnunin yrði altaf slypp, ef hún yrði að vera eingöngu komin upp á lán, en ætti ekkert sjálf þegar í byrjun. Jeg álít, að það, að fá viðlagasjóðinn inn, yrði til þess að gera hana öflugri, því að þessi lán, sem eru í viðlagasjóði, greiðast smátt og smátt og þá fær stofnunin peningum yfir að ráða, en það er sama og að efla bankann. Í því sambandi orðaði hv. þm. þetta þannig, að fjmrh. ætti að bjarga viðlagasjóði frá þessari eyðileggingu og sagði, að þetta væri að eyðileggja stofnun, sem hefði orðið til mikils gagns undanfarið. Þetta er óviðkunnanlegt orðalag. Eins og það sje nokkur eyðilegging, að viðlagasjóður er látinn ganga inn í Búnaðarbankann. Hann á að fá þar ný verkefni og á að láta verða svipaðan vöxt í atvinnu- og athafnalífi sveitanna eins og orðið hefir í kaupstöðunum undanfarið árabil, og ef hv. þm. athugar þetta nokkru nánar, þá veit jeg, að hann sjer, að þetta er engin eyðilegging. Þegar hv. þm. athugar það, að eins og það er vafalaust, að viðlagasjóður hefir orðið til mikils gagns undanfarið, þá er það og jafnvafalaust, að af þessari breytingu mun ekki stafa nein eyðilegging, heldur mikill hagur fyrir atvinnulífið í sveitunum.

Svo talaði hv. þm. um ákvæði 39. gr., um að stofna til happdrættis í bankavaxtabrjefum. Jeg ætla aðeins að víkja að því, til að láta þess getið, að jeg tel það ekkert höfuðatriði og þess vegna ekkert stórilla farið, þótt hv. 3. og 4. landsk. gætu komið því til leiðar, að þessi gr. yrði feld niður. En eins og jeg hefi getið um áður, þá álít jeg, að það sje rjett, sem Böðvar Bjarkan segir um þetta atriði; sem sagt, jeg legg enga höfuðáherslu á þessa gr.

Auk þess gerði hv. þm. ýmsar smávægilegar aths. við frv. og tók þar að ýmsu leyti undir þær brtt., sem hv. 1. þm. G.-K. hefir borið fram; en að svo miklu leyti sem hv. þm. ekki taldi rjett, að veðdeildin kæmi inn í þetta frv., þá þarf jeg ekki að víkja að því nú, vegna þess að jeg hefi talað um það áður, í sambandi við ræðu hv. 1. þm. G.-K.

Þá bar hv. þm. fram sínar röksemdir fyrir tveim atriðum. Annað var það, að varasamt væri að fjölga tegundum vaxtabrjefa, og hitt, að athugavert væri að greina stranglega að lán til landbúnaðar- og sjávarútvegshjeraða. Jeg veit ekki, hvað fyrra atriðið snertir, hvort það er nokkuð athugavert, þegar það er athugað nánar. Við vitum, hvernig þetta er úti um heim. Jeg er að vísu ekki nægilega kunnugur þessum málum, nema þá hjá sambandsþjóð okkar, Dönum, en þar sjer maður í blöðunum heila dálka, sem eru ekki annað en listar yfir vaxtabrjef ýmiskonar, sem eru til sölu á kauphöllum. Jeg hefi ekki orðið var við, að menn hafi sjeð neitt athugavert við það, að hafa nokkuð margar tegundir bankavaxtabrjefa, og þegar það er þess utan svo, að öll þessi brjef hafa það sameiginlegt, að ríkissjóður stendur á bak við þau með sína ábyrgð, þá hygg jeg, að það verði nokkuð líkur svipur yfir þeim og að þau muni ekki spilla hver fyrir öðrum.

Hin ástæðan, sem hv. þm. bar fram, að varhugavert væri að greina í sundur fasteignaveðslán til kauptúna og sveita, það gæti verið áfallasamt hjer á landi, komið eldgos og öskufall, og svo gæti komið ýms áföll yfir kauptúnin, sem síður kæmu yfir fasteignir til sveitanna; þess vegna væri það heppilegra, að þessir aðilar stæðu saman um að standa af sjer áföllin. Það getur verið nógu gott að segja sem svo, að þetta sje ekki heppilegt þannig, með því fyrirkomulagi, sem hjer er ákveðið, með verðbrjefum, en það er þó ríkið, sem stendur á bak við hvorttveggja, þótt tvær stofnanir gefi út brjefin, svo að þessi skilgreining, sem hv. þm. gerir, finst mjer í raun og veru ekki til, er nánar er að gáð. Þess vegna get jeg ekki fallist á það, að þetta, að fá veðdeildina inn í Búnaðarbankann, sje borið fram sem metnaðarmál eingöngu. Jeg álít að þær ástæður, sem hv. þm. hefir borið fram á móti þessu, hafi ekki við næg rök að styðjast.

Loks voru tvær athugasemdir enn, sem hv. þm. kom með, sem jeg vil fara nokkrum orðum um. Það var fyrst viðvíkjandi fjárútvegun handa bústofnslánadeildinni. En um það er það að segja, að það á ekki eingöngu að útvega henni fje með sölu vaxtabrjefa, heldur á að leggja henni til stofnfje, viðlagasjóðinn, og þar að auki reiðufje úr ríkissjóði. En hinsvegar skal jeg segja það, að jeg er reiðubúinn að taka þetta atriði til athugunar og gæti hugsað mjer, að sett væru einhver bráðabirgðaákvæði um fjárútvegun til bústofnslánadeildarinnar. Jeg geri hiklaust ráð fyrir því, að löggjöfin um bústofnslánadeildina verði endurskoðuð, þegar búið er að koma því í framkvæmd, sem við erum nú að undirbúa, og gert var á síðasta þingi. Hinsvegar álít jeg, að það sje ekki eins erfitt eins og hv. þm. vildi vera láta, að framkvæma endurskoðun á þessari deild, einmitt af því, hvað brjefin eru gefin út til skamms tíma. En samt sem áður álít jeg rjett að athuga, hvort ekki megi með bráðabirgðaákvæðum setja hana á stofn, án útgáfu bankavaxtabrjefa. Hitt álít jeg, að ekki geti komið til mála, að láta rekstrarlánadeild og bústofnslánadeild vera saman. Jeg álít sjerstaklega, að starfsemi bústofnslánadeildar eigi að vaxa svo í framtíðinni, að það eigi að fara af stað með hana út af fyrir sig, og að reynsla næstu ára eigi að sýna það, að hún verði því meiri þegar stundir líða.

Svo kom hv. þm. með bendingu til stjórnarinnar viðvíkjandi heimildunum til lántöku, en um þá bendingu vil jeg segja það, að jeg vil mjög gjarnan taka það til athugunar, hvort ekki væri rjettara að fá eina lántökuheimild, en ekki margar og út um alt, eins og verið hefir. Hæstv. fjmrh. hafði einmitt gert ráð fyrir að leita til þingsins um það, en af því að hv. þm. hefir nú komið með þessa uppástungu, væri mjer mjög kært að mega beina þeirri fyrirspurn til hv. þm., hvort hann og hans flokkur vildi láta slíka heimild í tje. Leyfi jeg mjer að telja þetta bendingu frá hv. þm. um það, að þessi heimild myndi látin í tje. Eftir að stjórnin hefði athugað málið og fallist á það, geri jeg ráð fyrir að farið verði eftir þessari bendingu, ef samkomulag næst.