15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors. Já, „stutta athugasemd“, segir hæstv. forseti. Hann skilur vel, að nú væri ærið efni í langa ræðu.

Jeg vil þá fyrst víkja örfáum orðum að hv. þm. Ísaf. Hann taldi mig hafa talað um ýmislegt, sem jeg hafði aldrei minst á undir þessum umr. Jeg hefi t. d. hvergi minst á danska gullið. En það eltir hann eins og draugur, honum heyrist alstaðar vera verið að tala um það. Og er það ekki nema eðlilegt, því að hann mun mest hafa unnið að þeim sníkjum og líka vita best, hvað af gullinu hefir orðið. Eins var um landhelgisveiðarnar. Jeg talaði alls ekkert um þær. En það er um þær eins og danska gullið, að þær eiga sjer ónotalega sögu fyrir þennan hv. þm. frá því er við keptum um þingsetu í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1926. Þá ætlaði hann að vinna sjer kjörfylgi meðal kjósenda þar syðra með álíka rógi um mig eins og hann fór með nú, en það mistókst algerlega, því eins og menn muna, varð þessi hv. þm. að lúta í lægra haldi, en sýnilega eru sárin enn ógróin.

Jeg ætla alls ekki að fara að gera að umtalsefni í þetta sinn brigsl hæstv. dómsmrh. um mig út af sekt skipstjórans á einum Kveldúlfstogaranna. Því hefi jeg svarað fyllilega áður. En það vil jeg benda hæstv. ráðh. á, að hann hefir unnið mörg miklu verri verk en þessi togaraskipstjóri Kveldúlfs.

Þeirri fyrirspurn hæstv. ráðh., hvort jeg vilji að íslenskir togarar gerist ákærendur erlendra stjettarbræðra sinna, svara jeg hiklaust neitandi. Jeg vil ekki beita mjer fyrir slíku, heldur þvert á móti. Jeg teldi slíkt starf ósamboðið íslenskum sjómönnum, og jeg verð að segja það, að mjer finst nógu mikill ódaunn af þefurunum í landi, þó ekki verði farið að koma upp slíkri stjett meðal sjómanna líka.

Vegna þess hve mjög mjer er takmarkaður tíminn, hefi jeg ekki tækifæri til þess að svara ræðu hæstv. dómsmrh. frá því á laugardaginn. En þó vil jeg taka upp þrjú orð úr henni. Þessi orð ráðh. voru þau, að togaraútgerðin væri „helvíti á jörðu“. Jeg ætla svo ekki að ræða frekar við hæstv. ráðh., um þessi orð. Jeg vildi aðeins taka þau upp eins og ráðh. sagði þau, til þess að hann gæti ekki brjálað þau í þingtíðindunum.

Þá ætla jeg heldur ekki að tala um þær fullyrðingar ráðh., að jeg hafi sagt á Akranesfundinum, að skipherrar varðskipanna vildu drepa hann. Jeg skora á hæstv. ráðh. að sanna þetta, því að slíkur áburður er með öllu ósæmilegur.

Að endingu leiði jeg athygli að því, að þótt hæstv. ráðh. hafi verið lýst vel af mörgum, þá hefir þó engum tekist þar betur en honum sjálfum. Skýrasta vitnið í þessu máli eru fylgismenn hans hjer í hv. deild. Undantekningarlítið hafa þeir allir flúið deildina jafnskjótt og ráðh. hóf mál sitt. Sannar það í senn manngildi ráðh. og hitt, að enn vakir sómatilfinning flokksmanna hans.