15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú dregið í land sinn litla bát eftir mikinn bægslagang í deildinni. Hann byrjaði fyrstu ræðu sína við þessa umr. með svo slorugu orðbragði, að jafnvel ljelegustu flokksbræður hans fyrirurðu sig hans vegna og neyddust til þess að gefa honum tilhlýðilega áminningu. Þegar hann því kom upp í annað sinn, hagaði hann sjer nokkru betur. Enda var hann þess þá meðvitandi, að hann hefði gert flokki sínum til stórskammar, og auk þess hafði hann í millitíð fengið ítarlega hirtingu hjá mjer, ekki með stóryrðum, heldur með þungum rökum. Í þessari stuttu ræðu, sem hann flutti nú síðast, tókst honum að segja margt, sem lýsir honum ennþá betur en margt, sem hann hefir sagt áður. Hann byrjaði á því að segja, að hann vildi ekki láta skipstjóra sína koma upp um erlenda sökudólga, af því að hann vildi ekki hafa þefara á sjónum. En ef það er rjett, sem Ág. Flygenring sagði hjer fyrir nokkrum árum, er það alt annað en umhyggja fyrir öðrum, sem kemur hjer fram hjá hv. þm. Það er beinlínis meðvitundin um eigin sekt.

Annars var það gleðilegt, að hv. þm. skyldi minnast á „þefarana“, sem íhaldsmenn nefna svo, því að það gaf tilefni til þess að geta þess hjer, að enginn maður hefir uppnefnt löggæslumennina og kallað þá þefara eins og hann og það pólitíska hyski, sem að honum stendur. Og það mun hafa verið aðalbílstjóri þessa hv. þm., sem síðastliðið sumar dreifði út lygasögu um einn löggæslumanninn og sjálfan sig. Þóttist þessi vikapiltur Kveldúlfs hafa ráðist á einn löggæslumanninn á förnum vegi með ofbeldi. Sem betur fór fyrir hv. 2. þm. G.-K. var þetta ein fróm ósk hjá þessari undirtyllu hans, máske öllu heldur ósk sjálfs þm. Því að ef athöfnin hefði verið framkvæmd, mundi þm. nú bílstjóralaus, því að piltur sá myndi, ef hann hefði framkvæmt hin umgortuðu fólskuverk, sitja nú undir lás og loku uppi á Skólavörðustíg.

Þá var hv. þm. að kvarta um það, að jeg hefði sneitt að sjer fyrir óleyfilega meðferð á víni. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm. Jeg hefi ekki beint neinu slíku að honum. En annars hefir enginn kastað meiri skugga á hann í þessum efnum en einmitt hann sjálfur. Eins og t. d. þegar hann sagði á fundi í Borgarnesi í sumar þessi frægu orð um sjálfan sig: „Fullur í dag og fullur í gær, og fullur líklega á morgun“. Að vísu gat hv. þm. fengið dálítinn hóp af strákaskríl til þess að klappa fyrir þessari yfirlýsingu. En allir almennilegir menn fengu megnustu óbeit á þessum strákskap. En hv. þm. var mjög hreykinn yfir þessu, því að hann hefir alls enga tilfinningu fyrir því, sem honum er til skammar.

Á þingmálafundi einum síðastl. haust var það sagt um þennan hv. þm., að það eina, sem hann virtist vera fallinn til, væri að vera skopleikari í ljelegu hlutverki við hið væntanlega þjóðleikhús. Jeg hefi enga lýsingu heyrt af honum, sem hefir hitt hann betur, því að hann er alvörulaus í hverju máli og gersneyddur öllum hugsjónum, eins og sjá má á því, að í þau ár, sem hann hefir átt sæti á þingi, hefir hann ekki borið fram eitt einasta frv., sem hann hefir hugsað sjálfur. Þegar hann kemur á fundi, byrjar hann strax að blaðra innihaldslaust bull og er ekkert nema montið, yfirlætið og strákskapurinn, þegar hann er sem hann sje liðamótalaus um hnjen, enda hjeldu Akurnesingar í haust, að hann hefði trjefætur, og skoðuðu hann eins og annað skrípi, jafnt í ræðumensku sem annari framkomu.

Þegar hv. þm. vjek að mjer í síðustu ræðu sinni, sagðist hann ætla að nota tækifærið til þess að skjalfesta nokkur orð, sem hann taldi mig hafa sagt, en sem jeg vitanlega aldrei sagði. Það, sem jeg átti að hafa sagt, var það, að togaraatvinnureksturinn væri „helvíti á jörðu“. En það, sem jeg sagði, var á þá leið, að jeg teldi líf sjómannanna á togurunum líkast „helvíti á jörðu“, þegar þeir yrðu að þrælahvíldarlaust nær allansólarhringinn dag eftir dag og gætu ekki fengið að þvo sjer eins og siðaðir menn, hvað þá meira, aldrei komið úr óhreinu görmunum á sjónum, varla hugsanlegt að opna nokkurntíma bók, og sjá ekki sína nánustu nema á flugferð nokkrum sinnum á ári. Og svo þegar búið er að útslita þessum mönnum með óskaplegum þrældómi, þá er þeim kastað út á gaddinn.

Þegar jeg nú að síðustu skil við þennan hv. þm. undir þessum umr., dettur mjer í hug dálítið atvik. (EJ: Enga sögu nú). Það er alls ekki saga um hv. 1. þm. Rang., enda þótt enginn maður hafi jafnmikið af hlægilegheitum hangandi við sig eins og hann og enginn maður þurfi að vera eins hræddur við fortíð sína eins og hann.

Merkiskona ein hjer í bænum var að tala um það svo jeg heyrði, hve undarlegur maður hv. 2. þm. G.-K. væri, og hallaði töluvert á hann, og verð jeg að segja, að mjer kom það dálítið undarlega fyrir, þar sem kona þessi var mjög rjetttrúuð íhaldskona. Fór jeg því dálítið að berja í brestina fyrir þm. En þá segir konan: „Hvernig stendur þá á því, að ekkert gott liggur eftir þennan mann?“. Jeg hafði reynt að halda uppi veikri vörn fyrir þennan hv. samþm., en við þessi orð varð jeg að þagna, því að þau voru óhrekjanleg.