15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

16. mál, fjárlög 1930

Lárus Helgason:

Umr. þessar hafa nú staðið hartnær í viku; er því tæplega rjett að bæta miklu við þær, enda þótt við framsóknarmenn höfum ekki gert mikið að því að lengja þær. Við höfum látið ráðh. eina standa fyrir svörum, og hefir þeim síst veitst það erfitt. Að vera svo að brigsla þessum tveimur mönnum um það, að þeir hafi verið óhæfilega langorðir, er hreint og beint hlægilegt, þar sem þeir tveir einir hafa orðið að standa á móti öllum íhaldsmönnum deildarinnar, þangað til þeir hafa verið búnir að tala sig „dauða“. Ef hv. íhaldsmönnum hefði verið ant um, að umr. þessar drægjust ekki úr hófi fram, hefði þeim verið innan handar að koma sjer saman um vissa menn til þess að ganga fram fyrir skjöldu. Hefði slíkt fyrirkomulag verið ólíkt eðlilegra, því að allir vita, hve óhemju mikið slíkar umr. sem þessar kosta. Að nokkuð hafi komið nýtt fram í þessum umr. af hálfu stjórnarandstæðinga, er fjarri öllu lagi. Hafa ræður þeirra nær eingöngu verið margföld upptugga úr blöðum, og hefir því þurft stökustu þolinmæði til þess að sitja undir þeim. Af andstæðingum stj. hefir meðal annars verið talað um fjáreyðslu og bitlinga, og það vill svo til, að þetta hvorttveggja snertir mig persónulega að dálitlu leyti. Hv. þm. Borgf. sagði, að Helga syni mínum hefðu verið veittar 1000 kr. til utanfarar og taldi það með óþarfa eyðslu stj.

Það mun nú ekki leika á tveim tungum, a. m. k. meðal þeirra, sem vel þekkja til rekstrar áfengisverslunarinnar, að þar hafi verið margt, sem ekki hafi verið óþarfi að bæta úr, enda hafa starfshættir þar allmjög verið færðir til betra horfs síðan skift var um forstjóra verslunarinnar. Og eitt af því, sem gert hefir verið til þess að koma betra skipulagi á rekstur verslunarinnar, var það, að senda son minn til Noregs til þess að kynna sjer rekstur slíkra verslana þar, og þori jeg hiklaust að fullyrða, að sú för hefir borið góðan árangur. Því til sönnunar vil jeg t. d. benda á eitt atriði, víngeymsluna. Áður voru vínin geymd í mjög vondum geymslum, þar sem þau hlutu að skemmast að meira og minna leyti. Þannig voru t. d. vín, sem ekki þola nema 8 st. hita, geymd við 20 til 30 st. hita.

Þessu var þegar breytt, eftir að Helgi kom utan, eftir því sem frekast var unt, sem var í júlímán. síðastl. sumar. Auk þessa var ýmsum starfshögunum breytt, svo að nákunnugir menn telja, að þær breyt. einar spari einn starfsmann við afgreiðslu vínanna, eða 300–400 kr. á mánuði í útgjöld. Hvað laun Helga snertir, þá hefir hann fengið 150 kr. minna á mánuði en fyrirrennari hans, enda þótt hann hafi síst minna verk á hendi. Mismunurinn verður því 1800 kr. á ári á launum þessara tveggja manna. Sje svo þeirri upphæð bætt við laun eins manns, sem sparast á starfsmannahaldi verslunarinnar fyrir bættar starfsaðferðir, er sýnilegt, að ríkissjóður fær vel borgaðar þúsund krónurnar þegar á fyrsta ári, án þess þó að tekið sje tillit til þess, hve mikið græðist á því, að vínin halda ekki áfram að skemmast, fyrir bætta geymslu.

Jeg vænti nú, að þessi fáu orð nægi til þess að sýna fram á það, að það hefir síst orðið til óhagnaðar fyrir ríkissjóð, þó að syni mínum væri veittur þessi umræddi utanfararstyrkur, þar sem þegar hefir sparast fyrir ríkissjóð margfalt meiri upphæð.

Þá hefir mikið verið gert að því að telja upp bitlingamenn stj., og sá jeg í blöðunum, að jeg er talinn einn af þeim, og mun þar líka vera átt við son minn. Vil jeg því benda á, að áður en hann komst að starfi sínu sem bókhaldari við áfengisverslunina, var hann í heimkynnum sínum austur á Síðu og hafði þar síðustu árin um 3000 kr. á ári, en það voru fyllilega eins góð laun eins og hann hefir hjer nú, sje tekið tillit til þess, hve miklu dýrara er að lifa hjer en þar eystra. Mjer var því síst greiði gerður með því, að hann færi úr plássinu, þegar líka þar við bættist, að maður sá frá S. Í. S., sem var við endurskoðun Kaupfjelags Skaftfellinga, lagði það mjög eindregið til, að Helgi væri fenginn til þess að taka við forstöðu fjelagsins, og voru honum þá boðnar 6000 kr. í árslaun, auk ókeypis húsnæðis, en hann þáði ekki það boð. Að hann ekki gekk að þessu tilboði, gat jeg ekkert við ráðið, því að það er ekki nema eðlilegt, að hann rjeði sjer sjálfur, þar sem hann er nú orðinn fullra 27 ára að aldri. Hjá honum mun mestu hafa um ráðið það mikla aðdráttarafl, sem Reykjavík hefir.

Það hljóta nú allir að sjá, að mjer hefir síst verið þægð í því, að hann tók það hlutskiftið að setjast að hjer í Reykjavík, en þó er þetta kallað bitlingur til mín. Þessu líkar býst jeg við, að flestar aðfinningar íhaldsflokksins sjeu, þótt til þeirra hafi gengið nær því vika af þeim tíma, sem liðinn er af þessu þingi.