17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vildi aðeins mæla örfá orð með þeirri brtt. á þskj. 345, er jeg flyt þar ásamt hv. þm. Ísaf. Það er alt rjett, sem hann hefir þegar sagt um þennan Ólaf Stefánsson. Aðeins vil jeg bæta því við, að þessi maður var einn af bestu handiðnamönnum vestur þar. Hann er algerlega eignalaus. Mundi honum falla það mjög þungt, ef hann þyrfti að gefast upp vegna þessa sjúkdómskostnaðar. En eins og hv. þm. Ísaf. sagði, er það sanngjarnt, að þeir, sem verða að leita sjer lækninga til annara landa vegna þess að hún fæst ekki á sjúkrahúsum hjer, fái nokkra hjálp frá ríkinu. Það hefir verið svo um ýmsa starfsmenn ríkisins og embættismenn, sem leitað hafa sjer lækninga erlendis, að þeim hefir verið veittur sjúkrastyrkur. Og þar sem svo sjerstaklega stendur á eins og í þessu tilfelli, þá finst mjer það blátt áfram skylda fjárveitingavaldsins að hlaupa undir bagga. Jeg skal taka það fram, að jeg talaði við Ólaf nú fyrir nokkrum dögum. Hafði hann þá betri von um það, að heilsa sín mundi batna. En það, sem lá honum þyngst á hjarta, var það, að ef hann fengi enga hjálp, þá neyddist hann til þess að leita á náðir hins opinbera. Vænti jeg þess, að hv. þdm. sjái nauðsyn þessa máls og hjálpi þessum manni með því að greiða atkv. með þessari brtt.

Þá vildi jeg mæla örfá orð um lendingarbætur í Hnífsdal. Fyrir hv. fjvn. lá beiðni frá Hnífsdælingum um að styrkja þá til þess að koma upp hjá sjer bátabryggju. Hv. n. hefir ekki sjeð sjer fært að taka þetta upp í till. sínar, og má vera, að það sje af því, að þeir fóru fram á nokkuð hærri styrk en venjulegt er, eða alt að helmingi kostnaðar. Gert er ráð fyrir, að þessi bryggja kosti um 80 þús. kr., svo það yrðu þá samkv. umsókninni 40 þús. úr ríkissjóði. En þess er rjett að geta, að þessi upphæð gæti skiftst niður á nokkur ár. Því samkv. því, sem verkfræðingur sá, er hefir athugað þetta, segir, þarf ekki að ljúka verkinu öllu í einu.

Það eru óvenjulegir örðugleikar, sem þessir duglegu sjómenn þarna í Hnífsdal hafa við að stríða. T. d. verða þeir að flytja bátana til Ísafjarðar að enduðum róðri. Í Hnífsdal er engin bryggja, og verða þeir að skipa fiskinum upp á smábátum, og tekur það oftast 3–5 tíma að flytja fiskinn í land. Má nærri geta, hvað það tefur tilfinnanlega mikið fyrir, þegar mikið aflast, eins og t. d. nú í vetur. Jeg mun við 3. umr. flytja brtt. í þá átt, að þessir menn verði styrktir, en jeg veit ekki ennþá, hve há hún verður. Þarf jeg fyrst að fá ýmsar upplýsingar. En jeg vildi aðeins benda á nauðsyn þessa máls nú við þessa umr.

Þá er jeg mjög þakklátur hv. fjvn. fyrir það, að hún skyldi hækka framlögin til símalagninga um 50 þús. kr. Vildi jeg mega vænta þess, að af þeim lið verði varið um 30 þús. kr. til þess að leggja símalínu frá Ögri um Æðey til Snæfjallastrandar. Þessi lína hefir verið í símalögunum síðan 1913. Um nauðsyn þessarar línu hefir áður verið talað hjer. Hitt vita máske ekki allir, að aldrei hefir verið eins greinileg nauðsyn fyrir þessa línu og nú. Kom það best í ljós í vetur. Þá vildi svo til, að Djúpið fyltist af fiski og rjeru allir að vestanverðu og fiskuðu ágætlega. En vegna þess að ekkert símasamband var, vissu þeir norðanmegin Djúpsins ekkert um þetta, því þá voru engar samgöngur í marga daga. Meðalafli manna vestanmegin mun hafa verið 150 kr. hlutur þá 10 daga, sem fiskgangan stóð við. Hefðu nú menn norðanmegin Djúpsins vitað um þetta, hefðu þeir fengið sama afla. Hafa þeir því beinlínis tapað 8–10 þús. kr. á því að hafa ekki síma. Auk þess er það svo með beitu, að hún aflast eingöngu vestanmegin, og vita þeir norðanmegin ekkert um það, hvenær beita aflast, fyr en þeir komast í símasamband. Á þetta vildi jeg benda og þætti vænt um að heyra allt hv. frsm. fjvn., hvort n. ætlast ekki til, að af því fje, sem fara á til símalagninga 1930, fari um 30 þús. kr. í þessa símalínu.