17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

16. mál, fjárlög 1930

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg flyt hjer eina brtt. á þskj. 345 VI., ásamt hv. þm. N.-Þ., þess efnis, að Unni Vilhjálmsdóttur verði veittur sjúkrastyrkur að upphæð 1500 kr., og til vara 1200 kr. Síðasta þing veitti henni nokkurn styrk til dvalar erlendis. Í sumar átti jeg þess kost að hitta hana og tala við lækni hennar. Upplýstist þá, að hún þyrfti að dvelja 1–2 árum lengur en gert hafði verið ráð fyrir, ef nokkur batavon ætti að vera. Læknir hennar ráðlagði henni mjög að dvelja áfram, og í einkasamtali við mig sagði hann, að ef sú breyt. yrði á högum hennar, að hún þyrfti bráðlega að hverfa frá sjer, þá teldi hann fullvíst, að hún fengi engan bata, því taugaveiklun hennar væri á háu stigi. Vona jeg, að hv. þdm. taki vel undir þessa beiðni, með því líka að það er skilyrði þess, að sá styrkur, er hún fjekk í fyrra, komi að nokkrum notum. Hinsvegar býst jeg við, að þetta verði síðasta eða næstsíðasta veiting, því dugi ekki eins eða tveggja ára styrkur í viðbót, þá mun sennilega lítil batavon, og því ekki hætta á því, að aftur verði leitað á náðir Alþingis.