17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhann Jósefsson:

Jeg á eina brtt. við þennan kafla fjárl. Er hún á þskj. 347, VII., um að veita Þorgils Þorgilssyni nokkurn utanfararstyrk til heilsubótar. Þessi maður varð fyrir því slysi 1911 að detta af hestbaki. Hlaut hann slík meiðsli af því, að hann varð máttlaus í vinstra handlegg. Síðan hefir hann oft haft miklar kvalir í honum og oft svo, að hann má heita friðlaus. Hann hefir að vísu verið svo heppinn að fá atvinnu við skriftir, en er vitanlega alls ekki liðgengur til vinnu, ef út í það væri farið.

Þessi maður hefir hvað eftir annað leitað læknisráða bæði hjá Ólafi Lárussyni og Guðmundi Thoroddsen. Ráðlagði hinn síðarnefndi honum að fara til útlanda og vita, hvort hann gæti ekki fengið einhverja bót meina sinna, a. m. k. við kvölunum. Væri ekki óhugsandi, að einhver sjerfræðingur gæti ef til vill hjálpað honum, svo að handleggurinn yrði honum einhvers virði.

Jeg þarf ekki að lýsa því, að hjer er um mjög fátækan mann að ræða, sem hefir fyrir fjölskyldu að sjá og getur því ekki komist þetta án einhverrar hjálpar. Leitaði hann því til hv. fjvn., en hún hefir ekki sjeð sjer fært að verða við beiðni hans. Hefi jeg því flutt þessa brtt., til þess að geta komið tilmælum þessa manns að á þeim vettvangi, er hv. fjvn. er ekki einráð um það, hversu fer með slíkar beiðnir. Jeg þarf svo ekki að fjölyrða um þetta, en vil aðeins bæta því við, að allir hljóta að skilja, hvílík kvöl það hlýtur að vera fyrir mann að verða fyrir svona slysi á besta aldri. Það eru ekki aðeins líkamskvalir, sem hann verður að líða, heldur bætast þar við þær hugarkvalir, sem maðurinn hlýtur að líða. Það er vitanlega vandi að velja á milli allra þeirra, sem hjálpar þurfa. En það sýnist þó ekki hvað síst ástæða til þess að hjálpa fjölskyldumönnum, sem berjast í bökkum og eru að reyna að komast hjá því að leita á náðir hins opinbera. Að lokum vil jeg vekja athygli hv. þdm. á því, að jeg hefi líka borið fram varatill., ef aðaltill. skyldi ekki ná fram að ganga. Því þó að sú upphæð sje að vísu ekki nægileg, þá hygg jeg, að góðir menn mundu fást til þess að ljetta undir með Þorgils, svo að hann gæti komist utan.