17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

16. mál, fjárlög 1930

Bernharð Stefánsson:

Hv. frsm. n. og hæstv. fjmrh. hafa báðir hvatt til varfærni í afgreiðslu fjárlaganna, og vil jeg síst af öllu draga úr því. Samt hefir það nú farið svo, að jeg hefi leyft mjer að bera nokkrar brtt. fram á þskj. 345, sem vitanlega hafa nokkra hækkun á gjaldaliðnum í för með sjer, en til þess þykist jeg hafa sjerstakar ástæður og þykist geta afsakað það fyllilega. Þessar till. mínar eru að mestu leyti fjárbeiðni fyrir Siglufjarðarkaupstað. Þessi kaupstaður er ungur, eins og menn vita, en í hröðum vexti, og þess vegna er þörf á miklum umbótum til þess að fullnægja vaxandi fólksfjölda. Bæjarfjelagið hefir sjálft gert miklar umbætur nú á síðari árum, en notið lítils styrks frá ríkissjóði; í samanburði við önnur bæjarfjelög, en þessi bær gefur þó ríkissjóði mjög miklar tekjur beint og óbeint. Ennfremur vil jeg benda á það, að þegar fje er veitt til umbóta á Siglufirði, þá kemur það fleirum að notum en bæjarbúum einum, því að ekkert bæjarfjelag á landinu veitir utanbæjarmönnum meiri hlunnindi.

Brtt. mína er að finna í III. lið á þskj. 345. Fer hún fram á fjárframlög til sjúkrahússins á Siglufirði. Síðan jeg skrifaði þessa till. hefi jeg fengið upplýsingar um það, að þegar er ákveðið að veita sjúkrahúsinu 8000 Kr. viðbótarstyrk af fje því, sem í núgildandi fjárl. er veitt til sjúkrahúsa. Ennfremur hefir landlæknir lýst yfir því við mig, að hann muni á sínum tíma leggja til, að veittur verði hlutfallslegur styrkur til viðbótarbyggingar og röntgentækja. Treysti jeg því, að hv. stj. muni fallast á till. hans í þessu efni og skoða það sem loforð, ef mótmæli koma ekki fram. Tek jeg því þessa till. aftur.

IX. liður á þessu sama þskj. fer fram á, að tillagið til Öxnadalsvegar verði hækkað um 5000 kr. Að jeg get ekki látið mjer nægja 10000 kr., sem ætlaðar eru á fjárlfrv., er af sjerstökum ástæðum, sem jeg vona, að hv. deild geti tekið til greina. Í fyrsta lagi var því fje eytt í fyrra haust, sem ætlað var í núgildandi fjárl. til þessarar vegagerðar, og því býst jeg við, að ekki verði hægt að vinna mikið að verki þessu þetta ár, nema brtt. verði samþ., en þá mundi mega taka t. d. þessa 5000 kr. hækkun og vinna fyrir hana á þessu ári. Orsökin til þess, að fjeð var greitt fyrirfram, var sú, að öll áhersla var lögð á það síðastl. ár að koma veginum að brú einni, sem verið var að byggja. önnur ástæðan er alveg sjerstök að mínum dómi, og hún er sú, að bifreiðaferðir hófust síðastl. sumar milli Borgarness og Akureyrar, en það gat aðeins skeð sökum þurkanna, sem þá voru, en ef vætutíð kemur, er það enginn vegur. Jeg hefi fyrir mjer orð bifreiðastjóranna um það, að slíkar ferðir geti ekki haldið áfram nema því aðeins, að áhersla verði lögð á að gera veginn sæmilegan, og öllum ber saman um það, að hvergi á þessari leið sjeu eins miklar hindranir og í Öxnadal, ef eitthvað ber út að með tíð. Þess vegna verður að leggja áherslu á þennan veg, ef bifreiðaferðir milli Akureyrar og Borgarness eiga að geta haldið áfram, en þess held jeg allir óski.

Þá hefi jeg farið fram á, að 7000 kr. verði veittar til byggingar vita á Selvíkurnefi við Siglufjörð, gegn jafnmiklu framlagi frá Siglufjarðarkaupstað. Um þennan vita er það að segja, að vitamálastjóri hefir lagt til, að hann verði bygður, en álítur, að ríkinu beri ekki að leggja honum styrk, heldur telur, að hann sje hafnarviti, sem Siglufjarðarkaupstaður eigi einn að kosta. En þessi skoðun vitamálastj. finst mjer ekki hafa við full rök að styðjast. Má benda á, að skip, sem fara inn á Eyjafjörð án þess að koma við á Siglufirði, mundu hafa full not af vita þessum, og þess vegna verð jeg að líta svo á, að hann sje ekki einungis hafnarviti. Alþ. hefir líka veitt fje til vita, sem jeg álít, að líkt sje ástatt um, til dæmis á Hjalteyri og Svalbarðseyri. Það má vel vera, að hv. fjvn. leggist á móti þessari till., en jeg verð þó að álíta, að hjer sje aðeins um sanngirniskröfu að ræða, og vænti því, að hún nái samþ. hv. deildar.