17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

16. mál, fjárlög 1930

Halldór Stefánsson:

Jeg vil leyfa mjer að gera nokkra grein fyrir þeirri einu brtt., er jeg á við fjárl. og sem er á þskj. 355, 1. brtt. á því þskj., að í 13. gr. sje bætt inn nýjum lið til Vopnafjarðarvegar, 10 þús. kr. Síðastl. ár, 1928, var í fyrsta sinn veitt fje í fjárl. til vegagerðar í þessu hjeraði. Og í þessa árs fjárl. er líka dálítil upphæð, sem unnið verður fyrir í sumar. En svo undarlega bregður nú við, að í fjárlfrv. stj. er ekkert ætlað til þessa vegar. Þetta hjerað er illa vegað, sem skiljanlegt er. Er því óviðunandi, að framkvæmdir til vegabóta sjeu algerlega látnar niður falla nú, þegar loks er byrjað á þeim. Ekki síst þegar þess er gætt, að fje er ætlað í ríflegra lagi til annara vega, og hagur ríkissjóðs má teljast fremur góður. Hjer er aðeins farið fram á smátt. En þó er það til hugnunar og nokkurra bóta, ef veitt verður. Jeg get sætt mig við lítið, en ekki algerða stöðvun. Jeg hefði vitanlega getað gert aðrar brtt. til lækkunar á öðrum liðum, svo heildarupphæð hækkaði ekki, þótt þetta væri veitt. En jeg veit, að þörfin er alstaðar og að mönnum er sárt, að úr þeirri upphæð sje dregið, sem stungið hefir verið upp á og komið er inn í frv. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Vona jeg, að hv. fjvn. taki vel í mál mitt, einkum þar sem þetta er sú eina till. til hækkunar á fjárl., sem jeg hefi borið fram.