17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

16. mál, fjárlög 1930

Haraldur Guðmundsson:

Mjer þykir snúast kynlega sparnaðurinn hjá hv. frsm., þar sem hann vill telja hv. deild trú um, að sparnaðartill. mín og hv. þm. Borgf. sje fjáreyðslutill. Verði hún samþ., lækka gjöldin í fjárlögunum um 10 þús. kr., og í raun og veru um 12 þús. kr., því að stj. hefir áætlað gengismuninn 2000 kr. of lítinn.

Mjer skildist, að hv. frsm. óttist, að krónan mundi nú alt í einu rjúka upp í gullgildi. Það skyldi gleðja mig, ef svo færi. En undarleg þykja mjer þessi ummæli eftir þær umr., sem hjer hafa farið fram í þessari hv. deild um það mál. Af þeim mætti ráða, að munur sá, sem nú er á danskri og íslenskri krónu, mundi haldast nokkurnveginn óbreyttur fyrst um sinn. En til þess að ljetta öllum ugg af hv. frsm. um þessi efni, skal jeg lofa honum því, ef hann æskir þess, að bera fram brtt. við 3. umr. um það, að þessi breyting á krónutölu til sendiherra og utanríkismála komi því aðeins til framkvæmda, að gengismunur sá, sem nú er, haldist óbreyttur. Hitt er alveg sjálfsagt, að telja upphæðina í ísl. krónum, en ekki erlendum gjaldeyri, t. d. dönskum. Í íslenskum lögum er borðfje konungs ákveðið 60 þúsund ísl. krónur. Núv. stj. hefir laumað gengismuninum inn í fjárl.frv.; en áður var hann ólöglega greiddur af fyrv. stj.

Þó að mjer þyki það leitt, verð jeg að álíta, að hv. frsm. hafi naumast sagt satt, er hann ljetst vera þeirrar skoðunar, að till. okkar færi fram á aukna fjárveitingu, heldur hafi hitt verið ástæðan, að hann vilji ekki, að niður falli þessi uppbót til konungs; væri þó einhverjum öðrum embættismanni fremur þörf uppbótar, og enginn hefir unnið minna til hennar. Þessi till. okkar horfir til sparnaðar á landsfje, en ef ekki þarf að spara, þá mætti áreiðanlega margt þarfara með þetta fje gera.

Þá skal jeg víkja örfáum orðum að brtt. minni og tveggja annara hv. þm., undir tölul. IV. á þskj. 345, um 3000 kr. lækningastyrk til Ólafs Stefánssonar á Ísafirði. Hv. frsm. tók bað fram fyrir hönd fjvn., að umsókn þessa manns væri alveg hliðstæð öðrum umsóknum, sem ekki hefði verið sýnt, og því gæti hann ekki mælt með, að hún væri tekin til greina. Jeg get ekki viðurkent, að þetta sje rjett. Mjer er eigi kunnugt um, að svo standi á fyrir öðrum þeim, er sótt hafa um sjúkrastyrk, að vonlaust sje um, að þeir geti fengið lækningu hjer á landi. Eftir læknisráði leitaði hann til þess eina staðar, þar sem von var um að fá bata við þessum sjúkleika. Það var eina vonin. Annars var dauðinn vís. Til viðbótar því, sem hv. þm. N.- Ísf. sagði, ættu þessar upplýsingar að nægja til að sýna, að ekki stendur eins á fyrir þessum manni og öðrum þeim, sem sótt hafa um slíka styrki.