27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru einungis örfáar athugasemdir, sjerstaklega viðvíkjandi einu atriði, sem jeg kem að síðar. En jeg vil geta þess strax, út af því, sem hv. 3. landsk. sagði um fjáröflun bústofnslánadeildarinnar, þá er jeg reiðubúinn til að taka það til frekari athugunar til 3. umr. Það væri þá helst á þá leið, skilst mjer, að 52. gr. væri breytt og sett í svipað horf og 11. gr.

Um hinar almennu aths. hv. þm. um ríkisábyrgð get jeg verið fáorður. Hann talaði mikið um ljettúð og gáleysi í þessum efnum, ef ábyrgð ríkisins væri að baki. En mjer finst nú þessar aths. eiga engu síður við, þótt útgáfa brjefanna sje í einu lagi, eins og hann vill vera láta, eða hvort þau eru gefin út í tvennu lagi, gegn veði í jarðeignum annarsvegar og hinsvegar veði í fasteignum í kaupstöðum. Í báðum tilfellum stendur ábyrgð ríkisins að baki, svo að þessi ljettúð, sem þm. talar um, gæti komist að, hvort sem brjefaútgáfan væri tvískift eða ekki.

Það er rjett hjá hv. þm., að Búnaðarbankinn gæti ekki leyst úr öllum þeim verkefnum, sem viðlagasjóður hefir hingað til haft með höndum. En svo sagði hv. þm., að Búnaðarbankinn gæti ekki leyst úr þeim verkefnum, sem viðlagasjóði er ætlað að gera eftir fjárlögunum. Þetta er ekki rjett. Jeg hefi fjárl.frv. hjer við hendina í þeirri mynd, sem jeg bar það fram, svo að ganga má úr skugga um þetta atriði. Í 22. grein frumvarpsins er ákveðið, til hvers megi veita lán úr viðlagasjóði. Það eru fimm tegundir lána, og ætla jeg, að bankinn muni geta staðið straum af þeim öllum. Fyrst eru lán til frystihúsa á kjötútflutningshöfnum, þá osta- og smjörbú, til kaupa á girðingarefni, til þurrabúðarmanna til jarðræktar og húsabóta, og loks til verkamanna í kaupstöðum til jarðræktar. Allri þessari lánsþörf á Búnaðarbankinn að fullnægja, auk þess sem hann hefir mun betri aðstöðu, til þess heldur en viðlagasjóður. En það skal jeg játa, að ýmislegt annað, sem viðlagasjóður hefir lánað fje til, hefir ekki eins greiðan aðgang og sumpart engan að Búnaðarbankanum, og álít jeg það út af fyrir sig heppilegt, að viðlagasjóður starfi á þrengra sviði en áður.