18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Jónsson:

Jeg á hvorki margar nje stórar brtt. við fjárl. og get því látið mjer nægja fá orð. En áður en jeg fer að tala um brtt., vil jeg minnast á eitt atriði úr ræðu hv. frsm. Jeg tók eftir því, að hann sagði, að n. hefði vísað frá sjer öllu því, er snerti hátíðahöldin 1930. Það vildi hún alt láta koma á einn reikning. Mjer er ekki skiljanlegt, hvernig þetta má verða. „Reikningur“ þessi mun vera væntanlegur reikningur undirbúningsnefndarinnar. En nefndin hefir ekki heimild til þess að fást við neitt annað en það, sem varðar sjálf hátíðahöldin, og þó helst á Þingvöllum. Á hinn bóginn er mjer kunnugt um, að ýmsar umsóknir hafa borist hátíðanefnd, sem hún getur ekki með nokkru móti tekið á sinn reikning. T. d. má nefna umsókn frá stúdentum um styrk til að halda norrænt stúdentamót 1930. Þetta mót verður algerlega óviðkomandi hátíðinni. Það verður að öllum líkindum haldið á undan og verður á engan hátt liður í hátíðahöldunum. Þar fyrir getur það verið mjög heppilegt að halda það einmitt 1930 og í sambandi við hátíðahöldin. En jeg býst ekki við, að n. geti tekið þann styrk upp á sína arma sem kostnað við. hátíðahöldin. — Önnur styrkbeiðni, og hún stór, hefir borist frá n. þeirri, er athugar möguleikana fyrir almennri landssýningu árið 1930. Hátíðarnefndin, sem eiginlega var kosin til að sjá um hátíðahöldin á Þingvöllum, hefir vísað þessari beiðni frá sjer, því hún komi ekki hátíðahöldunum við. Jeg held því, að ef sýning þessa á að halda, þá verði Alþingi að veita fje til þess sjerstaklega, en dugi ekki að vísa því á einhvern sameiginlegan reikning. Jeg hygg, að hv. fjvn. verði að taka þetta til nýrrar yfirvegunar.

Áður en jeg kem að brtt. mínum, vil jeg mæla með einni brtt. n., af því jeg er þar dálítið kunnugur. Það er till. um að veita 1000 kr. til kenslu í söng við háskólann. Í fyrra voru veittar 1200 kr. í þessu skyni, og get jeg upplýst það, að kenslan hefir verið ákaflega vel notuð, og er það mesti erfiðleiki kennarans, að vísa mönnum á bug, er hann getur ekki tekið. Kenslan hefir einnig verið mjög ódýr og miklu ódýrari en annarsstaðar. Er maður hugsar út í það, hve söngur er mikill hluti af starfi presta í kirkjunni, þá er hjer sannarlega ekki of miklu eytt í að undirbúa prestaefni til þess starfs, þótt þessi upphæð verði veitt. Ef till. þessi verður samþ. nú aftur, þá vona jeg, að stj. líti svo á, að þetta sje sjálfsagt og láti upphæðina standa áfram í fjárl., svo ekki þurfi að vera að tala um þetta á hverju þingi.

Ein af þeim brtt., er jeg flyt (ásamt hv. þm. V.-Sk.), rekstrarstyrkur til rannsóknarstofu háskólans, verður tekin aftur til 3. umr., og skal jeg því ekki ræða hana.

Þá ber jeg fram XIX. brtt. á þskj. 345, um að hækka rekstrarstyrk kvennaskólans upp í kr. 21000, eða sömu upphæð og hann hefir áður notið. Eins og hv. þdm. hafa sjeð af brjefi, er þeim hefir borist frá einum úr stjórnarnefnd skólans, þá setur þessi lækkun, sem farið er fram á í frv., skólann í hinn mesta bobba. Með ýtrustu sparsemi hefir skólinn getað lifað nokkurnveginn áhyggjulaust undanfarið. Það hafa einungis verið tveir fastir kennarar við skólann, báðir á lágum launum, en annars hefir verið bjargast við tímakenslu, því hún er ódýrari. Skólinn hefir safnað sjer nokkrum sjóði, og er ilt að þurfa að eyða af honum, því ætlunin er að nota hann sem byrjun til byggingarsjóðs. Jeg veit ekki, hvað hæstv. stj. hefir gengið til, er hún færði styrkinn niður í frv. Í aths. er sagt, að skólinn hafi notið hlutfallslega meiri styrks en aðrir einkaskólar og að hann njóti nú nálega einskis styrks frá Reykjavík. En það má ganga út frá því, að bærinn styrki hann ekki meira en nú. Hann hefir fengið viðurkenningu, 500 kr., og það mun ekki koma til mála, að hann fái meira úr þeirri átt. Bæjarstj. heldur því fram, að þetta sje ekki skóli fyrir bæinn frekar en aðra landsmenn, enda er hann sóttur alstaðar að af landinu. Maður sjer að vísu af skólaskýrslunni, að hann sækja margar stúlkur úr Reykjavík, en það er þó einkum í neðri bekkjunum. Og mikill fjöldi er utan af landi. Og hvort sem það er sanngjarnt eða ekki, þá fær skólinn ekki meiri styrk en þetta frá Reykjavík. Það er ekki til neins fyrir Alþingi að gefa ávísanir á aðra. Það er því ekki um annað að ræða, ef styrkurinn verður lækkaður, en að færa skólann saman eða hækka skólagjöldin. Það kom einu sinni til orða að gera hann að ríkisskóla; það hafði mikið fylgi hjer á Alþingi, en hafðist þó ekki í gegn. Menn óttuðust, að skólinn yrði dýrari í rekstri með því móti; töldu það heppilegra að láta hann starfa undir sjerstakri stjórn, en leggja honum til nægilegt fje og hafa gætur á, að hann væri sparlega rekinn. Jeg vænti því, að þessi till. mín verði samþ.

Hin till., er jeg þarf að mæla fyrir, er sú XXXII. á þskj. 345. Hún fer fram á að veita Íþróttafjelagi stúdenta 1000 kr. styrk, til þess að senda glímumenn á samkomu í Kiel (nordisch- deutsche Woche). Þetta verður mikið þing, er Þjóðverjar boða til. Mæta þar bæði andans menn og íþróttamenn af Norðurlöndum og Þýskalandi. Háskólanum hefir verið boðið að senda einn mann á mótið, og er boðið svo rausnarlegt, að þeir greiða ekki aðeins fullan ferðakostnað, heldur einnig sjerstaka borgun fyrir fyrirlestur, er hann á að flytja þar. Nú langar stúdenta, sem undanfarið hafa haldið uppi íþróttafjelagi, að senda þangað flokk glímumanna. Þeir hafa leitað til háskólaráðsins og það hefir samþ. að veita þeim 1000 kr. styrk af óvissum útgjöldum sáttmálasjóðs. Þeir ætla að senda 10 manns og hafa gert áætlun um ferðakostnaðinn. Gera þeir þar ráð fyrir nær 400 .... — 398,50 — á mann. Má á þessu sjá, að þeir ætla ekki að fara til að „flotta“ sig. Þetta er svo lágt, að mjer þykir ólíklegt, að þeir sleppi með það. En þó þeir sleppi með þessar 4000 kr., þá er það langt fyrir neðan það höfðinglyndi, er Alþingi oft sýnir, að neita um 1000 kr. styrk til þessa áhugafyrirtækis. Mjer þótti hálfgildings skömm að bera þetta fram, en vildi þó ekki fara fram úr því, er þeir höfðu sótt um. En það væri sannarlega ekki mikið, þó Alþingi greiddi kostnaðinn, að frátöldum þeim styrk, er háskólaráðið hefir veitt. Þar sem upphæðin er svona lág, þá vænti jeg þess, að hv. þdm. samþ. þetta í e. hlj.