19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

16. mál, fjárlög 1930

Lárus Helgason:

Af því að jeg á þrjár brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., þykir mjer ástæða til að gera lítilsháttar grein fyrir þeim. Allar eru þær á sama þskj., 345, og er sú fyrsta flutt vegna húsmæðrafræðslu í Vík í Mýrdal. Þar á staðnum er kvenfjelag, sem starfað hefir í mörg ár og segja má um, að sje í sífeldri framför, þó krept hafi að því fátækt og ýmsir aðrir örðugleikar, eins og algengt er með þá, sem eru að ryðja nýjar brautir, Þetta fjelag hefir nú í vetur snúið sjer til Alþingis með beiðni um 5000 kr. styrk til starfsemi sinnar framvegis, en hv. fjvn. hefir ekki sjeð sjer fært að sinna þeirri fjárbeiðni nema að litlu leyti, eins og sjest á till. hennar á þskj. 293, þar sem hún leggur til, að til húsmæðrafræðslu í Vík verði veittar 1500 kr. Þetta þykir mjer nokkuð lítið, þegar litið er á þörf fjelagsins, og ekki síst verðleika þess fyrir þrautseigju sína og árvekni í starfinu, og þess vegna hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. við till. hv. fjvn., þar sem jeg fer fram á að hækka styrkinn upp í 2500 kr., og er það helmingur þeirrar upphæðar, sem beðið var um. Jeg held, að það sje ekki ofmælt, þó að jeg segi, að hjer sje ekki til mikils mælst, en til þess þó að gera betri grein fyrir þessu ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp dálítinn kafla úr umsókn kvenfjelagsins, sem legið hefir fyrir þinginu í vetur. Þar stendur meðal annars þetta:

„Síðustu sjö árin hefir hjer í Vík verið höfð með höndum árleg kensla fyrir uppvaxandi stúlkur hjeraðsins í handavinnu allskonar, bæði í fatasaumi karla og kvenna og flestum venjulegum hannyrðum. Við þetta hefir verið bætt á síðasta ári kenslu í allskonar vefnaði. Einnig hefir húsmæðrafræðsla farið fram á þessum vetri með styrk frá Alþingi. Kvenfjelagið hefir beitt sjer fyrir þessari hreyfingu og talið verklega menningu kvenna hjer í sýslu aðaláhugamál sitt frá byrjun. Og reynslan hefir sýnt, að þessi viðleitni hefir orðið til stórvakningar og þrifa. Í þessi sjö ár, sem liðin eru frá því er námskeiðin hófust, hafa fullar tvö hundruð stúlkur úr Vestur-Skaftafellssýslu tekið þátt í námskeiðunum, auk nokkurra stúlkna úr Rangárhjeraði. Má slík aðsókn teljast sæmileg hjer í sýslu, er miðað er við sókn að samskonar fræðslu í öðrum fjölmennari sýslum“.

Við þetta hefi jeg litlu að bæta. Eftir því sem jeg best veit, er í þessari frásögn kvenfjelagsins ekkert ofmælt. Námskeiðin hafa verið prýðilega sótt og færri fengið aðgöngu á þau en vildu. Nú var það meiningin að stækka húsrúmið, svo að taka mætti á móti fleirum en verið hefir. Og með það fyrir augum hefi jeg leyft mjer að bera fram þessa brtt. Ef hv. d. vildi aðhyllast mína brtt. og veitti þennan styrk, þá mundi kvenfjelagið geta verið sjer úti um stærra húsrými og fleiri orðið kenslunnar aðnjótandi, en með till. fjvn. sæti við það sama og áður, að fjelagið yrði að vísa á bug mörgum umsóknum vegna þrengsla. En jeg vantreysti ekkert hv. d. að verða vel við þessari málaleitun, og það því síður, er hún samþ. í fyrra samskonar till., sem hv. Ed. færði niður.

Vænti jeg því, að hv. d. sje sama sinnis og í fyrra og kippi ekki að sjer hendinni, þar sem hún er búin að fá glögga grein fyrir því, að þetta fjelag er alls góðs maklegt. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt., enda lít jeg svo á, eins og ýmsir fleiri, að langar ræður hafi ekki mikið að segja.

Önnur brtt. mín á sama þskj., 345, er sú XXXV. í röðinni og hljóðar um að veita styrk til áveitu og sandgræðslu í Meðallandi. Eins og kunnugt er, hefir sveit þessari farið sífelt hnignandi vegna sandfoka og annara skemda af völdum náttúrunnar. Síðan jeg man fyrst eftir mjer hefir fjöldi góðbýla lagst í eyði og graslendi það, sem eftir er, er í sífeldri hættu, verði ekkert aðhafst til þess að stemma stigu fyrir eyðileggingunni. Því var það, að Búnaðarfjelag Íslands sendi þangað austur einn af ráðunautum sínum sumarið 1926 til þess að athuga, hvað hægt væri að gera til þess að vernda sveitina fyrir áframhaldandi eyðileggingu. Það hefir mikið verið talað um það, bæði í ræðu og riti, nú í seinni tíð, að nauðsynlegt sje að hjálpa landbúnaðinum til meiri framfara. Einn liðurinn í þeirri hjálp, og ekki sá óverulegasti, virðist mjer vera sá, að koma í veg fyrir það, að býlin í landinu eyðileggist. Annars býst jeg við, að jeg geti ekki talað betur fyrir þessari brtt. minni á annan hátt en að lesa upp kafla úr skýrslu ráðunautsins, sem austur fór til að athuga sandfokið í Meðallandi. Þetta brjef, sem jeg hefi hjer í höndum, er til stjórnar Búnaðarfjelags Íslands, dags. hjer í Reykjavík 17. des. 1928, og er umsögn um erindi, sem jeg hafði sent Búnaðarfjelaginu 10. júlí s. á. viðvíkjandi landvörnum í Meðallandi. Ráðunauturinn segir meðal annars svo í brjefi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg hefi í júlímánuði 1927 framkvæmt athuganir viðvíkjandi eyðileggingu nytjalands í Meðallandi og sendi fjelaginu allítarlega greinargerð um þær athuganir, dags. þann 23. jan. 1928. Niðurstöður þær, sem jeg komst að við athuganirnar, voru þessar:

Að með kerfisbundinni sandgræðslustarfsemi mundu vera möguleikar til að gera að nytjalandi alt að 23000 ha., sem nú eru sandar, og að í skjóli þeirrar græðslustarfsemi væru möguleikar til að hafa fult vald á vatni því, er sandarnir halda uppi á engjum býla í austurhluta Meðallands ofan Eldvatns.

Hinsvegar er mjer ljóst, að kostnaður við þær framkvæmdir yrði svo mikill, að með þeirri aðstöðu, sem nú er að gera slíkan landvinning arðbæran, er vart hægt að ráða til, að nú þegar verði horfið til þannig lagaðra framkvæmda. Hinsvegar tel jeg brýna þörf, að hafist verði handa til verndunar óeyddum býlum á svæðinu, og verkinu hagað þannig, að það, sem gert yrði nú, gæti orðið sem einn liður í kerfisbundinni græðslustarfsemi síðar.

Þær jarðir, sem liggja nú þannig fyrir vatns- og sandágangi, að til auðnar horfir, eru: Efri-Steinsmýri, ábúendur 4 og 2 húsmenn, Syðri- Steinsmýri, ábúendur 2, og Efri-Fljótar, ábúandi 1.

Eigi að vernda býli þessi svo varanlegur árangur fáist af því verki, verður að byrja með að stöðva sandfokið á svæði þessu. Stærð sandsvæðisins ofan Eldvatns er 4300 ha. frá þessum jörðum, og yrði girðingarlengd 11 km., en til þess að ná fyrir upptök sandsins þarf að girða 1200 ha. af Kirkjubæjarhreppi neðanverðum, og girðingarlengd verður þá um 13 km. alls. Verður hinn beini kostnaður við að setja upp girðing þessa, efniviður og flutningur hans og vinna, eigi minna en kr. 1.00–1.20 pr. m., eða samtals 13000–15600 kr. (verðlagið bygt á upplýsingum frá hr. sandgræðslustjóra Gunnl. Kristmundssyni). Þar til kæmi hinn eiginlegi ræktunarkostnaður. Sem einn liður hans yrðu þær umbætur, er jeg lagði til, að gerðar væru, undir lið 1, 2 og 3 í ályktunum í skýrslu minni frá 23. jan. 1928:

1. Að veitt verði vatni frá Steinboganefslæk og Mjóalæk á sandana austur af beitilandi Efri- Steinsmýrar.

2. Að Steinsmýrarfljót verði stíflað og veitt á sandgárana, er stefna til eyðileggingar á Fljótakrók og nærliggjandi engjalönd, og að jafnframt verði gert við garða, er halda vatninu á söndunum en varna því fram á graslendi Syðri- Steinsmýrar.

3. Að gerðar verði tilraunir að koma vatninu frá þeirri áveitu austur á sandana og dreifa því þar og halda því frá að lóna uppi kringum Syðri-Steinsmýri.

Kostnaður við lið 1 og 2 er samkvæmt áætlun minni frá í fyrra kr. 3600.00. Kostnaðinn við lið 3 verður ekki hægt að fastákveða, þar sem hjer verður um tilraun að ræða, en jeg teldi þess vert, að til þess væri varið alt að 2000 krónum.

Stofnkostnaður fyrir utan hinn árlega ræktunarkostnað yrði þá um 20000 kr. alls.

Þegar litið er til þess, að hjer er um landvinning að ræða, sem nemur 5500 ha. fyrir utan landverndun þá, er gerir 9 fjölskyldum mögulegt að haldast við á býlunum framvegis, þá virðist mjer rjettmætt að leggja til, að ráðist verði í þessar framkvæmdir á þeim grundvelli, sem að framan er gert ráð fyrir“.

Við þessa skýrslu hefi jeg svo litlu að bæta. Eins og hún ber með sjer, er gert ráð fyrir, að þurfa muni um 20 þús. kr. til þess að hrinda þessu verki í framkvæmd. En til þess að fara ekki of hart í sakirnar, hefi jeg með brtt. minni aðeins farið fram á 1/4 þessarar upphæðar og ætlast til, að það nægi í bili til þess að vinna að þeim framkvæmdum, sem nefndar eru í þeim þremur liðum, er skýrslan getur um og jeg las upp, en það er áveitan á sandana. Síðar yrði að sjálfsögðu að koma upp girðingunum með einhverjum ráðum, en með því að byrja á áveitunni er mjer óhætt að fullyrða, að mikið sje fengið, þó að eitthvað dragist með girðingarnar. Þess vegna vildi jeg leyfa mjer að minna hv. þdm. á, að það væri hinn mesti misskilningur að leggjast á móti þessari litlu fjárhæð nú, þar sem upplýst er, að hún gæti orðið til mikils gagns og varnað því, að stórt landsvæði legðist í auðn. Menn hafa nógu lengi horft á það með köldu blóði, að blómlegar sveitir liggi undir eyðileggingu af völdum náttúrunnar án þess að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að koma í veg fyrir það. Það þarf ekki annað en fara um þessa sanda til þess að sannfærast um, að ekki þyrfti mikið að gera til þess að græða þá upp. Því að þrátt fyrir sínagandi sandinn eru þar fallegir og grænir grasnabbar, sem með áveitu og friðun mundu breiðast út og verða að samfeldu graslendi. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt., og sný mjer þá að þeirri, sem jeg á eftir að gera nokkur skil. Það er XLVII. brtt. á þessu sama þskj. og er fram komin vegna eyðileggingar á Álftaveri af völdum jökulárinnar Skálmar.

Þetta mál er nú gamall kunningi hjer á þingi, og mætti eflaust til þess vísa, sem áður hefir um það verið sagt. En nú liggur þetta mál sjerstaklega vel undirbúið af þessum sama trúnaðarmanni Búnaðarfjelags Íslands, Pálma ráðunaut Einarssyni, sem gert hefir athuganirnar um uppgræðslu Meðallands. Jeg sje ekki annað ráð vænlegra en að láta þennan sama mann einnig gera grein fyrir þessari brtt. minni, þar sem jeg er svo heppinn að hafa hjer í höndum skýrslu hans til Búnaðarfjelags Íslands, dags. hjer í Reykjavík 17. nóv. 1928, og eru þær upplýsingar svar við erindi, er jeg hafði sent Búnaðarfjelaginu 10. júlí 1928.

Kafli sá, er jeg vildi lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar þá á þessa leið:

„Í áætlun minni um fyrirhleðslu Skálmar, dagsettri 12. okt. 1926, var gert ráð fyrir, að til fullkominna landvarna þyrfti að gera fyrirhleðslu á 4320 lengdarmetrum með hleðslurými 15400 teningsmetra. Eftir er að gera af því verki 2370 lengdarmetra með hleðslurými um 8300 teningsmetra. Gera má ráð fyrir, að með þeirri aðstöðu, sem orðin er á um efnisflutning til garðgerðarinnar, að kostnaður pr. teningsmeter verði minst 0,80 kr., og verður því kostnaðurinn við garðhleðsluna um 6640 kr.

Til skýringar á þeirri þýðingu, sem nefndar framkvæmdir hafa fyrir hjeraðið, leyfi jeg mjer að draga fram eftirfarandi atriði úr skýrslu minni frá 1926:

„Engi og haglendi, sem að meira og minna leyti liggja í hættu fyrir vatnságangi og aurframburði frá ánni Skálm í V.-Skaftafellssýslu, eru samkvæmt lauslegri mælingu og afmörkun svæðisins á uppdrætti herforingjaráðsins 1300 ha. að stærð. Liggja þau sunnan árinnar, en norðan Landbrotsár, takmarkast að austan af Kúðafljóti og hæðum vestan þess, en að vestan eru takmörkin hæðir þær, sem bæirnir Skálmarbær, Holt, Herjólfsstaðir og Hraunbær standa á.

Þær jarðir, sem eins og sakir standa eru að eyðast að engjum af völdum árinnar, eru Jórvíkurhryggir og Holt; hvortveggja býlin eru þjóðjarðir. Ef áin nær að eyða engjum þessara jarða og einkum ef hún næði í samband við Holts- og Herjólfsstaðavötn, sem mjög er líklegt, þá er engjum 10 annara jarða hætta búin frá framburði hennar og vatnságangi. Þegar litið er til þess, að alt graslendi, hagar og engi þeirra 13 býla, sem í Álftaverinu eru, aðeins nemur um 3100 ha., sjest, að hjeraðshætta stafar frá ánni, einkum þá litið er til þess, að það eru fyrst og fremst slægjulönd bænda, sem fyrir eyðileggingunni liggja“.

Þá telur ráðunauturinn upp nöfn þeirra jarðeigna ríkissjóðs, sem þarna eiga hlut að máli, og tel jeg óþarft að þylja þá nafnaskrá, en skal þó geta þess, að landverð þeirra til samans eftir matinu 1917 er 10300 kr. En landverð þeirra jarða, sem þarna eru í hættu, en eru bændaeign, nemur 15500 kr. eftir sama mati. Út frá þessu bætir svo ráðunauturinn við:

„Það er því hjer um verulega verðmætisverndun að ræða, því verðgildi þessara jarða, verði þær trygðar fyrir ágangi vatnanna, er í raun og veru miklu meira en matið sýnir. Leyfi jeg mjer því að leggja til, að erindi alþingismanns Lárusar Helgasonar verði sint á þann hátt, að til framkvæmda verði horfið strax á næsta vori um framhald verksins“.

Eftir þeim kunnugleikum, sem jeg hefi á þessu máli, tel jeg umsögn Pálma Einarssonar alveg rjetta. Jeg skoðaði garðinn, sem búið er að byggja, í síðastliðnum nóvembermánuði, og leitst mjer mjög vel á það verk, en mjer er ljóst, að verði ekki haldið áfram með garðbygginguna, getur þetta mannvirki orðið til minni nota en ella. Þess vegna er óumflýjanlegt að hefjast handa um þær framkvæmdir, sem nefndar hafa verið, svo að sveitin rýrni ekki um of. Hjer er um fámenna sveit að ræða, sem orðið hefir fyrir meiri áföllum af náttúrunnar völdum en nokkur önnur sveit á landinu, t. d. af völdum Kötlugosanna, sem veitt hefir bændum austur þar svo þungar búsifjar, að efnahagur þeirra ber þess lengi merki. Þegar svo þess er gætt, að Alþingi hefir látið mikið af mörkum falla til ýmsra sveita, sem síður væri ástæða til, þá vil jeg vænta, að það sjái þá nauðsyn, sem á því er að leggja fram þessa litlu upphæð, svo að hægt sje að halda áfram þessu nauðsynjafyrirtæki.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vænti, að hv. deild geti fallist á að samþ. þessar fáu brtt. mínar, sem jeg þykist vera búinn að sýna, að hafi fullan rjett á sjer.