19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Ólafsson:

Jeg hefði viljað segja nokkur orð út af ummælum hæstv. dómsmrh., en þar sem hann er ekki viðstaddur hjer í hv. d., get jeg ekki getið þeirra svo sem mjer þætti við eiga.

Úr því að hæstv. dómsmrh. ljet ljós sitt skína yfir brtt., hefði jeg kunnað betur við, að hann hefði farið rjettara með en hann gerði. Annars á maður auðvitað því að venjast að heyra slíkt frá þessum ráðherrastóli, og stundum töluverða hlutdrægni í málum. Jeg geri þær kröfur til hæstv. ráðh., að þeir líti með velvilja á nauðsynjamál þau, er þjóðina varða og einstaklinga hennar, en komi þar ekki fram. með hlutdrægni, því að ekkert getur verið skaðlegra nje svívirt meira þau sæti, er þeir sitja í.

Það var út af ummælum hæstv. dómsmrh. um styrk til gagnfræðaskóla Reykjavíkur, að jeg vildi segja nokkur orð. Hæstv. dómsmrh. gerði samanburð á Ísafirði og Akureyri, en hæstv. ráðh. gætir þess ekki, að hjer í Reykjavík býr meira en 1/4 hluti allra landsmanna, og því alls ekki sambærilegt við aðra kaupstaði hvað þetta snertir. Skólinn á Ísafirði hefir fengið 4000 kr. styrk af ríkisfje, og nú er í ráði að hækka þann styrk að mun. Þó eru þar ekki nema 2200 íbúar ennþá, en þeir gætu orðið fleiri þegar ábyrgðin frá síðasta þingi er farin að verka til hlítar, en ekki er vert að taka það þegar með í reikninginn. Það hefir sýnt sig, að ungmennaskóli Reykjavíkur fullnægði ekki eftirspurninni, sjerstaklega eftir að fækkað var bekk í mentaskólanum. Því var haldið fram, að þessi fækkun væri nauðsynleg sem heilbrigðisráðstöfun, en það var tómur fyrirsláttur og rykskvettur að umsögn fróðra manna í heilbrigðismálum, og það verður að treysta þeim eins vel og hæstv. dómsmrh.

Þá er það ekki rjett, að landið hafi skaffað þennan gagnfræðaskóla Reykvíkingum að kostnaðarlausu. Jeg veit ekki betur en að fram hafi komið till. um það hjer í þinginu að afnema skólagjöld þau, sem almenningur verður að greiða, en það eru kr. 150,00, sem bæjarbúar verða að greiða með börnum sínum t. d. í mentaskólanum. Þessa sömu reglu hefir gagnfræðaskólinn tekið upp, en ungmennaskólinn hefir fært skólagjaldið niður í 70–75 kr. Það er því ekki hægt að segja, að Reykvíkingar vilji ekki mikið að sjer leggja fyrir skólann, og auk þess leggur Reykjavíkurbær fram ríflegan styrk til beggja skólanna. Jeg get svo látið þessi fáu orð nægja, einkum þar sem hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur.