19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

16. mál, fjárlög 1930

Hjeðinn Valdimarsson:

Það eru fáar brtt. og smáar, sem jeg hefi við fjárlögin við þessa umr., og vil jeg fara um þær fáum orðum.

En fyrst vil jeg minnast á brtt., sem hv. þm. Ísaf. flytur hjer um að auka námsstyrkinn samkv. ákvörðun mentamálaráðs. Það er að vísu komin brtt. frá hv. fjvn. um að hækka þennan lið upp í 8000 kr., en jeg hygg, að það muni verða of lítið, þegar miðað er við þá aðsókn, sem er að þeim styrkjum, og vildi jeg því mæla með, að þessi brtt. hv. þm. Ísaf., 12000 kr., yrði samþ.

Jeg hefi hjer brtt. við 14. gr. B. II. c., til Odds Guðjónssonar, til hagfræðináms, 1500 kr., en til vara 1200 kr. Ef brtt. hv. þm. Ísaf. um að hækka námsstyrkinn yrði samþ., þá myndi jeg falla frá minni brtt., en ef hún verður ekki samþ., mun jeg auðvitað halda fram minni brtt. Svo er háttað um þennan mann, að hann sótti hjer um styrk í fyrra, sem aðrir stúdentar, fjelagar hans, en úrslitin urðu þau, að allir hinir stúdentamir fengu styrk, en hann ekki neitt; veit jeg ekki, hver ástæða hefir verið til þess, því að hann er ágætur námsmaður, hefir mjög gott stúdentspróf, og síðan hann kom til háskólans í Kiel, hefir hann verið mjög vel látinn þar. Jeg hefi hjer við hendina meðmæli frá ýmsum kennurum hans við þennan háskóla, þar sem hann les hagfræði. Er það vottað, að bæði hafi hann sótt vel fyrirlestra og reynst hinn besti námsmaður. Hann stundar aðallega þá grein hagfræðinnar, sem snertir verslunarviðskifti, og er mjer ekki kunnugt um, að nokkur annar Íslendingur hafi áður lagt þá grein fyrir sig. Jeg hefi sjeð ritgerð, sem hann var látinn gera um verslunarviðskifti Íslendinga við önnur lönd, eftir að hann kom til háskólans, og er óhætt að segja, að þessi ritgerð sýnir allmikla hæfileika hjá höfundinum. Svo ber á það að líta, að þessi maður hefði átt að fá styrk eins og aðrir stúdentar frá sama tíma, sem hafa fengið hann hjer. Jeg hefi farið fram á 1500 kr., en til vara 1200, og þar sem hann hefir orðið svo aftur úr fjelögum sínum, þá finst mjer sanngjarnt, að hann fengi örlítið meira en þeir fengu í fyrra. Vona jeg, að hv. þdm. sýni þá sanngirni gagnvart þessum efnilega stúdent, að greiða þessari brtt. atkv., ef til þess kemur, því eins og jeg hefi sagt áður, þá mun jeg taka till. aftur, ef fram gengur brtt. hv. þm. Ísaf. um hækkun námsstyrks til mentamálaráðs.

Þá er hjer önnur lítil brtt., um að bjóða Jóni Sveinssyni rithöfundi heim og greiða úr ríkissjóði kostnaðinn við för hans. Eins og kunnugt er, þá mun Jón Sveinsson vera einhver hinn þektasti rithöfundur Íslendinga utanlands, og hefir hann mikla löngun til að koma hingað heim. Hv. fjvn. hefir tekið vel í þetta, en þar sem maðurinn er munkur, sem ekkert fje má eiga, þá virðist hv. n. hafa skorið það mjög við neglur sjer að ætla ekki nema 600 kr. til þessa ferðalags. Jeg hefi talað við þann mann, sem sótti fyrir hönd Jóns Sveinssonar, og sagði hann, að 600 kr. mundu vera það minsta, sem hann kæmist fyrir hingað til lands, en ef ætti að hugsa um það, að hann kæmist hjeðan nokkurn tíma aftur, þá yrði hann að fá eitthvað meira; yrði þá að afla þess með samskotum, ef það fengist ekki úr ríkissjóði. Nú mun það ætlun hans, þegar hann kemur hingað, að hafa ekki mikið um sig, en vera á vegum kaþólsku prestanna í Landakoti, en mjer finst þó sjálfsagt, að styrkurinn til hans yrði svo rífur, að hann fengi til ferðanna á milli landa. Þess vegna hefi jeg valið þá aðferðina, að heimila landsstj. að bjóða honum heim og greiða kostnað við för hans; hugsa jeg, að það myndi verða sem næst 1200 kr.

Þá á jeg hjer eina brtt. með hv. þm. V.-Ísf. og hv. 2. þm. G.-K. um styrk til Magnúsar. Ásgeirssonar, til ljóðaþýðinga úr erlendum málum, 1500 kr. Vil jeg taka undir það, sem þegar hefir verið sagt um þá brtt., og vænti jeg þess, að hv. þingd. veiti þann styrk; munu hv. þm. hafa sjeð af bók þeirri, sem hjer hefir gengið um, að þeim styrk er vel varið og að maðurinn er efnilegt skáld, sem er styrks maklegur.