19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

16. mál, fjárlög 1930

Benedikt Sveinsson:

Þar sem jeg flyt nokkrar brtt. á þessum kafla fjárlaganna, vil jeg gera nokkra grein fyrir þeim.

Það eru helst till. til þess að viðurkenna nokkur skáld og rithöfunda, sem jeg hefi gerst tillögumaður að ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Alþingi hefir sýnt það áður, að það hefir víst í fullu hlutfalli við aðrar þjóðir, eða eftir efnum og ástæðum, viðurkent skáld sín, listamenn og rithöfunda, enda er það og alveg ljóst, að skáld og rithöfundar eru allra þarfastir þeirra, sem vinna gagn með þessari þjóð, því að engir eru þeir, sem tunga þjóðar vorrar hefir jafnmikinn styrk af sem góð skáld og rithöfundar. Það er nokkurnveginn ljóst flestum, að ef Íslendingar hefðu engar bókmentir átt, þá væri saga þeirra úti. En þetta er nú svo kunnugt, að jeg hefi ekki lengri formála að.

Jeg tek það hjer fram, að jeg á hjer aðeins við góðskáld eða höfuðskáld; það eru þau, sem öðluðust drykkinn,

„hinn er Surts

ór sökkdölum

fármögnuðr

fljúgandi bar“, —

er fjell inn fyrir Ásgarð, enda er ekki hjer um aðra menn að gera, sem jeg hefi fyrir að mæla.

Jeg skal hefja þar mál mitt, að í Þingeyjarsýslu hafa verið mörg skáld uppi að minsta kosti nokkra síðustu mannsaldra, og er merkilegt, að þau hafa flest verið umhverfis Mývatn og í bygðunum niður með Laxá tveim megin. Má þar til nefna þá Gamalíel Einarsson í Haganesi og Illuga Einarsson, er uppi voru öndverða 19. öld og ortu saman nafnkunna bragi, sem víða voru kunnir um landið, þótt eigi væru prentaðir. Þar var og Jón Hinriksson, alkunnugt skáld, faðir Sigurðar skálds, sem nú býr að Arnarvatni. Mótbýlismaður hans er Jón Þorsteinsson, ágætt skáld, nú roskinn að aldri, og á næstu grösum bjó frændi þeirra Jón Stefánsson, eða Þorgils gjallandi. Ennfremur eru þeir Mývetningar Stefánssynir, móðurbræður Þuríðar skáldkonu í Garði, allir hnytnir hagyrðingar. Þá má nefna þær frændkonurnar, Guðnýju Jónsdóttur frá Grenjaðarstöðum, móðurmóður Haralds prófessors Níelssonar, og Unni Benediktsdóttur frá Auðnum. Þegar maður kemur í dalinn, verða þeir fyrir Fjallsbræður og Sandsbræður, en austan Laxáróss Jóhann Sigurjónsson frá Laxamýri. Er hjer farið fljótt yfir og ýmsum slept. Fæstir þessara manna hafa nokkurn stuðning eða styrk fengið, og verða menn því að viðurkenna, að ekki sje borið í bakkafullan lækinn, þótt eitt þessara skálda sje nú tekið upp í fjárlög. Því er það, að jeg ber fram ásamt hv. þm. Ísaf. till. um, að veittur sje skáldastyrkur Sigurjóni Friðjónssyni frá Sandi, sem nú býr að Laugum í Reykjadal. Hann er kominn yfir sextugt og hefir ort allmörg kvæði, sem birst hafa á víð og dreif í blöðum og tímaritum, en ekki hafa kvæði hans komið út í heild fyrr en í vetur. Birtist þá merkileg ljóðabók, sem Þorsteinn Gíslason ritstjóri gaf út. Þeir, sem lesið hafa þó bók, munu hafa gengið úr skugga um það, hversu mikill listamaður þar fer. — Jeg hefi hjer fyrir mjer blað, sem getur um bókina, og af því að þar er rjéttilega og haglega um hana mælt, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð upp úr því. Þar segir svo:

„Sigurjón Friðjónsson .... fór lengi dult með kveðskap sinn, og ekki bjó hann þessi kvæði sín undir prentun fyrr en hann var sextugur. Þó má með sanni segja, að fremur sje æskubragur en elli á kvæðum hans, einkum hvað yrkisefnin snertir, en orðaval og frágangur allur ber vitni um athygli og íhugun, sem sjaldan mun gefin mjög ungum mönnum.

Ef Þingeyingar væru beðnir að greiða atkvæði um þrjú bestu skáld, sem nú eru uppi þar í sýslu, þá yrði Sigurjón Friðjónsson eflaust í þeirra hópi, og sumir munu telja hann þar fremstan í flokki“.

Og enn segir þar:

„Annars er það um kveðskap Sigurjóns Friðjónssonar að segja, að hann er allur mjög fágaður og hneigist í „ómræna“ átt, eins og höfundurinn kemst sjálfur að orði. Glamur og gífuryrði eru honum svo fjarlæg sem mest má verða, en kyrlát gleði, fögnuður yfir sól og sumri, óvenjuleg viðkvæmni og djúp alvara skín úr flestum kvæðunum“.

Þessi maður er mörgum hjer nokkuð kunnur, af því að hann hefir verið þingmaður, og þar sem ljóð hans eru nýútkomin, hygg jeg, að hann sje mönnum svo kunnur, að jeg þurfi ekki fleiri orðum um að fara, enda er jeg enginn listdómari, og aðrir því betur fallnir til að taka í þann streng og mæla svo fyrir sem vert væri.

Þó að jeg hafi nú nefnt hjer nokkur skáld úr Þingeyjaþingi, þá má samt segja, að víðar sje guð en í Görðum, og eru ýmsir aðrir góðs maklegir. Vil jeg lýsa því, að jeg er hlyntur því, að Sveinbirni Björnssyni verði veittur styrkur sá, er farið er fram á, 1500 kr. Hann er nú orðinn hniginn að aldri, en hefir verið atorkumaður, og þó ekki safnað auði, enda mun sjaldnast svo um daglaunamenn. Verða þeir því margir, er sagt geta með Agli Skallagrímssyni þegar hann var hrumur í elli og kaldur á fótum og teygði hæla að eldinum:

„Eigum ekkjur

allkaldar tvær,

en þær konur

þurfu blossa“.

Og þótt ekki væri annað en skáldið nyti ofurlítið meiri hlýju í ellinni en áður hefir hann notið, þá væri þetta betur veitt en óveitt.

Einn hafði jeg og í huga enn, er jeg fór almennum orðum um gildi og verðleika góðskálda. Það er Stefán frá Hvítadal. Höfum vjer nokkrir þm. borið fram till. um, að hann fái sess á fjárlagabekknum meðal annara góðskálda. Skal jeg ekki segja, hvort hann græðir fje á því, þar sem hann hefir áður notið nokkurs skáldastyrks. — Ef nokkur kann nú að yrkja að fornum hætti, þá er það Stefán. Er eins og Sturla Þórðarson sje endurborinn í Saurbæ vestur, er Stefán slær sína snjöllu hörpu. — En sá er ljóður mestur á hinum yngri skáldum, að mörg þeirra brestur það, sem er frumskilyrði íslensks skáldskapar, en það er fullkomin kunnátta í íslenskri tungu og þekking á verkum hinna fornu höfuðskálda. Er vjer lesum ljóð vor þýdd á annara tungur, sjáum vjer best, hve tunga vor er miklu göfgari en annara þjóða, svo að það verður oft skáldfíflahlutur einn, er góðskáld þeirra bera frá borði, er þau gerast svo djörf að leggja hönd á að þýða kvæði höfuðskálda vorra. Er víst mörgum í minni eitt slíkt sýnishorn, er nýlega birtist af sonatorreki Egils Skallagrímssonar.

Þá er enn brtt. á framannefndu þskj. við 18. gr., um að veita 1800 kr. til Einars Þorkelssonar. Það er jeg áður mælti um góða og snjalla rithöfunda, á og við þennan mann, og ekki síður. Er það þjóð vorri fengur, er svo færir menn og orðsnjallir láta sem mest eftir sig liggja í ritverkum. Einar á við mikið andstreymi að búa, sakir langvarandi heilsubrests, hefir ómegð mikla og á því við mestu fátækt að stríða. Er hann því hlaðinn sífeldum áhyggjum, og nýtur því eigi hæfileika sinna, svo sem verða mætti, ef kjör hans væru skaplegri. Er þetta mikill skaði, því að alt er það eins og fundið fje, er ber á rekann frá Einari af snjöllum ritsmíðum og að mörgu leyti merkilegum. Allir þekkja hans einkennilega og frumlega málfar og margra hluta minnist hann um háttu og hugarfar alþýðu og einkennilegra manna í afskektum bygðum, sem ekki er á annara færi að segja frá. Heilsu hans er nú svo illa farið, að hann hefir mist sjón á öðru auga, og mjög bilaður á hinu, svo að eigi má vita hve lengi sjón hans endist. Er því nauðsyn að veita honum nú þegar stuðning.

Jeg mun ekki tefja tímann með því að leggja orð í belg um aðrar till., er hjer liggja fyrir. Þó vil jeg taka í streng með hv. þm. V.-Húnv. um 1200 kr. styrk til Magnúsar Jónssonar bónda á Torfastöðum í Miðfirði, til að efla laxa- og silungaklak. Í því hjeraði er mikill fjöldi vatna, og er í sumum gnægð fiskjar, þeim er liggja í eystri hluta sýslunnar, bæði í bygð og inni á Arnarvatnsheiði. En svo bregður við, er kemur vestur á Tvídægru, að þar finst varla branda í vötnum, þótt staðhættir sjeu sagðir þar næsta líkir sem við Fiskivötn á Arnarvatnsheiði. Er fjárveitingartillagan í því skyni fram borin, að ráða bót á þessu. Varðar þetta hag heilla bygðarlaga, og svo mætti víða verða, að mikil not gætu orðið að, ef stund væri lögð á ræktun fiska. Tel jeg því sjálfsagt að veita styrk í þessu skyni.