19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

16. mál, fjárlög 1930

Hákon Kristófersson:

Jeg kann ekki við að sýna ekki hv. n. þann sóma að þakka henni fyrir undirtektirnar undir þær fáu brtt., sem jeg flyt. Hv. n. hefir samt ekki tekið jafnvel í þær allar. En jeg veit, að ekki dugar að deila við dómarann.

Jeg ætla fyrst að minnast á till. mína um eftirgjöf á hluta af rafmagnsveituláni Patrekshrepps. Að athuguðu máli býst jeg við að geta tekið hana aftur til 3. umr., með það fyrir augum, að það verði einhver heildarniðurstaða á því máli og að úr því rætist eftir því sem hv. frsm. n. tók fram.

Hv. frsm. sagði, að n. gæti ekki mælt með þeim lítilfjörlega styrk til ekkju Sigurðar Þórólfssonar, sem jeg fer fram á, af því að hún væri hrædd um að skapa fordæmi. Jeg held, að hv. frsm. geri fullmikið úr þeirri hættu, því að áður hefir verið veittur styrkur undir svipuðum kringumstæðum, og jeg hefi ekki heyrt, að menn væru neitt hræddir við fordæmi hvað þetta snertir. En jeg veit, að fá eða mörg orð um þetta breyta í engu afstöðu hv. n. Hv. frsm. benti á fordæmi, sem skapað var fyrir skömmu með styrk til ljósmæðra í fjárlögunum. Það er rjett hjá hv. frsm., en jeg verð að segja, að með þeim breyt., sem væntanlegar eru á högum ljósmæðra, eru minni líkur til þess að styrkur til þeirra verði tekinn í fjárlögin, og það einmitt nú, þegar laun þeirra eru tiltölulega miklu hærri en nokkurra annara embættismanna eða sýslunarmanna. Þetta er ekki sagt í mótmælaskyni gagnvart þeim heiðurskonum, heldur aðeins til að benda á ósamræmið. Svona miklar eftirlaunagreiðslur eins og sjá má í fjárlögum fyr og nú til þeirra eru óframbærilegar í samanburði við það, sem aðrir fá. Þarna virðist hv. fjvn. ekki hrædd við að skapa fordæmi. En þegar um er að ræða ekkju merkismanns, sem á fyrir mörgum börnum að sjá, þá er n. svo hrædd við það ógurlega fordæmi, að hún titrar og skelfur.

Sama er að segja um styrk til Samúels Eggertssonar til þess að semja og gefa út hlutfallauppdrátt af sögu Íslands. Hv. n. leggur á móti honum. En enginn ásakar hv. n., þó að hún geti ekki orðið við hinum ýmsu tilmælum. Hitt er alt annað, hvort ástæður hennar fyrir mótbárunum eru frambærilegar, þegar tillit er tekið til annara styrkja, sem samþ. hafa verið. En jeg leyfi mjer að fullyrða, að það hafa ekki altaf legið áþreifanlegar sannanir fyrir hv. þm., þegar um styrki hefir verið að ræða, þó að þeir yrðu samþ. Enda hygg jeg, að sjeu einhverjar aðrar stoðir, sem þessar ályktanir hv. n. eru bygðar á, en bær, sem hv. frsm. hafði fram að færa, sem sje í fyrra tilfellinu, að n. sje hrædd við að skapa fordæmi, og í síðara tilfellinu, að hún hafi ekki fullkomna vissu fyrir raunverulegum eða heppilegum árangri. Jeg ætla ekki að deila við hv. n. um þessar upphæðir, heldur mun jeg láta atkv. hv. dm. ráða niðurlögum. Hinsvegar er tæplega hægt að búast við því, þegar sjö manna nefnd leggur einróma á móti einhverri till., að hún eigi hægt með að ná samþykki í deildinni.

Jeg mun ekki lengja mál mitt með því að gera að umræðuefni hinar ýmsu brtt. hv. þm. Þeir hafa nú talað fyrir þeim og jeg mun sýna aðstöðu mína með atkvgr. En mjer mundi ekki koma á óvart sú sanna reynsla, að hjer í hv. d. yrðu samþ. till., sem síður skyldi en mínar, enda þótt hv. fjvn. sje á móti þeim.