19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg ætla í stuttu máli að svara þeim aths. við gerðir n., sem komið hafa fram frá hv. þm. Það er ekki hægt að lá mönnum, þó að þeim renni í skap, þegar þeir þykjast sjá fram á, að þeir fái ekki óskum sínum framgengt, og ætla jeg ekki að stökkva upp á nef mjer út af því. Það er altaf svo, þegar um mörg góð mál er að ræða, sem menn þurfa að taka afstöðu til, að sitt sýnist hverjum.

Hv. þm. V.-Sk. vil jeg segja það, að þó að n. geti ekki mælt með brtt. hans um fjárframlag til Meðallendinga, þá er það ekki af því, að við álítum ekki þörf á að hefta sandfokið. Hitt er annað mál, að það er ekki hægt að framkvæma alt í senn. Eitthvað verður að bíða. Hv. þm. V.-Sk. á vonandi eftir að sitja á fleiri þingum en þessu, svo að ekki er loku fyrir það skotið, að hann geti komið þessu áhugamáli sínu í framkvæmd, þó að síðar verði. Enda finst mjer nefndin vera búin að veita honum þá úrlausn, sem hann getur við unað.

Þá kem jeg að hv. þm. Barð. Jeg vil ekki viðurkenna, að hann hafi hrakið það, sem jeg sagði um, að styrkur til Ásdísar Þorgrímsdóttur mundi skapa óheppilegt fordæmi, þar sem maður hennar var ekki opinber starfsmaður. En það, sem hv. þm. sagði um laun yfirsetukvennanna, hittir ekki núv. fjvn. Núv. fjvn. hefir í því efni gengið slóð, sem áður hefir verið troðin. Jeg vil ekki heldur viðurkenna, að það sje það rjettlátasta, að þegar launin eru lág, sjeu eftirlaunin líka lág, en þegar launin eru há, sjeu eftirlaunin eftir því. Mjer fyndist ástæða til að hafa það öfugt. Ef menn eru sjerstaklega vel launaðir, er frekar ástæða til, að þeir hafi lítil eftirlaun.

Það má vel vera, að svo fari, að samþ. verði till., sem eiga síður rjett á sjer en till. hv. þm. Barð., en um það verður hver að eiga við sjálfan sig og gera eins vel og hann getur.

Út af orðum hv. þm. V.-Ísf. skal jeg geta þess, að mjer var ókunnugt um, að hátíðarnefndin hefði skilað áliti sínu um þau plögg, er fjvn. sendi henni, en það munum við að sjálfsögðu taka til athugunar til 3. umr.