19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhann Jósefsson:

Jeg skal lýsa yfir því, að jeg mun verða við tilmælum hv. frsm. um að taka aftur till. mína um vegarlagningu í Vestmannaeyjum, af því að mjer skildist á orðum hv. frsm., að hv. n. líti með velvilja á það mál, en þætti ekki vera nægar upplýsingar fyrir hendi.

Viðvíkjandi aths. hv. frsm. um brtt. mína um styrk til Bjargar Sigurðardóttur, í fyrsta lagi til utanfarar og í öðru lagi til þess að halda uppi kenslu í síldarmatreiðslu, vil jeg segja það, að mjer þykir leitt, að hv. n. skuli ekki geta fallist á þá skoðun, að eina leiðin til þess að kenna okkur Íslendingum að nota síldina er sú, að leggja í það verk á sama hátt og ungfrú Björg hefir gert. Það er þessi skoðanamunur, sem mjer þykir leitt, að skuli eiga sjer stað. Hitt, hvort styrkur er veittur þessari konu eða annari, sem er hæf til starfans, er aukaatriði. Það má til sanns vegar læra, að ekki sje svo brýn nauðsyn að styrkja Björgu Sigurðardóttur til utanfarar, þar sem hún kann nú að matreiða um 20 rjetti. Jeg skal því taka a.-lið till. aftur. En jeg vil eindregið beina því til hv. þm., að þeir veiti því athygli, að alveg sama grundvallarregla gildir hjer og annarsstaðar, þegar verið er að vinna nýrri vörutegund útbreiðslu og markaðs. Það verður að vinna að því með áhuga og dugnaði. En síld sem neysluvara má heita ný hjer á landi, þó að undarlegt megi virðast.

Jeg gat þess, þegar jeg mælti fyrir till. minni, að ungfrú Björg hefir verið studd lítilsháttar af ýmsum búnaðarfjelögum og Fiskifjelaginu og óbeinlínis frá bæjarfjelögunum. Kenslugjaldið hefir verið aðeins 10 kr. á viku. Það er mjög lítið, en hitt er ljóst, að annars yrði kenslan ekki sótt af öllum almenningi. Jeg skal bæta því við, að Búnaðarsamband Vestfjarða hefir meðal annars farið þessum orðum um starf hennar:

„Á síðastliðnum vetri, tímabilinu mars–apríl hjelt ungfrú Björg Sigurðardóttir frá Reykjavík námsskeið í matreiðslu síldar hjer á Ísafirði og Hnífsdal um mánaðartíma. Stóð hvert námsskeiðanna yfir um vikutíma. Var á hverju námskeiðanna kent að búa til um 20 rjetti. Var nemendum skift niður í deildir, þar eð aðsókn var svo mikil, að öll námskeiðin sóttu milli 50 og 100 húsmæður og ungar konur.

Var miklu lofsorði lokið á stjórnsemi og leikni ungfrúarinnar, er sýndi í þessu starfi sínu frábæran dugnað og ósjerplægni. — Um leið og oss er ljúft að gefa ungfrú Björgu Sigurðardóttur hin bestu meðmæli vor, þar sem vjer veittum henni lítilsháttar styrk til námskeiðanna, verðum vjer að telja hina mestu nauðsyn á, að ekki verði staðar numið með að kenna matreiðslu síldar, þar sem hún er viðurkend að vera einhver allra besta fæða, er fæst oft og einatt við svo vægu verði, að neysla hennar ætti að verða miklum mun almennari en verið hefir, þar sem jafnmikið er af henni aflað og hjer á landi“.

Það getur vel verið, að jeg hafi sagt sem svo, að það væri ef til vill neyðin, sem gæti kent okkur að eta síld. En jeg vona, að ekki þurfi að því að reka, að það verði neyðin, sem útbreiðir hana. Jeg held að nú vanti ekki nema herslumuninn. Það er þegar búið að skrifa mikið um þetta mál og brýna það fyrir almenningi, en herslumunurinn liggur í því, að konur, sem kunna þetta starf, ferðist stað úr stað og afli matnum vinfengis. Þetta er svo þýðingarmikið mál, að hv. fjvn. hefði átt að sýna því einhvern sóma, og vona jeg, að hv. dm. geri það.