26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan kafla fjárlagafrv. að þessu sinni. Fjvn. hefir ekki gert við hann nema eina brtt. En áður en jeg minnist á hana, ætla jeg að víxla lítið eitt að þeim breyt., sem urðu á frv. við 2. umr., og útlitinu um afgr. fjárlaganna eins og það nú er.

Tekjubálkur frv. var við 2. umr. hækkaður um 650 þús. kr. Gjöldin hækkuðu um 569 þús. Tekjuafgangur eftir 2. umr. var 134800 kr.

Nú við 3. umr. liggja fyrir allmargar brtt. Fjvn. flytur 13 till., sem nema samtals 106 þús. kr. til hækkunar gjaldanna. Frá einstökum þm. eru fram komnar 75 brtt., sem nema samtals 348 þús. kr. til útgjaldahækkunar. Allar brtt. nema því 454 þús. kr. hækkun á gjöldum fjárlagafrv., eða hátt í ½ milj., og eru þó ótaldar ýmsar lánsheimildir.

Ef allar þessar brtt. næðu samþykki, myndi frv. verða afgr. út úr d. með 320 þús. kr. tekjuhalla. Og ekki er hægt við öðru að búast en að sá tekjuhalli mundi aukast að mun í efri deild. Jeg vil benda á það, að tekjuáætlunin hefir nú þegar verið hækkuð svo mikið sem fjvn. Nd. sá sjer frekast fært. Þegar á alt þetta er litið, getur n. ekki betur sjeð en að mjög sje stefnt í óvænt efni um afgreiðslu fjárl., ef margt þeirra brtt., er fyrir liggja, gengur fram. Hefir hún því eigi sjeð sjer annað fært en leggjast í móti ílestum brtt. einstakra þm., þó að hún vilji eigi neita því, að sumar þeirra horfi til nytsemdar. En eins og málum er komið, telur hún eigi gerlegt að auka útgjöldin til neinna muna; þau eru nú þegar orðin 11 milj. 700 þús. kr. eða fullri milj. hærri en undanfarið hefir hæst verið. Er sýnilega mjög óvarlegt að hlaða nú á þau nýjum upphæðum, svo að verulegu nemi. Vill n. fastlega treysta því, að hún fái samhug hv. d. í þessu máli og að hv. þdm. sjái nauðsyn þess að afgreiða fjárl. án tekjuhalla.

Jeg hefi þá í fáum orðum skýrt fyrir hv. d. horfurnar um afgreiðslu frv. En nú skal jeg snúa mjer að þeirri einu brtt., sem n. ber fram við þann kafla, sem nú er til umr. Þessi brtt. er undir tölulið XVII á þskj. 408 og er um styrk til gistihúsbyggingar á Kolviðarhóli, 6000 kr., fyrri greiðsla. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, liggur mikill gestastraumur um Kolviðarhól, og þykir nauðsyn að tryggja það, að ferðamenn eigi þar kost gistingar og greiða. Ríkið hefir viðurkent þessa nauðsyn með því að greiða bóndanum á Kolviðarhóli nokkurn styrk árlega til að taka móti gestum. Sömuleiðis hefir ríkið aukið á sinn kostnað húsakynni á jörðinni, svo að hægra væri um gistingu. Á ríkið þar tvö hús, annað úr timbri en hitt úr steini, en bæði eru þau nú gömul orðin og lítils nýt. Mjer hefir talist svo til, að ríkið hafi síðan um aldamót lagt fram til jafnaðar á ári sem svarar 800 kr. til Kolviðarhóls. Hafa framlögin vaxið á seinni árum, einkum vegna aðgerðar á húsunum, en nú er svo komið, að þau eru talin alveg ónothæf. Hefir nýlega farið fram skoðun á þeim, og lá álitsgerð skoðunarmanna fyrir n. Voru húsin metin til niðurrifs 1600 kr., en kostnaðurinn við að rífa þau áætlaður 400 kr., svo að raunverulegt verðmæti þeirra fyrir ríkissjóð ætti að vera nál. 1200 kr. Mat þetta var framkvæmt að tilhlutun vegamálastjóra.

Húsakynni bóndans sjálfs eru líka alveg óviðunandi orðin og þarf nauðsynlega að byggja þau upp. Því er það, að hann hefir nú leitað til ríkisins um styrk til byggingarinnar, en býðst hinsvegar til, verði hann veittur, að reka gistihúsið á eiginn kostnað án árlegs styrks framvegis. Við nánari athugun komst n. að þeirri niðurstöðu, að heppilegast myndi vera að verða við þessari beiðni. Vill hún því leggja til, að bóndanum verði veittur 12 þús. kr. byggingarstyrkur, og auk þess verði honum afhent þau hús, sem ríkið á nú á Kolviðarhóli og meta má á 1200 kr. En þessu fylgir sú kvöð af hálfu n., að sá árlegi rekstrarstyrkur, sem hingað til hefir verið greiddur, falli niður og að stj. geti haft hönd í bagga um, að greiði og gisting sje seld sanngjörnu verði.

Jeg vil taka það fram, að það er ekki alveg víst, að bóndinn á Kolviðarhóli gangi að þessu tilboði. Hann fór í erindi sínu fram á miklu hærri upphæð. Vegamálastjóri telur þó líklegt, að honum verði kleift að koma upp húsinu með þessum styrk.

Hv. þdm. hafa sjálfsagt veitt því athygli, að í till. n. er einungis farið fram á 6 þús. kr. upphæð og hún nefnd fyrri greiðsla. N. ætlast til, að 93 styrkurinn sje greiddur á 2 árum, 6000 kr. hvort, og fyrri afborgunin árið 1930.

Jeg skal taka það skýrt fram, til að koma í veg fyrir misskilning, að aths. um eftirlit á verðlagi um gisting og greiða þarna framvegis er á engan hátt beint til þeirra góðkunnu hjóna, sem nú búa á Kolviðarhóli. Þau eru alþekt að sanngirni og hjálpsemi í viðskiftum sínum við ferðamenn. En þeirra nýtur að sjálfsögðu við takmarkaðan tíma og enginn veit, hver síðar kann að taka við þarna.

Hefi jeg svo eigi fleira fram að taka að þessu sinni. Um brtt. einstakra þm. ætla jeg eigi að tala fyr en hv. flm. hafa fengið tækifæri til að mæla fyrir þeim.