26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Jónsson:

Jeg vildi segja nokkur orð um brtt., sem jeg ber fram undir tölulið VI. á þskj. 408, um 2000 kr. sjúkrastyrk til Kristjóns Jónssonar. Jeg var fyrir nokkru beðinn að flytja þessa till., en skoraðist í fyrstu undan að gera það. En þegar jeg sá, að ýmsar svipaðar till. voru samþ. við 2. umr., þótti mjer eigi ástæða til annars en láta hana koma fram.

Um þennan mann, sem hjer ræðir um, stendur svo sjerstaklega á, að hann hefir verið skorinn 9 sinnum upp á 10 árum. Ætla jeg, að dæmi slíks sjeu fátíð. Mein hans er sullur undir hryggnum.

Það verður sjálfsagt sagt, að með því að veita þennan styrk yrði gefið háskalegt fordæmi og að óhugsandi sje, að ríkið hlaupi undir bagga með öllum þeim, sem líkt stendur á fyrir. Jeg skal fúslega viðurkenna, að þeir, sem þetta segja, hafa mikið til síns máls. Jeg held þó, að fordæmið sje varla eins hættulegt og það í fljótu bragði kann að virðast. Það munu ekki vera margir menn, sem hafa verið skornir upp 9 sinnum. Jafnvel þótt ríkið styrkti alla þá, sem svo stæði á um, myndi það ekki verða stór fjárfúlga.

Þessi maður er steinsmiður hjer í bænum. Hann er sjerlega ötull og hefir löngum unnið umfram getu, því sjaldan hefir hann verið þjáningalaus hin síðari árin. Vottorð um heilsufar hans og efnahag liggja fyrir frá Matthíasi lækni Einarssyni og síra Friðrik Hallgrímssyni. Læt jeg svo útrætt um brtt. og fel hana hv. d. til sanngjarnrar fyrirgreiðslu.