26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

16. mál, fjárlög 1930

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla að gera nokkra grein fyrir tveim litlum brtt., sem jeg er við riðinn við þennan kafla. Fyrst er III. brtt., sem jeg flyt ásamt hv. þm. N.-Þ., um að veita 200 kr. læknisvitjunarstyrk til tveggja hreppa, Fjallahrepps í N.-Þingeyjarsýslu og Jökuldalshrepps í N.-Múlasýslu, vegna bygðar á Möðrudalsheiði og Jökuldalsheiði. Jeg efast um, að aðstaða til að vitja læknis sje víða erfiðari en þarna. Þessir hreppar eru mjög afskektir. Það munu vera nálægt 70 km. af Hólsfjöllum til læknis, þar sem styst er, en frá Jökuldalsheiði og Möðrudalsheiði er sumstaðar lengra, sumstaðar styttra. Báðar leiðir eru mjög torsóttar, yfir erfiða fjallvegi að fara. Það gegnir furðu, að ekki skuli fyr hafa komið fram beiðni um þetta, en það mun stafa af hóglæti hlutaðeigandi manna og tómlæti okkar þingmannanna, sem vel hefðum mátt meta þessa aðstöðu til móts við aðrar líkar, sem fyrr hafa verið viðurkendar. En jeg vona, að hv. d. láti ekki hlutaðeigendur gjalda þess, þó að þessi ósk sje seinna fram komin en eðlilegt var. Þetta skiftir ekki miklu fyrir fjárhag ríkissjóðs, en fyrir þessa tvo hreppa er jafnnauðsynlegt að fá þennan ljetti til að vitja læknis eins og þá hreppa aðra, sem notið hafa slíks styrks.

Að lokum skal jeg geta þess, að okkur hefir láðst að gera till. til hækkunar á fjárveitingunni sjálfri, sem stendur fyrir öllum liðnum, en það mun mega leiðrjetta í prentun.

Síðari brtt. mín er VII. brtt. á þskj. 408, um styrk til Evu Hjálmarsdóttur til dvalar á heilsuhæli í Danmörku. Hv. dm. er nokkuð kunnugt um hag þessa sjúklings. Henni hefir verið veittur styrkur a. m. k. tvisvar, og er aðalástæðan til þess sú, að hjer er ekki kostur á hælisvist vegna þess sjúkdóms, sem hún er haldin af. Eftir að hún hefir nú dvalið svona lengi í Danmörku með styrk úr ríkissjóði, er það álit hælislæknisins, því miður, að hún muni ekki fá bót meina sinna. En þarna hefir henni liðið eins vel og kostur er á, en læknirinn álítur, að sjúkdómurinn frekar ágerist en batni, og gæti flutningur á milli landa beinlínis valdið því, að sjúkdómurinn ágerðist. Getur það því verið nokkur ábyrgðarhluti að synja styrksins. Ef hún fær ekki styrk, verður að flytja hana heim, og það má telja víst, að hún yrði af lækni álitin eiga að vera í sjúkrahúsi eða hafa rjett til hælisvistar, og þá er ekki að búast við, að sá kostnaður yrði minni, heldur jafnvel meiri en sá, sem nú þarf að greiða fyrir hana. Hjer er því ekki farið fram á fjárveitingu, sem ekki mundi verða útgjöld ríkissjóðs hvort sem er.